Fyrirlestur


Naut þeirrar ánægju að vera boðið nýlega til að flytja smá tölu við samkomu félagsskapar sem kallar sig Postulana. Þeir hafa hist vikulega við boltasprikl undanfarin átján ár. Geri aðrir betur.

Þrátt fyrir að þeir hittist að loknu mánudagssparki á næsta pöbbi og séu flestir á mjög virðulegum aldri má alls ekki falla í þá gryfju að telja þá á meðal bumbusparkara sem eru einungis að þessum hittingi til að geta hist yfir ölkollu. Onei.

Þeir eru mikil baráttuljón og keppnin er þeim ofar öllu. Yfir þeim drottnar pönkari

Valgarður Guðjónsson

Valgarður Guðjónsson. Mynd fengin af vefsíðu hans.

Íslands, Valgarður Guðjónsson sem söng og spilaði á gítar í Fræbblunum. Fyrir áhugasama má fylgjast með honum á bloggsíðu hans hér. Um Postulana má hins vegar fræðast á sérstakri vefsíðu þar sem mörkum hvers og eins, markvörslu, gengi í liðakeppni o.s.frv. o.s.frv.

 

 

Uppskeruhátíðin er síðan ávallt haldin að vori – að ég held. Þar fá menn viðurkenningar fyrir markaskor, vörslu o.s.frv. og ekki síst fyrir heildarskor eftir mjög flóknu kerfi sem sjá má á vefsíðunni. Valgarður heldur þétt um þennan hóp og mér skilst að hann sé bæði hjartað og heilinn í félagskapnum.

Arnar

Arnar Sigurbjartsson. Fésbókarmynd hans.

Arnar Sigurbjartson, málari, boltaspriklari og þjálfari, bauð bæði mér og Ingólfi Guðnasyni, lífrænum kryddbónda og miðaldamatgæðingi, til að uppfræða Postulana um matarmenningu og annað vesen hérlendis á 13. öld. Postularnir fjölmenntu heim til Arnars og Unnar Malínar sem héldu þeim upp á skemmtidagskrá fram eftir degi með skoðunar- og skemmtiferðum um sveitina.

Er kvöldaði og Ingólfur hóf matargerð að hætti búrkvenna höfðingja 13. aldar fræddi ég Postuluna um Sturlungaöldina sem stóð einungis í rúm fjörtíu ár en var mikið ofbeldistímabil. Að því loknu settumst við að snæðingi ljúfrar margrétta máltíðar sem var sannarlega höfðingja matur og Ingólfur á mikinn heiður skilið fyrir.

Í lokin læt ég svo fylgja erindið sem ég flutti fyrir Postulana. Það er einnig að finna á Vísindavefnum þar sem ég svaraði spurningu um þetta tímabil. Verði ykkur að góðu.

 

Hvað var Sturlungaöldin?

Vísindavefsgrein flutt yfir virðulegum
Postulum í árshittingi að Reykjavöllum 30. 4. 2016

Sturlungaöldin var í raun einungis 42-44 ára tímabil á miðri 13. öld. Hún er einn ofbeldisfyllsti tími Íslandssögunnar. Sturlungaöldin einkenndist af liðssafnaði valdamikilla höfðingja sem herjuðu hverjir á aðra með vígaferlum og gripdeildum. Sturlungaöldin dregur nafn sitt af Sturlungunum sem voru valdamesta ættin á Íslandi á þessu tímabili. Við lok Sturlungaaldarinnar komst landið undir erlend yfirráð og við það lauk þjóðveldistímanum sem hófst við landnámið.
Almennt er miðað við árið 1220 sem upphafsár Sturlungaaldarinnar því þá fer fyrst að gæta tilrauna Hákonar gamla Noregskonungs til að leggja Ísland undir norsku krúnuna. Honum tókst svo ætlunarverk sitt á árunum 1262-64 og þar með lauk sturlungaöldinni.
Um 1220 var farið að gæta töluverðrar valdasamþjöppunar og valdagrunnur helstu valdaætta landsins var orðinn nokkuð traustur. Þessar helstu valdaættir voru Haukdælir, sem voru staðsettir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Ásbirningar í Skagafirði, Vatnsfirðingar við Ísafjarðardjúp, Svínfellingar á Austurlandi og svo auðvitað Sturlungar sem eru kenndir við Sturlu Þórðarson í Hvammi í Dölum. Synir hans, Þórður, Sighvatur og Snorri, mynduðu síðan áhrifasvæði á Stað á Ölduhrygg um Snæfellsnes, Grund í Eyjafirði og Borg á Mýrum.
Aukin áhrif og ásælni konungs má rekja til þess að með falli Skúla jarls lauk innanlandsófriði í Noregi. Eftir það gat Hákon einbeitt sér að utanríkispólitík og reynt að auka áhrif sín hér á landi. Hákon valdi sér þá leið að gera íslenska höfðingja að lénsmönnum sínum. Þeir urðu þá að gera það sem hann bauð þeim en í staðinn þágu þeir af honum meðal annars gjafir, fylgdarmenn og virðingu. Því leið ekki á löngu þar til margir helstu höfðingjar Íslendinga voru orðnir handgengnir Noregskonungi.

