júlí 2014


Mannréttindabaráttumaðurinn og lögfræðingurinn Munir Said Thalib var myrtur með eitri um borð í flugvél á leið til Amsterdam frá Indónesíu 7. september 2004. Talið er að leyniþjónustan í Indónesíu beri ábyrgð á dauða hans en tilraunir til að draga morðingja hans til ábyrgðar í gegnum dómskerfið hafa ekki borið árangur.

Munir í safni helgað minningu hans Omah Munir. Mynd af HWO.

Mynd af Munir í safni helgað minningu hans, Omah Munir. Mynd af HWO.

Nú hefur Suciwati, ekkju Munirs, og nánum vinum hans tekist að byggja upp og opna safn, Omah Munir, í minningu hans. Því miður er heimasíða safnsins ekki enn komin með enska útgáfu en það er í bígerð. Omah Munir þýðir bókstaflega „heimili Munirs“ og er líkt og nafnið gefur til kynna heimilið þar sem hann bjó áður með fjölskyldu sinni. Í safninu gefur að líta persónulega muni Munirs og síðustu stundir lífs hans en líka lýsingu á mannréttindabaráttu hans og stöðu mannréttindamála í Indónesíu.

Markmið aðstandenda safnsins er að fræða unga kynslóð Indónesíubúa um mannréttindabrot hersins og fyrri stjórnvalda og halda áfram baráttunni fyrir að sannleikurinn fyrir fjöldamorðum og glæpum fyrri tíma verði gerður opinber og ættingjar þeirra sem urðu fyrir barðinu á mannréttindabrotum stjórnvalda verði beðnir afsökunar og fái einhverjar sárabætur. Ætlunin er að starfa með skólum í nágrenninu auk þess sem öflugt vinafélag sjálfboðaliða beitir sér fyrir fræðslu og fjárstuðningi en safninu hefur líka borist mikill stuðningur úr ýmsum áttum í samfélaginu.

Nýleg heimildamynd um fjöldamorðin á vinstri mönnum, The Act of Killing, hefur vakið mikla athygli á Vesturlöndum. Hún lýsir morðunum frá sjónarhorni morðingjanna og með þátttöku þeirra. Þeir eru stoltir af verknaði sínum og þess fullvissir um að verða aldrei dregnir til ábyrgðar enda njóta þeir verndar háttsettra aðila. Myndin er áhrifamikil og margverðlaunuð og ég mæli með því að horft sé á hana. Ekki síst til að sjá hvernig leikstjórinn JJoshua Oppenheimer nálgast þetta viðkvæma umfjöllunarefni.

Þrátt fyrir að myndin hafi beint sjónum margra að gömlum syndum Indónesískra stjórnvalda þá virðist hún ekki hafa orðið til mikilla opinberra viðbragða í átt til friðþægingar við aðstandendur fórnarlambanna. Opnun Omah Munir hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum og ágætis umfjöllun um sögu mannréttindabrota í Indónesíu og safnið sjálft má sjá í Jakarta Post og Inside Indonesia. Mannréttindamál og uppgjör við fortíðina hefur einnig haft nokkur áhrif á komandi kosningar í Indónesíu líkt og sjá má á umfjöllun dr. Vannessu Hearman, kennara í Indónesíufræðum við Háskólann í Sidney, á History Workshop Online og í Inside Indonesia.

Í dag muna fáir af yngri Indónesunum eftir harðstjórn Suhartos og margir sjá efnahagslegan stöðugleika þess tíma í glæstu ljósi – ekki ósvipað því sem margir rússar líta aftur til Stalínstímans. Starf safnsins er því mikilvægt og góð ábending um að hægt er að vinna jákvætt úr erfiðum málum sem snúa að gjörðum og þöggun stjórnvalda.

