Undanfarið hefur verið töluverð umræða um byggingu miðaldakirkju í Skálholti. Tilgangurinn er víst aðallega til að laða að ferðamenn og sýna glæstan menningar-, kirkju- og byggingarf okkar Íslendinga. Unnin hefur verið vönduð skýrsla um þessa framkvæmd á vegum VSÓ. Skýrsluna – Miðaldadómkirkja í Skálholti. Stórvirki í íslenskri menningarsögu endurreist. Greinargerð október 2011 – er að finna á vefsvæði Þjóðkirkjunnar.

Fyrirhuguð miðaldakirkja í Skálholti. Nýlegar hugmyndir gera þó ráð fyrir staðsetningu annarsstaðar á Skálholtsjörðinni. Mynd VSÓ.

Í Hugrás, vefriti hugvísindasviðs Háskóla Íslands, má sjá áhugaverða gagnrýni á fyrirætlanir um tilgátubygginguna sem mögulega rís í Skálholti í greininni Miðaldakirkja í Skálholti?. Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ, bendir þar á verulega vankanta í fræðilegum ályktunum um stærð og útlit kirkjunnar. Stærð miðaldakirkjunnar í Skálholti byggir mikið á ályktunum um stærð Péturskirkju á Hólum (1395–1624). Bendir Gunnar meðal annars á að færð hafi verið trúverðug rök fyrir því að stærð Hólakirkju hafi verið stórlega ofmetin og að lengdin hafi t.d. ekki verið 50 m heldur 38 m.

Þessi gagnrýni Gunnars og fleiri um útlit og stærð tilgátubyggingar í Skálholti ber að skoða vel og ætti að varast að eyða milljónum í byggingu tilgátuhúsa sem verulegur vafi leikur á að standist staðreyndir.

Auglýsingar