Upplit-menningarklasi uppsveita Árnessýslu


Mynd af vefsíðu Ferðaþjónustunnar Úthlíð sem sýnir gönguleiðir á svæðinu.

Ég vann skemmtilegt verkefni fyrir tæpum þremur árum síðan þegar ég leiddi gönguhóp um Úthlíðarhraun ásamt systkinunum Hjördísi og Ólafi Björnsbörnum. Við gengum upp á Kolgrímshól sem er hæsti hóllinn í hrauninu og var markmiðið að finna kolagrafir sem þar áttu að vera og í kjölfarið hélt ég stutt erindi í Réttinni í Úthlíð þar sem ég sagði stuttlega frá kolagerð áður fyrr og hverjar gætu verið mögulegar skýringar örnefnis Kolgrímshóls.

Fræðslugangan var farin í samstarfi við Upplit – menningarklasa uppsveita Árnessýslu og var skipulögð með Ferðaþjónustunni í Úthlíð sem þau Dísa og Ólafur reka.

Ég gróf aðeins í innviðum tölvu minnar nýlega og sótti verkefnið til að fínpússa það því mér datt í hug að deila því hér með ykkur. Vonandi njótið þið þess. Myndir frá viðburðinum má sjá hér á vefsíðu Upplits.

Kolgrímur kolagerðarmaður

Formáli

Í Úthlíðarhrauni má finna marga fallega staði og sérkennileg örnefni sem sum hver búa yfir skemmtilegum sögum sem útskýra nánar tilurð heitisins en í öðrum tilfellum höfum við einungis örnefnið eitt og sér og því getur verið erfitt að átta sig á orsökum nafngiftarinnar.

Markmið þessa viðburðar í dag er að reyna að komast að orsökum örnefnisins Kolgrímshóll. Í örnefnaskrám er Kolgrímshól lýst þannig að hann sé „stærsti og fegursti hóllinn í hrauninu, skógi vaxinn að vestan að brún“ og að hann sé úr grágrýti og því hljóti hann að hafa staðið upp úr hrauninu þegar það rann. Um ástæður örnefnisins segir hins vegar einungis að „[n]afnið bendir til, að þar hafi áður verið gert til kola, enda má víða sjá móta fyrir gömlum kolagryfjum.“

Þetta getur verið erfið leit og háð óvissu og tilgátum en ég ætla að reyna að kynna fyrir ykkur bakgrunnsupplýsingar sem vísa okkur veginn að mögulegri skýringu á örnefninu Kolgrímshóll.

Kolagrafirnar við Kolgrímshól

Þegar gengið er við Kolgrímshól má finna fjölda gamalla kolagrafa við syðri enda Kolgrímshóls. Þessar kolagrafir eru margar illsýnilegar enda er svæðið vel gróið birkikjarri. Þessi ummerki benda til þess að töluvert hafi verið um vinnslu kola áður fyrr en þrátt fyrir trén sem eru uppi við hólinn er ekki mikið um birki á svæðinu. Vel þekktar eru þó frásagnir og ummerki um að landið hafi verið skógi vaxið við landnám. Slæmt árferði, ágangur búfjár og ekki síst kolavinnsla forfeðra okkar eru taldar helstu ástæður þess hve lítið er af skógi um allt Ísland.

Afhverju var kolavinnslan svo umfangsmikil?

Nútíma Íslendingurinn á erfitt með að átta sig á því hvernig kolavinnsla gat verið jafn eyðandi og umfangsmikil og heimildir greina frá. Við skulum því skoða aðeins mikilvægi hennar í búskap forfeðra okkar.

Kolagerð var landbúnaði mikilvæg iðngrein því að kol voru nauðsynleg við járngerð og smíði allra verkfæra úr málmi. Einkum þurfti þeirra við til dengja ljái við viðarkolaeld. Birkiviður var yfirleitt notaður til að búa til viðarkolin.

Hvernig voru kol gerð úr viði?

Viðarkol voru gerð þannig að viðurinn var kurlaður í smátt, kurlið látið í gryfjur, síðan kveikt í því og grafirnar byrgðar með torfi til þess að ekki logaði upp úr. Gryfjurnar hafa oftast verið þar sem skógurinn var höggvinn. Þær hafa verið misdjúpar og ákvæði voru í lagabálkum um að hylja ætti grafirnar eftir notkun til þess að sauðfé færi ekki í þær. Um kolagerð er líka oft getið í fornsögum, og oft er kveðið á um réttindi til kolviðarhöggs og kolagerðar í máldögum og jarðakaupabréfum frá miðöldum. Örnefni er líka víða að finna um land þar sem nú eru litlar eða engjar menjar um kolskóg.