Konungur naut þess einnig að kirkjan á Íslandi laut yfirstjórn erkibiskupsins á Niðarósi. Eitt helsta baráttumál kirkjunnar á þessum tíma var að tryggja frið og því sóttist hún eftir því að lægja ófriðarbálið hér á Íslandi. Árið 1247 urðu svo þáttaskil þegar Vilhjálmur kardínáli kom til Noregs til að vígja Hákon konung. Kardínálinn taldi mikilvægt að Ísland lyti einum manni og eftir þetta störfuðu kirkjan og norska krúnan saman að því að koma Íslandi undir Hákon. Á þessum tíma var þjóðerniskenndar ekki farið að gæta auk þess sem það þótti ekki bara eðlilegt heldur einnig sjálfsagt að vera undir stjórn konungs.

En hvað olli þessum miklu hamförum á Sturlungaöld sem lauk með því að Noregskonungi tókst að sölsa undir sig landið?

Fljótlega eftir að landnám landsins hófst komu bændur og höfðingjar sér upp valdakerfi sem fólst í persónulegu og gagnvirku sambandi bóndans annars vegar og goðans, höfðingjans, hins vegar. Landinu var skipt upp í landsfjórðunga og innan hvers fjórðungs voru síðan þrjár þingháir sem hver hafði þrjú goðorð eða goða. Að auki voru þrjú auka goðorð í Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur á landinu. Allt í allt voru þá 39 goðar starfandi.

Goðarnir vernduðu bændurna og gengu erinda þeirra á þingi ef brotið var á þeim en í staðinn hétu bændurnir goðanum liðveislu og stuðningi. Þeir studdu hann þá bæði á þingi sem þingmenn hans og utan þess ef hann þurfti þess með, til að mynda vegna herleiðangra.

Völd goðans voru hins vegar ekki varanleg. Í samfélaginu myndaðist flókið samspil virðingar, heiðurs, valda og efnahags. Goðarnir urðu stöðugt að sýna fram á hæfni sína, hugrekki og fágun. Þeir urðu sömuleiðis að halda helstu stuðningsmönnum sínum glæsilegar veislur og gefa þeim góðar gjafir til að tryggja sambandið þeirra í millum. Með því að þiggja gjöf varð þiggjandinn nefnilega skuldbundinn gefandanum og varð að koma honum til aðstoðar æskti hann þess.

Svo virðist sem goðarnir hafi sóst eftir því að búa í alfaraleið til að eiga frekar möguleika á að sýna glæsikynni sín og geta sýnt gestrisni sína. Veislur, gjafir, utanferðir (bæði til konungs og suður til Rómar), hjónabönd og frillur. Allt þjónaði þetta þeim tilgangi að auka virðingu höfðingjans og tryggja tengslin við stórbændur og aðra höfðingja. Stæði goðinn sig hins vegar ekki átti hann það á hættu að þingmenn hans yfirgæfu hann og sneru sér til annars öflugri goða eða jafnvel stórbónda sem ásældist pólitísk áhrif og var oft auðugri en goðinn ólánsami. Til dæmis virðist Hvamm-Sturla, ættfaðir Sturlunga, upphaflega hafa verið bóndi sem reis til vegs og virðingar og varð að lokum einn áhrifamesti goði síns tíma.

