maí 2009



Stofnfundur Menningarklasa uppsveita Árnessýslu

Originally uploaded by Skúli Sæland

Undirbúningur að stofnun Menningarklasa uppsveita Árnessýslu er nú á lokametrunum. Erum að ganga frá umsókn sem lögð verður til Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands á næstu dögum.
Við Ann-Helen Odberg og Margrét Sveinbjörnsdóttir höfum átt afskaplega góðar og gefandi stundir við undirbúning klasans og hlökkum til að sjá barnið fæðast 🙂

Gleðilegur gluggapóstur datt í póstkassann hjá okkur í dag.

Vorum að frétta að við höfum fengið styrk frá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands til að þróa vefsíðu, logo og vinna að kynningu á fyrirtækinu.

Kærar þakkir til góðvina okkar hjá Atvinnuþróunarsjóðinum.

Egill Þórðarson

Egill Þórðarson

Egill fæddist 17. september 1853. Sonur Þórðar Jónssonar (1817–1873) og Helgu Jóndóttur (1815–1860) á Bryggju. Átti systkinin, Þórð (1842–1932), Sigríði (f. 1843), Margréti (1845–1928), Lýð (1848–1930), Jóhannes (f. 1849), Önnu (1851–1918) og Stefán (Stephan Thorsson) (1860–1934) .

Hann giftist Hildi Sveinsdóttur (1855–1904) 4. nóvember 1880. Voru þau bræðrabörn. Hildur var hnýtt í baki, talin gáfuð kona og umhugað um heimilið. Eignuðust þau Þórdísi (1878–1961) og Steinunni (1881–1948). Eftir andlát Hildar kvæntist Egill Katrínu Sigurðardóttur (1863–1953) frá Kópsvatni 2. júlí 1907. Katrín var ekkja eftir Eyvind Hjartarson (1848–1898) og áttu þau Kristrúnu (1895–1974). Katrín og Egill eignuðust eitt barn sem dó skömmu eftir fæðingu. Katrín þótti ágæt búkona og var söngelsk. Egill var ábúandi á Kjóastöðum frá 1881 til dánardægurs 1923.

Sumum þótti hann einkennilegur í háttum og sjón og Jóhann Kr. Ólafsson (1883–1976) sem tók við búskap á Kjóastöðum af honum lýsti Agli svo:

Egill var fremur stór maður, dökkur á hár og skegg og sköllóttur. Hann hafði alskegg en fremur ritjulegt. Ennið var hátt og pokar yfir augum, sem voru móbrún, vökul og íhygglisleg, ekki hátt nef, en nokkuð svert en þó vel lagað. Frekar var hann toginleitur og ljós á hörund. … Hann var glaðsinna og hló þá oft innilega og skríkti. Manna var hann athugulastur og íhugaði eitt og annað gaumgæfilega. Friðsamur og óádeilinn og mikill snyrti– og reglumaður og búhöldur ágætur og manna vinsælastur. Sjaldan mun hann hafa rasað um ráð fram. Var nokkuð flámæltur og hætti oft við að bæta e aftan við setningar.

Hann þótti sómamaður en nokkuð hispurslaus í orði og athöfnum. T.a.m. þótti siður í hans tíð að karlmenn gengu að slætti í síðum ullarnærbuxum einum fata þegar veður var gott. Hikaði Egill ekki við að bregða sér bæjarleið á sumrin án þess að fara í buxur utanyfir.

Egill var sagður bæði bókhneigður og góður búmaður auk þess að vera rómuð grenjaskytta. Var heimilið orðlagt fyrir myndarskap. Hann var líka mjög hagur og smíðaði spæni og tóbaksbauka úr hornum og skar út svo fagurlega að orð var á gert. Bar handbragð hans vott um smekkvísi og vandvirkni.

Egill var lítið gefinn fyrir tónlist og ku hafa sagt að sér væri sama þótt leikið væri á skilvindu við jarðarför sína þegar til stóð að kaupa orgel í sóknarkirkju hans í Haukadal. Hafði hann aftur á móti mikið dálæti á Geysi og mátti sjá Geysisgos frá bænum á Kjóastöðum.

Það vakti athygli þegar Friðrik 8. Danakonungur kom í heimsókn að Kjóastöðum í heimsókn sinni til landsins 1907. Bað konungur um að fá að sjá venjulegan bóndabæ og baðstofu og urðu Kjóastaðir fyrir valinu m.a. vegna þess orðspors sem af honum fór fyrir myndarskap. Egill kippti sér ekkert sérlega upp við heimsókn konungs. Gekk hann ávallt með hatt og neitaði nú að taka hann ofan fyrir kóngi. Kvaðst Egill ekki vilja gera upp á milli manna. Þá mun Egill hafa geymt vínflösku á bak við þil ofarlega í baðstofunni sem enginn sá til nema hinn hávaxni konungur sem henti gaman að.