Kolagröfin sjálf var tæplega tveir til þrír og hálfur metrar að þvermáli og rúmlega metri á dýpt. Kurlinu var raðað í hana, og voru stærstu stykkin sett neðst. Kúfur var hafður á gröfinni sem var um það bil metri á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mold mokað yfir gryfjuna svo að hvergi kæmist loft að. Kolagröfin var opnað eftir þrjá eða fjóra daga og kolin tekin upp. Kolagerðarmenn gátu vænst þess að fá að jafnaði fjórar til fimm tunnur kola úr slíkri gröf.

Kolavinnsla í uppsveitum Árnessýslu

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar sést að skógar eru nytjaðir á nokkrum jörðum, einkanlega til eldiviðar, kolagerðar og beitar, en allstaðar virðist hann þá vera á undanhaldi. Á Felli er skógur bjarglegur til kolagerðar, en hefur eyðst fyrir aðsókn annarra. Á Vatnsleysu nýttist hann til eldingar og beitar. Í Haukadal er hann mikið eyddur, en var mikill áður fyrr, einkum hafði hann látið ásjá eftir Heklugosið 1693. Getið er um skóg í Helludal. Í Neðradal er hann til gagns en hafði verið mikill. Í Austurhlíð hafði verið mikill skógur, en eyddist mikið í Heklugosi 1693 en er byrjaður að hjarna við eftir það. Svipað var komið fyrir skógi í Úthlíð. Þar og í Haukadal var stundað skógarhögg fyrir Skálholtsstað. Á Miðhúsum og Brekku höfðu verið skógar, en voru þá mjög eyddir. Á Efri-Reykjum var skógur nærri gjöreyddur. Eitthvert rifhrís var í Miklholti. Sagt er, að kirkjan í Bræðratungu hafi átt skógarpart undir Bláfelli og Torfastaðakirkja í Sandvatnshlíð, en þeir skógar eru sagðir gjöreyddir og komnir undir sand þegar Jarðabókin var skráð.

Þegar nítjánda öldin var nærri hálfnuð voru sáralitlar skógarleifar eftir í Haukadalssókn samkvæmt sóknarlýsingum og enn minni í Fellsfjalli. Út með Hlíðum voru þá skógar, hvorki stórir eða víðlendir og í afturför.

Þorvaldur Thoroddsen segir í Lýsingu Íslands 1881 að skóglendi í Biskupstungum sé víðáttumesti skógur á Íslandi enda samfelldur utan úr Laugardal og austur að Austurhlíð, en heldur væri hann lágvaxinn. Á Suðurlandi taldi hann skóga liggja hæst í Úthlíðarhrauni, þar sem þeir náðu að 1200 fetum og í Haukadal 1000 fetum yfir sjó. Skógur í Úthlíðarhrauni náði þá inn að Högnhöfða.

Í lýsingu landamerkja milli Torfastaða og Reykjavalla frá 1. október 1885 er sagt frá ítaki um hrísrif Reykjavalla á tíu hesta í Hrísholti í landi Torfastaða og að þar sé hríslaust.

Víða sér nú í minjar gamalla kolagrafa, meðal annars á Framafréttinum í allt að fimmhundruð metra hæð yfir sjó, þar sem verið hefur örblásið land síðustu áratugi.

Biskupsstóllinn í Skálholti átti nær alla bæi í Biskupstungum á sínum tíma og var Úthlíð þeirra á meðal. Nýtti biskupsstóllinn kolavinnsluna ótæpilega. Skálholtsstaður hafði m.a. nytjar af skógarhöggi suður og austur af Högnhöfða og upp með Brúará. Komu Skálholtsmenn á ári hverju og hjuggu stærstu og fegurstu hríslurnar. Sumar bjarkirnar voru allt að fimm metrum á hæð og voru höggnar í þverbita undir rjáfur.

Með hernáminu 1940 komu ódýr kol frá Evrópu og var þá hætt að fara í skóg. Björn Sigurðsson í Úthlíð fór það ár með föður sínum í Þjófabrún vestur af Miðfelli þá fimm ára gamall og sóttu þeir sjö hestburði af eldiviði. En fram að því voru skógarnir einnig óspart beittir, auk þess sem þeir voru notaðir til smíði gripahúsa.

Örnefni og munnmæli

Líkt og af þessari upptalningu sést þá var mikið skóglendi í uppsveitunum áður fyrr en að ágangur manna og dýra virðist hafa átt stóran þátt í að eyða skólendinu.

En hvernig tengist kolagerðin örnefninu Kolgrímshóll líkt og örnefnaskráin gefur til kynna?

Tilvísunin til þess að örnefnið hafi eitthvað með kolagerð að gera gefur okkur ekki mikið til að vinna úr og er mögulega dæmi um það þegar örnefni varðveitist en sagan sem liggur þar að baki hefur gleymst og er því ekki skráð með. Um slíkt eru fjölda mörg dæmi.

