Endurreisn Skálholts


Nú má sjá sögusýningu í Skálholtsskóla í tilefni af 50 ára afmælis vígslu Skálholtsdómkirkju. Mér hlotnaðist sá heiður að fá að setja upp sýninguna sem opnuð var laugardaginn 20. júlí þegar Skálholtshátíð var sett.

Kristján Valur Ingólfsson hélt stutta ræðu við opnun sýningarinnar.  Í kjölfarið hélt Guðmundur G. Þórarinsson erindi um merka fornmuni, Lewis-taflmennina, sem hann telur hafa verið gerða í Skálholti.

Kristján Valur Ingólfsson hélt stutta ræðu við opnun sýningarinnar.
Í kjölfarið hélt Guðmundur G. Þórarinsson erindi um merka fornmuni, Lewis-taflmennina, sem hann telur hafa verið gerða í Skálholti.

Sýningin inniheldur muni úr gömlu Valgerðarkirkju sem Byggðasafn Árnesinga lánaði á sýninguna. Þá er einnig sýning á gjöfum sem gefnar voru Skálholtskirkju við vígsluna s.s. höklar, biblíur og fleiri gripir. Sýninguna prýða einnig veggspjöld sem fjalla um endurreisn Skálholtsstaðar frá því að Skálholtsfélagið undir stjórn sr. Sigurbjörns Einarssonar hóf baráttu fyrir henni árið 1948, hugmyndum um byggingu bændaskóla í Skálholti, upphafi Skálholtsskóla, frásögnum einstaklinga sem komu að uppbyggingu Skálholtsstaðar ásamt mörgu fleira. Skjöl og gripir sem tengjast uppbyggingu staðarins eru líka á sýningunni auk frumgerðar af Guðbrandsbiblíu. Þá gefst gestum færi á að sjá blaðaumfjöllun um kirkjuvígsluna og hlýða á vígsluna sjálfa, hátíðarmessu og ræður sem þar voru fluttar á borð við þá er Bjarni Benediktsson kirkjumálaráðherra afhenti Þjóðkirkjunni Skálholtsjörð til eignar. Ekki má svo gleyma myndarlegum gjöfum sem Skálholti voru færðar s.s. málverki af Sigurbirni biskupi, hálfrar aldar gömlu líkani af Skálholtsdómkirkju og málverki af fyrstu tillögum að útliti Skálholtsdómkirkju sem gerðu ráð fyrir stakstæðum klukkuturni.

Sýninguna er að finna í fyrirlestrarsal Skálholtsskóla.

Sýninguna er að finna í fyrirlestrarsal Skálholtsskóla.

Að lokum er hér viðtal sem tekið var við mig og birtist í Fréttablaðinu 20. júlí í tilefni af opnun sýningarinnar.

Viðtal130720

Auglýsingar

Var að fá bréf frá Kynningar-, fræðslu- og útgáfusjóði Þjóðkirkjunnar þar sem okkur var tilkynnt að við hefðum fengið rausnarlega styrkveitingu vegna rannsóknar og sýningar á Endurreisn Skálholts.

Er afskaplega glaður og þakklátur fyrir þennan styrk því eftir því sem ég veit best er sjóðurinn ekki að veita stórar fjárhæðir auk þess að á þessum síðustu tímum hefur maður vart vitað í hvorn fótinn maður átti að stíga varðandi styrkumsóknir og -væntingar.

Sýningin er nú opin eftir hádegi á sunnudögum í Skálholtsskóla og sérstök erindi og viðburðir er sýningunni tengjast verða auglýst þegar nær dregur.