Egill lést 23. janúar 1923. Var haft á orði að þegar líkfylgdin fór fram hjá hverasvæðinu í Haukadal þá hafi Geysir gosið einu af sínum tignarlegustu gosum sem sennilega hefur verið sjálfsprottið. Hins vegar fékkst ekkert hljóð út úr orgelinu sama hvað var reynt. Skilvinda var ekki með í för og því var Egill jarðsunginn án undirleiks.

Heimildir:

Ljósmynd af Agli Þórðarsyni (HérÁrn, ljósmyndari ókunnur)

-Héraðsskjalasafn Árnesinga. Jóhann Kr. Ólafsson. 1955. Nokkur greinagerð um ábúendur í Biskupstungnahreppi í sambandi við manntalið 1901. Höf. Jóhann Kr. Ólafsson.

———. Ministerialbók Torfastaðaprestakalls.

Arnór Karlsson. „Konungskoman 1907.“ Litli Bergþór. Málgagn Ungmennafélags Biskupstungna. 28: 2. (2007). Bls. 14-15.

Guðríður Þórarinsdóttir. „Þórdís Egilsdóttir frá Kjóastöðum“. Inn til fjalla. Rit félags Biskupstungnamanna í Reykjavík I. Ritstj. [Guðríður Þórarinsdóttir]. 2. prt. Reykjavík, 1991. Bls. 120-26.

Gunnar Karlsson. „Sagan af jarðarför Egils á Kjóastöðum.“ Litli Bergþór. Málgagn Ungmennafélags Biskupstungna. 14: 3. (1993). Bls. 10.

Halldór Gestsson og Páll Lýðsson. Ábúendatal Árnessýslu frá 1703 til ca. 2000. Endurbætt útgáfa 2006. Handrit í eigu höfunda

Hannes Þorsteinsson. Hannes Þorsteinsson. Endurminningar og hugleiðingar um hitt og þetta, er á dagana hefur drifið. Ritaðar af honum sjálfum 1926–1928. Ritstj. Þorsteinn Þorsteinsson bjó til prentunar. [Án útg.st.], 1962.

Mannalát.“. Almanak fyrir árið 1935. Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi og fleira 41. (1935). Bls. 97-102.

Hrunamenn. Ábúendur og saga Hrunamannahrepps frá 1890. Ritstj. Þorsteinn Jónsson. 2. bindi. Íslendingar, ættir, byggðir og bú. Árnessýsla 1. Reykjavík, 1999.

Egill Þórðarson (1853–1923)

Egill fæddist 17. september 1853. Sonur Þórðar Jónssonar (1817–1873) og Helgu Jóndóttur (1815–1860) á Bryggju. Átti systkinin, Þórð (1842–1932), Sigríði (f. 1843), Margréti (1845–1928), Lýð (1848–1930), Jóhannes (f. 1849), Önnu (1851–1918) og Stefán (Stephan Thorsson) (1860–1934) .

Hann giftist Hildi Sveinsdóttur (1855–1904) 4. nóvember 1880. Voru þau bræðrabörn. Hildur var hnýtt í baki, talin gáfuð kona og umhugað um heimilið. Eignuðust þau Þórdísi (1878–1961) og Steinunni (1881–1948). Eftir andlát Hildar kvæntist Egill Katrínu Sigurðardóttur (1863–1953) frá Kópsvatni 2. júlí 1907. Katrín var ekkja eftir Eyvind Hjartarson (1848–1898) og áttu þau Kristrúnu (1895–1974). Katrín og Egill eignuðust eitt barn sem dó skömmu eftir fæðingu. Katrín þótti ágæt búkona og var söngelsk. Egill var ábúandi á Kjóastöðum frá 1881 til dánardægurs 1923.

Sumum þótti hann einkennilegur í háttum og sjón og Jóhann Kr. Ólafsson (1883–1976) sem tók við búskap á Kjóastöðum af honum lýsti Agli svo:

Egill var fremur stór maður, dökkur á hár og skegg og sköllóttur. Hann hafði alskegg en fremur ritjulegt. Ennið var hátt og pokar yfir augum, sem voru móbrún, vökul og íhygglisleg, ekki hátt nef, en nokkuð svert en þó vel lagað. Frekar var hann toginleitur og ljós á hörund. … Hann var glaðsinna og hló þá oft innilega og skríkti. Manna var hann athugulastur og íhugaði eitt og annað gaumgæfilega. Friðsamur og óádeilinn og mikill snyrti– og reglumaður og búhöldur ágætur og manna vinsælastur. Sjaldan mun hann hafa rasað um ráð fram. Var nokkuð flámæltur og hætti oft við að bæta e aftan við setningar.

