janúar 2010


Á miðvikudaginn var haldinn fyrsti aðalfundur og formlegur stofnfundur félagsins Upplits á Hótel Heklu á Skeiðum. Félagið er grasrótarfélag sem gengst fyrir mánaðarlegum menningaruppákomum í uppsveitum Árnessýslu auk menningarrannsókna og söfnun menningarefnis í rafrænan opinn gagnagrunn sem verður varðveittur á http://www.sveitir.is.
Bráðabirgðastjórn félagsins var Ann-Helen Odberg, Ásborg Arnþórsdóttir, Eyþór Brynjólfsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Skúli Sæland. Við vorum kosin áfram í stjórn auk þess sem ný lög voru formlega samþykkt.

Þetta var ekki bara vettvangur venjulegra aðalfundastarfa því líkt við héldum líka fyrsta menningarviðburð okkar sem fólst í samstarfi við Undan öskunni sem er klasahópur er vinnur að menningarmálum í Þjórsárdal. Hópurinn fékk Vilborgu Halldórsdóttur til að semja leikrit um Gauk Þrándilsson á Stöng í Þjórsárdal sem hún kynnti skemmtilega fyrir fundargestum.

Félagið hefur stofnað síðu á fésbókinni og hvet ég alla áhugasama um að kíkja á hana og fylgjast vel með.

Auglýsingar

Menntun og vöktun með því sem er að gerast í menningarmálum í samfélaginu er mér umhugað og því er gaman að fjalla örlítið um námið mitt í Háskóla Íslands þessa stundina.

Er núna nýkominn úr tíma hjá bandarískum prófessor, Steven C. Dubin, í námskeiðinu Dusting off/Dusting up: Museums in a Global Perspective. Námskeiðið fjallar um hvernig söfn endurspegla breytingar í menningu, pólitík og samfélagi og hve víðtæk málefni og mismunandi þrýstihópar hafa áhrif á söfnin. Fjallað er sérstaklega um söfn í Bandaríkjunum og Suður-Afríku í þessum tilgangi. Námskeiðið er kennt sem hraðnámskeið sem felur í sér stífa kennslu um þrjár helgar í janúar en síðan skilum við ritgerð í mars.

Dubin kennir á gamaldags klassískan máta, þ.e.a.s. hann heldur fyrirlestur, en við getum spurt hann mikið út úr og þá fer hann á flug við nánari útskýringar og raun mikið ýtarlegri en spyrjandinn hefði búist við. Hann er mjög líflegur, gjörþekkir efnið og gætir þess vel að útskýra aðstæður, málefni og hópa sem tengjast hverju umfjöllunarefni. Þetta þýðir að hann hefur útskýrt samfélag og tíðaranda á viðkomandi stöðum mjög ítarlega fyrir okkur og sem heillar mig algerlega upp úr skónum.

Til þessa höfum við farið yfir, svo eitthvað sé nefnt, tilraunir Mattel inc. til að búa til glanssýningu í virtu safni um Barbie dúkkurnar en voru gripnir með allt niðrum sig 1994, heiftarlegar deilur um hvernig sýna bæri Haarlem árið 1969, kynna sögu Íra í New York 1996, hvernig rétt væri kynna sprengjuflugvélina Enola Gay, sem varpaði kjarnorkusprengjunni á Hiroshima, árið 1995 og veiðar á Búskmönnum í S-Afríku og hvernig þeir voru hafðir til sýnis og hvernig sýning um þá vakti loks athygli á bágri stöðu þeirra.

Dubin er nú á leið af landi brott en eftir er rannsóknin hjá mér sem verður um áhrif Hólmsteins-Laxness deilunnar á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar sem lenti í átakasvæðinu.

Náðum þeim árangri undir lok ársins að klára heimildamyndina okkar í samstarfi við Elizu Reid og Örn Einarsson.

Þetta var skemmtilegt verkefni sem fjallaði um ráðstefnu sem komið var á í júlímánuði 2008 í Háskóla Íslands að frumkvæði Péturs heitins Ólafssonar og fjallaði um siglingar skipalesta til Rússlands í síðari heimsstyrjöldinni.

Til ráðstefnunnar mættu bæði fræðimenn og aldnar stríðskempur frá fjölda þjóðlanda og tókum við viðtöl við sjómennina sem birt voru í heimildamyndinni.

Pétur var hvers manns hugljúfi og kraftur hans og fjör er öllum er honum kynntust eftirminnilegt en hann lést í desember eftir hetjulega baráttu við krabbamein.