Einn fróðasti örnefnasérfræðingur landsins er Árnesingurinn, Svavar Sigmundsson, sem starfaði lengstum sem yfirmaður Örnefnastofnunar. Örnefni eru komin til vegna margra ástæðna og segir hann þau m.a. hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að marka skil á landareignum til forna. Kolgrímshóll er auðþekkjanlegt kennileiti og því gæti þetta átt við að einhverju leyti en ekki er þekkt að við hann hafi verið landamerki. Slíkt kann þó að hafa verið í fyrndinni en upplýsingar um landamerkingarnar glatast síðar en örnefnið hafa lifað. Það er rétt að benda á að erlendis er það þekkt að landamerkjavörður hafi verið hlaðnar yfir ösku. Ef vafi lék á því síðar meir hvort viðkomandi varða væri landamerkjavarða þá var hægt að grafa í hana til staðfestingar þar sem í henni mátti finna ösku. Þó það sé skemmtileg tenging við kolagrafirnar við Kolgrímshól er heldur ólíklegt að þar sé öskumerking á ferðinni.

Mörg örnefni á Íslandi vísa í hið yfirnáttúrulega, anda og þjóðtrú. Ekki síst eru mörg örnefni sem vísa til gömlu norrænu guðanna. Hins vegar hafa örnefnasérfræðingar ekki fundið neitt slíkt hérlendis sem tengist Óðni og getur það stafað af því að hann var stríðsguð á meðan nöfn Freys, Njarðar og Þórs má víða finna hér en þeir gegndu frjósemis- og verndarhlutverkum. Hins vegar getur nafnið Grímur, sem er eitt nafna Óðins, mögulega verið í samsetta heitinu Kol-Grímur og slíkt örnefni því mögulega vísað til Óðins.

Bæði Svavar Sigmundsson og sagnfræðingurinn Helgi Þorláksson telja líka að fjöldi dæma séu til þar sem landháttum er gefið nafn raunverulegra og lifandi eða látinna einstaklinga. Kolgrímur getur því hugsanlega verið maður sem fékk nafn sitt tengt umhverfinu órjúfanlegum böndum á meðan persónan sjálf er okkur horfin yfir móðuna miklu og löngu gleymd.

Litir koma einnig fram í örnefnum hérlendis og heitið kol vísar til myrkurs eða nætur og getur þannig mögulega tengst Kolgrímshóli.

Þá er ein orðmynd heitisins Gríms tengd andlitshulu eða dulargerfi, þ.e.a.s. grímu. Gríma vísa líka til þess að rofa til eða grilla í. Einnig sem óhreinindi og að óhreinkast.

Út frá orðmyndum samsetta orðsins Kolgríms getum við leyft okkur að kasta fram tilgátum á borð við að Kol-Gríms-hóll tákni í raun Svarta-Óðins-hól og hann sé tengdur Óðni og með tilkomu kristni hafi örnefnið fengið myrkan blæ. Kol-gríms-hóll getur líka vísað til svartkámugs andlits kolagerðarmanna að störfum nærri hólnum.

Niðurstöður

Nú er mál að linni og rétt að reyna að taka saman þá þræði sem ég hef reynt að leiða að hugsanlegri orsök þess að þessi stærsti og einn fegursti hóll Úthlíðarhrauns skuli bera nafnið Kolgrímshóll.

Örnefnalýsingar vísa til þess að ástæða nafnsins sé minjar um kolagerð við hólinn. Það verður að teljast sennileg skýring en þarf ekkert að vera sú rétta. Hér getur verið um að ræða einhvern aðila er bar nafnið Kolgrímur endur fyrir löngu og hefur tengst hólnum með einhverri sögn sem okkur er löngu glötuð.

Á meðan ekki liggja fyrir slíkar upplýsingar þá verðum við hins vegar að leita betur á slóðir kolaleifanna og þá virðast mér helstar skýringar vera eftirfarandi:

Nafnið Kolgrímur er tvískipt og vísar fyrri hlutinn til kolagerðarinnar eða myrkurs. Síðari hlutinn getur þá verið mannsnafnanna Grímur eða Óðinn eða jafnvel verið tilvísun guðsins Óðins. Orðið getur líka vísað til heitisins gríma úr kolum eða kolagríma en að a-ið hafi síðar fallið úr notkun með tímanum. Þannig hafi tilvísun til kolagerðarmanna sem sótugir voru í framan af stöðugri kolagerð – með kolagrímu – smám saman breyst í heitið Kolgrímur eða Kolgrímshóll.

