Nákvæm vistun og skráning skjala er hverju samfélagi nauðsynleg. Bæði til að tryggja framgang verkefna og sögulegt samhengi en einnig til að geta varast að mistök endurtaki sig og að hægt sé að hylma yfir  vafasöm ef ekki beinlínis glæpsamleg athæfi.

Í þessari frétt The Times of India, Britain burnt ’embarrassing’ documents of colonial crimes, og frétt blaðamannsins Cahal Milmos hjá The Independent, Revealed: How British Empire’s dirty secrets went up in smoke in the colonies, má sjá umfjallanir um hvernig starfsmenn Breska heimsveldisins unnu skipulega að því að hreinsa skjalasöfn sín af ummerkjum um mismunun kynþátta, glæpi og skammarlega hegðun samkvæmt skipunum og leiðbeiningum frá Bretlandi. Skjalahreinsunin, eða eigum við að segja sögufölsunin því að með því að eyða skjölum er verið að reyna að breyta sögu heimsveldisins, fékk aðgerðarheitið Aðgerð Arfleifð (e. Operation Legacy), í samræmi við tilgang sinn.

Starfsmennirnir gættu sín þó ekki á því að það er hægt að rekja alla pappírsslóð og á endanum neyddist ríkisstjórnin til að aflétta leynd af hálfrar aldar gömlum skjölum frá því á sjötta áratug síðustu aldar sem komu upp um tilraunina til sögufölsunar eftir málsóknir fórnarlamba frá fyrrum nýlendum Breta. Afleiðingin varð sú að breska ríkisstjórnin varð að greiða 20 milljónir punda í skaðabætur og utanríkisráðherrann William Hague neyddist til að biðjast opinberlega afsökunar á ódæðum Breta.

Auglýsingar