Nóbelsskáldið Orhan Pamuk skrifaði bókina Museum of Innocence sem kom út árið 2009. Þetta er heillandi ástarsaga eða kannski réttar sagt þráhyggjusaga af því þegar Kemal, ungur maður í efri millistétt í Istanbul í Tyrklandi, verður ástfanginn af ungri konu, Füsun, þrátt fyrir að vera trúlofaður annarri.
Hann stofnar til framhjáhalds og ást hans verður brátt að þráhyggju. Síðar giftist Füsun öðrum manni en það kemur ekki í veg fyrir að Kemal heimsæki hana og fjölskyldu hennar árum saman til þess að vera nálægt henni. Til að bæta gráu ofan á svart tekur hann til við að stela hlutum af heimili hennar og sem tengjast stúlkunni til að fullnægja þráhyggju sinni. Með þessu móti fullnægir hann þörf sinni fyrir nærveru við markmið þráhyggju sinnar.
Þessi söfnunarástríða Kemals er kjarni sögunnar og hann stofnar síðan safn sem inniheldur gripi Füsuns og „fær“ Pamuk til að skrifa um ástarævintýri þeirra Füsuns og uppbyggingu safnsins.

Museum of Innocence

Í þessari blaðagrein, sem Pamuk skrifar, lýsir hann áhuga sínum og hrifningu af litlum persónulegum söfnum, líkt og hann reyndar segir afskaplega vel frá í bókinni. Hann segir frá tildrögum bókarinnar sem eru raunar þannig að hann var sjálfur byrjaður að safna hlutum sem tengdust mannlífi í Istanbul á áttunda og níunda áratuginum. Eftir að hafa safnað hlutum um árabil með óljósa hugmynd um að gera úr þeim safn um leið og hann skoðaði fjölda safna út um allan heim á ferðalögum sínum kviknaði sú hugmynd hjá honum að skrifa ástarsögu um mann sem safnaði hlutum sem tengdust þráhyggju sinni um að vera nær ást sinni. Eftir því sem sagan þróaðist segist Pamuk hafa farið að safna gripum sem tengdust betur sögunni auk þess sem hann þurfti að endurskrifa söguna margoft til að koma að nýjum sýningargripum.
Þannig má segja að sagan kvikni vegna söfnunarástríðu Pamuks sjálfs og áhuga á að byggja upp lítið safns í mynd þeirra safna sem hann hreifst mest af á ferðalögum sínum. Úr verður að Pamuk festir kaup á íbúð sem verður hluti sögunnar og lætur gera íbúðina að safni – Museum of Innocence.

Sígarettustubbar

Hluti 4213 sígarettustubba sem Kemal safnaði í laumi eftir að Füsun, ástin í lífi hans, hafði reykt þá. Við stubbana eru skráðar dagsetningarnar þegar Kemal náði stubbunum og vangaveltur sögupersónunnar yfir mögulegu skaplyndi Füsuns er hún reykti viðkomandi rettu. (Xinhua/Ma Yan)

Við lestur sögunnar um Museum of Innocence þá hrífst maður af lýsingum Pamuks af lífi millistéttarinnar í Istanbul þar sem vestræn menning er að festa rætur og rekst á við íhaldssama og rótgróna tyrkneska menningu. Við kynnumst innreið tyrknesks kvikmyndiðnaðar sem um tíma er þriðji stærsti í heimi á eftir Hollywood og Indlandi. Sömuleiðis stöðugum átökum hryðjuverkamanna, yfirvalda og stjórnarbyltinga þar sem nýjar og nýjar herstjórnir taka völdin. Allt þetta virðist þó lítil áhrif hafa á auðuga millistéttina sem nýtur lífsins á meðan.

Pamuk í safninu

Höfundurinn og stofnandi safnsins, Orhan Pamuk.