Þar sem fornar upplýsingar um almenning eru oft fátæklegar þá er erfitt að tengja manninn Kolgrím eða Grím við Kolgrímshól en að sama skapi finnst mér heillandi að geta vísað til kolagrímu verkamannanna sem þræluðu fyrir Skálholtsbiskupana.

Þetta verður því að vera bráðabirgðarniðurstaða mín í þessari vanmáttugu rannsókn. Hún er háð tilgátum og vangaveltum en þegar heimildir eru jafn fátæklegar þá tel ég þetta veru illskástu tilgátuna að svo komnu máli.

Auglýsingar

Eitt af skemmtilegum verkefnum sem detta í fangið á manni við starfið í stjórn Upplits – menningarklasa uppsveita Árnessýsluer að halda utan um safnarasýningu.

Bjórkönnusafn Gurney Katz

Fæstir safna meir en 119 gripum á mánuði líkt og Gurney Katz en eiga falleg söfn sem viðkomandi finnst óaðskiljanlegur hluti af persónu sinni. (Myndin er fengin af vefsíðu http://allfromweb.net)

Er núna sýningarstjóri ásamt Önnu Ásmundsdóttur fyrir safnarasýningu sem haldin verður í Félagsheimilinu að Flúðum laugardaginn 5. nóvember kl. 13-17. Þangað stefnum við saman nokkrum söfnurum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu og gefst þeim þannig færi á að sýna einkasöfn sín og hitta aðra safnara að máli og skiptast á skoðunum og reynslusögum.
Mörg áhugaverð söfn verða til sýnis s.s. fingurbjargir, vínflöskur, dýrastyttur og að ógleymdum þjóðbúningadúkkunum. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Upplits,  eða á fésbókarsíðu þess.
Einu get ég þó lofað. Það verður ekkert safn til sýnis á borð við þetta:

Hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?

Þriðja og síðasta umræðudagskrá í tengslum við sýninguna AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA fer fram nk. sunnudag, 13. júní kl. 15 í Listasafni Árnesinga.

Að þessu sinni er spurt  hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?  Inngangserindi flytur Skúli Sæland fyrir hönd Upplits – menningarklasa Uppsveita Árnessýslu. Hann mun skoða og skilgreina nærsamfélagið, tengsl þess við hið stærra samfélag og hvernig safnið getur virkað sem gátt milli nær- og fjærsamfélagsins.  Inngangserindi flytja einnig sýningarstjórarnir Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir. Þau munu gera grein fyrir núverandi sýningu og fjalla um hlutverk sýningarstjóra og miðlunarþátt safnsins. Ingirafn er starfandi myndlistamaður, Ólöf Gerður er mannfræðingur og forstöðumaður Rannsóknar-þjónustu Listaháskóla Íslands og Skúli Sæland er sagnfræðingur og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun og safnafræði.

Núverandi sýning AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA er sýning 15 samtímalistamanna sem allir takast á við samtímaviðfangsefni og varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar.

Listamennirnir nálgast viðfangsefnið á margslungna vegu og verkin fjalla í senn um miðlun þekkingar og aðgengi að henni, aðferðafræði myndlistarmannsins við þekkingarsköpun sem og eðli og mismunandi tegundir þekkingar í samfélaginu. Sýningin vekur einnig upp spurningar um skilin milli persónulegrar þekkingar og sameiginlegrar þekkingar, vald og ábyrgð þeirra sem búa yfir þekkingu, sem og fagurfræði þekkingar.

Sýningin mun standa til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18.  Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar: http://www.listasafnarnesinga.is/list/

Á miðvikudaginn var haldinn fyrsti aðalfundur og formlegur stofnfundur félagsins Upplits á Hótel Heklu á Skeiðum. Félagið er grasrótarfélag sem gengst fyrir mánaðarlegum menningaruppákomum í uppsveitum Árnessýslu auk menningarrannsókna og söfnun menningarefnis í rafrænan opinn gagnagrunn sem verður varðveittur á http://www.sveitir.is.
Bráðabirgðastjórn félagsins var Ann-Helen Odberg, Ásborg Arnþórsdóttir, Eyþór Brynjólfsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Skúli Sæland. Við vorum kosin áfram í stjórn auk þess sem ný lög voru formlega samþykkt.

Þetta var ekki bara vettvangur venjulegra aðalfundastarfa því líkt við héldum líka fyrsta menningarviðburð okkar sem fólst í samstarfi við Undan öskunni sem er klasahópur er vinnur að menningarmálum í Þjórsárdal. Hópurinn fékk Vilborgu Halldórsdóttur til að semja leikrit um Gauk Þrándilsson á Stöng í Þjórsárdal sem hún kynnti skemmtilega fyrir fundargestum.

Félagið hefur stofnað síðu á fésbókinni og hvet ég alla áhugasama um að kíkja á hana og fylgjast vel með.