Hann þótti sómamaður en nokkuð hispurslaus í orði og athöfnum. T.a.m. þótti siður í hans tíð að karlmenn gengu að slætti í síðum ullarnærbuxum einum fata þegar veður var gott. Hikaði Egill ekki við að bregða sér bæjarleið á sumrin án þess að fara í buxur utanyfir.

Egill var sagður bæði bókhneigður og góður búmaður auk þess að vera rómuð grenjaskytta. Var heimilið orðlagt fyrir myndarskap. Hann var líka mjög hagur og smíðaði spæni og tóbaksbauka úr hornum og skar út svo fagurlega að orð var á gert. Bar handbragð hans vott um smekkvísi og vandvirkni.

Egill var lítið gefinn fyrir tónlist og ku hafa sagt að sér væri sama þótt leikið væri á skilvindu við jarðarför sína þegar til stóð að kaupa orgel í sóknarkirkju hans í Haukadal. Hafði hann aftur á móti mikið dálæti á Geysi og mátti sjá Geysisgos frá bænum á Kjóastöðum.

Það vakti athygli þegar Friðrik 8. Danakonungur kom í heimsókn að Kjóastöðum í heimsókn sinni til landsins 1907. Bað konungur um að fá að sjá venjulegan bóndabæ og baðstofu og urðu Kjóastaðir fyrir valinu m.a. vegna þess orðspors sem af honum fór fyrir myndarskap. Egill kippti sér ekkert sérlega upp við heimsókn konungs. Gekk hann ávallt með hatt og neitaði nú að taka hann ofan fyrir kóngi. Kvaðst Egill ekki vilja gera upp á milli manna. Þá mun Egill hafa geymt vínflösku á bak við þil ofarlega í baðstofunni sem enginn sá til nema hinn hávaxni konungur sem henti gaman að.

Egill lést 23. janúar 1923. Var haft á orði að þegar líkfylgdin fór fram hjá hverasvæðinu í Haukadal þá hafi Geysir gosið einu af sínum tignarlegustu gosum sem sennilega hefur verið sjálfsprottið. Hins vegar fékkst ekkert hljóð út úr orgelinu sama hvað var reynt. Skilvinda var ekki með í för og því var Egill jarðsunginn án undirleiks.

Heimildir:

Ljósmynd af Agli Þórðarsyni (HérÁrn, ljósmyndari ókunnur)

-Héraðsskjalasafn Árnesinga. Jóhann Kr. Ólafsson. 1955. Nokkur greinagerð um ábúendur í Biskupstungnahreppi í sambandi við manntalið 1901. Höf. Jóhann Kr. Ólafsson.

———. Ministerialbók Torfastaðaprestakalls.

Arnór Karlsson. „Konungskoman 1907.“ Litli Bergþór. Málgagn Ungmennafélags Biskupstungna. 28: 2. (2007). Bls. 14-15.

Guðríður Þórarinsdóttir. „Þórdís Egilsdóttir frá Kjóastöðum“. Inn til fjalla. Rit félags Biskupstungnamanna í Reykjavík I. Ritstj. [Guðríður Þórarinsdóttir]. 2. prt. Reykjavík, 1991. Bls. 120-26.

Gunnar Karlsson. „Sagan af jarðarför Egils á Kjóastöðum.“ Litli Bergþór. Málgagn Ungmennafélags Biskupstungna. 14: 3. (1993). Bls. 10.

Halldór Gestsson og Páll Lýðsson. Ábúendatal Árnessýslu frá 1703 til ca. 2000. Endurbætt útgáfa 2006. Handrit í eigu höfunda

Hannes Þorsteinsson. Hannes Þorsteinsson. Endurminningar og hugleiðingar um hitt og þetta, er á dagana hefur drifið. Ritaðar af honum sjálfum 1926–1928. Ritstj. Þorsteinn Þorsteinsson bjó til prentunar. [Án útg.st.], 1962.

Mannalát.“. Almanak fyrir árið 1935. Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi og fleira 41. (1935). Bls. 97-102.

Hrunamenn. Ábúendur og saga Hrunamannahrepps frá 1890. Ritstj. Þorsteinn Jónsson. 2. bindi. Íslendingar, ættir, byggðir og bú. Árnessýsla 1. Reykjavík, 1999.