Þrátt fyrir að viðfangsefni Museum of Innocence sé á mörkum ímyndunar og raunveruleika þá, en reyndar einmitt þess vegna, fékk það Evrópsku safnaverðlaunin 2014.
Í umsögn dómnefndar segir:

The Museum of Innocence can be seen simply as a historical museum of Istanbul life in the second half of 20th century. It is also, however, a museum created by writer Orhan Pamuk as an integral, object-based version of the fictional love story of his novel of the same name. The Museum of Innocence is meant as a small and personal, local and sustainable model for new museum development. The Museum of Innocence inspires and establishes innovative, new paradigms for the museum sector.

This museum fulfils to the highest degree the notion of “public quality”, from the point of view both of heritage and of the public. (http://www.europeanmuseumforum.info/component/content/article/107-european-museum-of-the-year-award-2014-.html)

Ákaflega merkilegt afrek og sjálfur segir Pamuk að hann hafi mest gaman af því hve safnið verði lifandi í augum safngestanna. Persónur bókarinnar verði nánast sem lifandi verur í augum gestanna og skil veruleika og skáldskapar hverfi og bæði renni saman í eitt.

Að lokum þá bendi ég á að fyrir þá sem einnig sammála eru hrifningu Pamuks af aðdráttarafli lítilla persónulegra safna þá má sjá hér kort yfir „lítil“ söfn í París. Vonandi nýtist það einhverjum vel í næstu Parísarferð.

Paul von Hindenburg

Paul von Hindenburg er á meðal þeirra sem hefur götu skírða í höfuðið á sér. Bundesarchiv, Bild 183-U0618-0500 / CC-BY-SA

Borgarminni er heillandi viðfangsefni sem snertir menningarlandslag og hvernig menning okkar birtist meðal annars í borginni. Þessi birtingarmynd getur verið í nafngiftum, arkitektúr, mannlífi og iðnaði svo eitthvað sé nefnt. Þannig getum við lesið sögu okkar og þéttbýlisins út úr „fornleifum“ borgarinnar sem þó eru kannski bara nokkurra ára gömul.

Dacosto er þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnafréttaflutningi með gagnvirkum máta og hefur hannað lítið en snjallt götukort af Berlín. Vefsvæði fyrirtækisins sem útleggja mætti á okkar ástkæra ylhýra sem vefsvæðið Gatnastríð sýnir skemmtilegt gagnvirkt götukort af Berlín þar sem gefin eru upp götunöfn sem tengjast hernaði. Þú getur valið að skoða götunöfn er tengjast ákveðnum tímabilum í sögu Þýskalands, ófriðum og eða að skoða götuheiti sem eru flokkuð eftir persónum, töpuðum landssvæðum, hernaðarbyggingum o.s.frv. Til viðbótar að gefa upp þessi götunöfn og merkja þau inn á Berlínarkort býður forritið líka upp á nánari upplýsingar um viðkomandi götur, s.s. póst- og húsnúmer, sögu götunnar, hvaðan heiti strætisins er runnið og sögu atburðarins/ fyrirbærisins eða einstaklingsins.

Snjöll hugmynd sem gefur áhugasömum færi á að kynnast borginni betur hvort sem það er sem ferðamaður, borgarbúi eða af fræðilegum áhuga s.s. vegna myrkvatúrisma eða sagnfræðilegum.

Svona gerist of oft hver sem verslunin er – og á náttúrulega ekki að líðast.

DR. GUNNI

2014-07-18 12.42.39
Ég er svaka sólginn í svona kleinuhringja-ferskjur (eða hvað þetta heitir). Þetta er árstíðarbundin vara eins og kirsuberin (annað uppáhald) og bara til í 1-2 mánuði á sumrin. Framvegis mun ég þó muna að kaupa þetta ekki í forpökkuðum umbúðum heldur þukla hvern ávöxt í lausu. Það er fáránlega svekkjandi eftir að hafa étið 2 ferskur (sem voru frekar vondar) að restin sé orðin svona daginn eftir að maður kaupir þetta. Nóatún bauð upp á þennan viðbjóð. Líklega best að hætta bara að eiga viðskipti við Nóatún – rándýr búð og léleg.

View original post