Auðsöfnun var áberandi á meðal helstu höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Lengi vel töldu fræðimenn að þessi auðsöfnun hefði verið undirrót þeirra ragnaraka sem skóku samfélagið á Sturlungaöld. Nú hallast menn þó flestir að því að um flókna samfélagslega þróun hafi verið að ræða sem finna má samsvörun í öðrum samfélögum erlendis sem skorti miðstýrt vald eins og íslenska þjóðveldið. Hafa menn borið goðana saman við höfðingja sem kallaðir hafa verðið stórmenni (big-men) og stórgoðana sem síðar komu fram á sjónarsviðið við foringja (chiefs). Helsti munur á eðli þessara höfðingjatigna var sá að stórmenni byggðu völd sín á persónulegu gagnkvæmu sambandi við fylgismenn sína sem fengu auð hans jafnan til baka í formi gjafa. Foringjar réðu hins vegar yfir landfræðilega afmörkuðu landsvæði, voru töluvert auðugri og gátu lagt á tolla og skatta. Þeir höfðu oft á að skipa einkaher og völd foringjans voru alla jafna arfgeng.

Valdasamþjöppun er talin hefjast hér á 11. öld þegar goðaættir Haukdæla ogOddaverja sjá sér leik á borði og byrja að sölsa undir sig önnur goðorð innan sömu þingháar. Þessar ættir og aðrar í kjölfar þeirra mynduðu nú smáríki eða héraðsríki sem höfðu afmörkuð landamæri og urðu allir bændur innan þeirra að lúta vilja stórgoðans. Við þetta hefst umbreyting á hlutverki goðans yfir ístórgoða.

Þessi valdasamþjöppun virðist hafa byrjað á Suðurlandi en endað á Vestfjörðum. Stóru höfðingjaættirnar, sem höfðu þá þegar myndað sér héraðsríki, bitust harkalega um völdin á svæðunum þar sem valdasamþjöppunin gerðist síðast. Átök og hernaðarbandalög milli ættanna samfara aukinni stigmögnun fylgdu því óhjákvæmilega í kjölfarið.

Lítum að lokum sem snöggvast yfir atburðarás Sturlungaaldarinnar:

Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Snorri Sturluson gerðist lénsmaður Noregskonungs. Konungur fór þess á leit við Snorra að hann kæmi Íslandi undir norsku krúnuna. Snorri gerði hins vegar lítið til þess þótt hann yrði skjótt einn valdamesti höfðingi landsins.

Árið 1235 gerðist einnig Sturla Sighvatsson, bróðursonur Snorra, lénsmaður Hákonar gamla Noregskonungs. Sturla var mun harðskeyttari en Snorri og rak hann fljótlega út til Noregs til fundar við konung og hóf síðan hernað á hendur öðrum höfðingjum til að brjóta landið undir sig og konung. Sturla og Sighvatur faðir hans biðu hins vegar frægan ósigur fyrir Gissuri Þorvaldssyni, höfðingja Haukdæla, og Kolbeini unga, höfðingja Ásbirninga, við Örlygsstaði í Skagafirði 1238. Þeir Gissur og Kolbeinn ungi urðu í kjölfarið valdamestu höfðingjar landsins.

Snorri sneri skjótt heim til Íslands í óþökk konungs enda varð hann uppvís að því að hafa stutt Skúla jarl gegn Hákoni gamla í misheppnaðri uppreisnartilraun hans í Noregi. Gissur Þorvaldsson var lénsmaður konungs, eins og svo margir íslenskir höfðingjar. Hákon konungur krafðist þess að Snorri yrði drepinn og fór Gissur þá að kröfu hans og drap Snorra árið 1241.

Ári síðar kemur til landsins Þórður kakali Sighvatsson. Hann átti harma að hefna eftir að bræður hans og faðir voru vegnir við Örlygsstaði og sýndi skjótt að hann var mikilhæfur herforingi og leiðtogi. Fjórum árum síðar var veldi Ásbirninga hrunið eftir stöðugar skærur við Þórð. Má hér nefna Flóabardagaárið 1244, einu sjóorrustu Íslandssögunnar, og mannskæðasta bardagann,Haugsnesbardaga árið 1246, þar sem nær hundrað manns féllu.

Þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson lögðu þó ekki í hernað hvorir gegn öðrum heldur skutu máli sínu til konungs þar sem báðir voru þeir lénsmenn hans. Að ráði Vilhjálms kardínála úrskurðaði Hákon Þórði í vil og árin 1247-50 var Þórður nær einráður hérlendis. Konungur kallaði hann þá á sinn fund og setti Þórður menn sér handgengna yfir veldi sitt áður en hann fór utan. Þórði kakala auðnaðist aldrei að koma aftur til ríkis síns því hann lést í Noregi sex árum síðar eftir að hafa loks fengið brottfararleyfi frá Hákoni.

Árið 1252 sendi konungur Gissur til landsins í stað Þórðar. Menn Þórðar voru ekki sáttir og fóru að honum við Flugumýri í Skagafirði og reyndu að brenna hann inni. Þrátt fyrir að vera valdamesti höfðingi landsins reyndist Gissuri ekki unnt að ná foringjum brennumannanna og árið 1254 var honum stefnt til Noregs því konungi þótti hann ekki standa sig í því að koma landinu undir norsku krúnuna.

Vígaferlin héldu áfram og brátt var Gissur sæmdur nafnbótinni jarl og sendur aftur til landsins. Konungi tókst hins vegar ekki að fá landsmenn til að játast sér fyrr en hann hafði sent hingað Hallvarð gullskó sérlegan fulltrúa sinn til að ganga erinda sinna.

Auglýsingar

Á föstudaginn kemur munu ég og Þóra Björk Ólafsdóttir, safna- og viðskiptafræðingur, kynna MA-ritgerðir okkar í málstofu sem verður í Listasafni Íslands, líkt og sést á fréttatilkynningu Listasafnsins sem sést hér að neðan. Nú er að krossleggja putta í von um góða aðsókn og ekki síður um skemmtilegar umræður að lokinni kynningu.

MÁLSTOFA – SÖFN OG SAMFÉLAG
Föstudaginn 19. apríl kl. 15.00 – 17.00 verður haldin málstofa um söfn og samfélag í Listasafni Íslands við Tjörnina í samstarfi við Félag íslenskra safnafræðinga, Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands og Listasafn Íslands. Rætt verður um hlutverk safna í samtímanum, rekstargrundvöll og samfélagslega ábyrgð. Tvær nýjar rannsóknir á sviði safnafræði verða kynntar. Skúli Sæland mun kynna niðurstöður rannsóknar sinnar, Vinna fúslega gefin. Skoðun á eðli og hlutverki sjálfboðavinnu við menningarstofnanir og Þóra Björk Ólafsdóttir mun kynna rannsókn sína Talnasafn. Greining á rekstrarumhverfi safna í eigu annarra en ríkisins. Málstofan er öllum opin og ókeypis aðgangur.

Nánari upplýsingar veita Rakel Pétursdóttir og Sigurjón Baldur Hafsteinsson

Dagskrá

15.00 – 15.20
Vinna fúslega gefin. Skoðun á eðli og hlutverki sjálfboðavinnu við menningarstofnanir.
Skúli Sæland, safnafræðingur og sagnfræðingur.

Umræður

15.45 – 16.05
Tölum safnað: Rekstrarumhverfi safna á Íslandi – staða safna út frá gögnum safnasjóðs. Mörg söfn á Íslandi hafa lítið rekstrarfé á milli handanna og fáa starfsmenn. Í erindinu verður reynt að varpa ljósi á rekstur 52 safna á Íslandi árið 2010 sem eru ekki í eigu ríkisins og skoðað hvort einhver ákveðin tegund safna sker sig úr hvað varðar rekstrarumhverfi. Önnur ár verða einnig skoðuð til samanburðar ásamt framlögum til ríkissafna á sama tíma.

Þóra Björk Ólafsdóttir, safnafræðingur og viðskiptafræðingur.

Umræður

16.30 – 16.45
Kynning á Félagi íslenskra safnafræðinga.
Rakel Pétursdóttir, formaður

Fundarstjóri
Rakel Pétursdóttir

Hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?

Þriðja og síðasta umræðudagskrá í tengslum við sýninguna AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA fer fram nk. sunnudag, 13. júní kl. 15 í Listasafni Árnesinga.

