september 2014


Á fimmtudaginn kemur, 18. september kem ég til með að leiða sögugöngu um slóðir ferjuslyss sem varð þar 1903. Gangan er hluti af menningargöngum menningarmálanefndar Bláskógabyggðar.

Árið 1903 var dragferja hér á milli klappanna við Hvítá við Iðu. Í september sama ár lést Runólfur Bjarnason ferjumaður við störf sín.

Árið 1903 var dragferja hér á milli klappanna við Hvítá við Iðu. Í september sama ár lést Runólfur Bjarnason ferjumaður hér við störf sín.


Runólfur Bjarnason ferjumaður á Iðu drukknaði 1903. Í blaðafréttum var greint frá uppgefinni föðursystur, öldruðum föður og þremur ungum börnum eftir að fyrirvinna fjölskyldunnar féll frá. Gengið verður um slysstaðinn og greint frá slysinu og merkilegum afdrifum fjölskyldunnar.


Upphaf göngunnar er kl. 18 við Iðubrú. Hún tekur allt að tveimur tímum og eru þátttakendur beðnir klæða sig eftir aðstæðum og vera vel skóaðir.

Auglýsingar
Eftirlíking af höfuðleðri á Karl May safninu.

Eftirlíking af höfuðleðri á Karl May safninu. NY Times.

Mörg söfn og starfsmenn þeirra hafa lengi glímt við þessar viðkvæmu og eldfimu spurningar. Þær urðu sérstaklega áberandi undir lok síðustu aldar þegar indjánar í N.-Ameríku sóttu það stíft að fá líkamsleifar á borð við höfuðleður heim til sín til greftrunar. Þeir börðust einnig fyrir því að fá helgigripi sína til varðveislu.

Indjánaættbálkunum varð vel ágengt í þessari baráttu sinni sem markaði þáttaskil í stefnu flestra safna hvað varðaði gripi sem snertu trúarbrögð og gamlar líkamsleifar. Algeng lausn hefur verið sú að gripum þessum hefur verið skilað til afkomenda þeirra sem taldir eru hafa átt eða tengst gripunum. Erfiðara er þegar sönnunarbyrði er krafist fyrir t.d. höfuðleðrum. Eru þau af forfeðrum tiltekins ættbálks? Sum söfn neita í slíku tilfelli að afhenda slíka gripi nema full vissa sé fyrir slíkum tengslum. Önnur hafa hins vegar sett sér þá stefnu að jarðsetja allar líkamsleifar sem varðveittar hafa verið á safninu. Enn eru líka söfn sem halda því fram að varðveisla, skráning og rannsóknir á safngripum, til að mynda höfuðleðrum, sé á meðal mikilvægustu starfa safna.

Greinin Lost in Translation: Germany’s Fascination With the American Old West í The New York Times fjallar um deilur sem snerta kröfur Sault Ste. Marie Tribe af Chippewa indjánaættbálknum á hendur Karls Mays safnsins í Þýskalandi um afhendingu höfuðleðra sem þar eru varðveitt.

Mér hlotnaðist sá heiður að miðla sögu Reykholtsbyggðar til kennara úr Breiðholtsskóla á skemmtiferð í dag. Það er gaman að sjá starfslið vinnustaðar halda tengslum jafnvel og lengi og mér sýndist þessi hópur gera. Þau hittast og fara reglulega í ferðir saman ásamt mökum sínum og nú átti hópurinn leið um Reykholt.

Þau litu við á Garðyrkjustöðinn á Espiflöt þar sem Áslaug Sveinbjarnardóttir fræddi þau um sögu stöðvarinnar og ræktun blóma þar en að því búnu tók ég við hópnum og sagði þeim stuttlega frá upphafi byggðarinnar og hvað olli því að garðyrkjan blómstraði jafn myndarlega hér og raun ber vitni. Sú saga er dálítið sérstök og ég er iðulega spurður eftir svona söguferðir hvort sagan sé ekki skráð einhvers staðar. Það er hún ekki því miður en þar til það verður gert er gaman að geta miðlað henni til áhugasamra hópa.

Ferðalangarnir enduðu svo för sína hjá heiðurshjónunum Knúti og Helenu á Friðheimum þar sem þau fengu kynningu á garðyrkjustöðinni og gafst kostur á að snæða ljúffengan mat hjá meistarakokknum Jóni K.B. Sigfússyni.