Að þessu sinni er spurt  hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?  Inngangserindi flytur Skúli Sæland fyrir hönd Upplits – menningarklasa Uppsveita Árnessýslu. Hann mun skoða og skilgreina nærsamfélagið, tengsl þess við hið stærra samfélag og hvernig safnið getur virkað sem gátt milli nær- og fjærsamfélagsins.  Inngangserindi flytja einnig sýningarstjórarnir Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir. Þau munu gera grein fyrir núverandi sýningu og fjalla um hlutverk sýningarstjóra og miðlunarþátt safnsins. Ingirafn er starfandi myndlistamaður, Ólöf Gerður er mannfræðingur og forstöðumaður Rannsóknar-þjónustu Listaháskóla Íslands og Skúli Sæland er sagnfræðingur og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun og safnafræði.

Núverandi sýning AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA er sýning 15 samtímalistamanna sem allir takast á við samtímaviðfangsefni og varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar.

Listamennirnir nálgast viðfangsefnið á margslungna vegu og verkin fjalla í senn um miðlun þekkingar og aðgengi að henni, aðferðafræði myndlistarmannsins við þekkingarsköpun sem og eðli og mismunandi tegundir þekkingar í samfélaginu. Sýningin vekur einnig upp spurningar um skilin milli persónulegrar þekkingar og sameiginlegrar þekkingar, vald og ábyrgð þeirra sem búa yfir þekkingu, sem og fagurfræði þekkingar.

Sýningin mun standa til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18.  Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar: http://www.listasafnarnesinga.is/list/

Brúarfoss í Brúará

Brúarfoss í Brúará

Menningarhátíð og guðþjónusta verður haldin í Úthlíð 9. júlí á afmælisdegi kirkjunnar.
Framundan er samstarfsverkefni við ferðaþjónustuna í Úthlíð þar sem gengið verður að Brúarfossi í Brúará. Þetta er afskaplega fallegur foss sem býr yfir dramatískri sögu um að biskupsfrúin Helga Jónsdóttir og bryti hennar hafi látið brjóta niður steinboga sem lá yfir hann. Þetta gerðu þau til að varna fátæklingum að komast að Skálholti. Grimmileg frásögn en til þessa hafa menn ekki þorað að taka afstöðu til þess hvort um helberan uppspuna sé að ræða eða hvort slíkur steinbogi hafi í raun og veru legið yfir fossinn.
Ég lagðist smá rannsóknir og fann skemmtilega mikið sem styður þessa frásögn. Vonandi verður þetta skemmtileg ganga með góðri kvöldstund þar sem göngugestir munu taka þátt í samræðum um þessa gömlu sögu.
Eftirfarandi dagskrá er að finna á heimasíðu ferðaþjónustunnar í Úthlíð, http://www.uthlid.is:
Mæting í Réttina kl. 17.00, farið að Brúará. Kl. 20.00 hefst messa í Úthlíðarkirkju, að messu lokinni verður Skúli Sæland sagnfræðingur og menningarmiðlari með fyrirlestur um steinbogann í Brúará og veitingar í Réttinni.

Fimmtudagur 9. júlí

Mæting í Réttina kl. 17.00, sameinast í bíla og ekið sem leið liggur að Vallá og gengið þaðan að Brúará, gamla brúin skoðuð og minjar um steinbogann. Síðan er gengið til baka í bílana og þeir sem vilja ganga lengra fara eftir Kóngsveginum heim í Úthlíðarkirkju undir fararstjórn heimamanna.

Kl. 20.00 hefst messa í Úthlíðarkirkju, sr. Egill Hallgrímsson messar og Jóhann Friðgeir Valdimarsson syngur einsöng, Jón Björnsson kantor annast undirleik.
Að messu lokinni hefst samkoma í Réttinni, en þar verður í boði grænmetissúpa og fróðlegur fyrirlestur sem Skúli Sæland sagnfræðingur og menningarmiðlari mun flytja um steinbogann í Brúará.

Frekari upplýsingar má líka sjá á hópsvæðinu „Sögubrot síðustu alda“ á Facebook undir viðburðir og myndir, http://www.facebook.com/topic.php?uid=37580109882&topic=7060#/group.php?gid=37580109882
Vonast til að sjá sem flesta.
Reblog this post [with Zemanta]