Sagnfræði


Var að koma úr ánægjulegri skemmtiferð með afkomendum Þórarins Þorfinnsonar og Ingibjargar V. Guðmundsdóttur frá Spóastöðum. Fórum upp á Smalaskálaholt þar sem ég sagði frá örnefnum þar og nærliggjandi staða ásamt fornleifarannsóknum sem sýnt hafa fram á að hringlaga garður sem sést þar var hlaðinn á 12. öld og fornleifafræðingar eru spenntir fyrir því að rannsaka rústir innan garðsins.

Spóaafkomendur og viðhengi berjast við mýið með minni aðstoð. Ljósmyndari Ingibjörg Gísladóttir.

Auglýsingar

Naut þeirrar ánægju að vera boðið nýlega til að flytja smá tölu við samkomu félagsskapar sem kallar sig Postulana. Þeir hafa hist vikulega við boltasprikl undanfarin átján ár. Geri aðrir betur.

Þrátt fyrir að þeir hittist að loknu mánudagssparki á næsta pöbbi og séu flestir á mjög virðulegum aldri má alls ekki falla í þá gryfju að telja þá á meðal bumbusparkara sem eru einungis að þessum hittingi til að geta hist yfir ölkollu. Onei.

Þeir eru mikil baráttuljón og keppnin er þeim ofar öllu. Yfir þeim drottnar pönkari

Valgarður Guðjónsson

Valgarður Guðjónsson. Mynd fengin af vefsíðu hans.

Íslands, Valgarður Guðjónsson sem söng og spilaði á gítar í Fræbblunum. Fyrir áhugasama má fylgjast með honum á bloggsíðu hans hér. Um Postulana má hins vegar fræðast á sérstakri vefsíðu þar sem mörkum hvers og eins, markvörslu, gengi í liðakeppni o.s.frv. o.s.frv.

 

 

Uppskeruhátíðin er síðan ávallt haldin að vori – að ég held. Þar fá menn viðurkenningar fyrir markaskor, vörslu o.s.frv. og ekki síst fyrir heildarskor eftir mjög flóknu kerfi sem sjá má á vefsíðunni. Valgarður heldur þétt um þennan hóp og mér skilst að hann sé bæði hjartað og heilinn í félagskapnum.

Arnar

Arnar Sigurbjartsson. Fésbókarmynd hans.

Arnar Sigurbjartson, málari, boltaspriklari og þjálfari, bauð bæði mér og Ingólfi Guðnasyni, lífrænum kryddbónda og miðaldamatgæðingi, til að uppfræða Postulana um matarmenningu og annað vesen hérlendis á 13. öld. Postularnir fjölmenntu heim til Arnars og Unnar Malínar sem héldu þeim upp á skemmtidagskrá fram eftir degi með skoðunar- og skemmtiferðum um sveitina.

Er kvöldaði og Ingólfur hóf matargerð að hætti búrkvenna höfðingja 13. aldar fræddi ég Postuluna um Sturlungaöldina sem stóð einungis í rúm fjörtíu ár en var mikið ofbeldistímabil. Að því loknu settumst við að snæðingi ljúfrar margrétta máltíðar sem var sannarlega höfðingja matur og Ingólfur á mikinn heiður skilið fyrir.

Í lokin læt ég svo fylgja erindið sem ég flutti fyrir Postulana. Það er einnig að finna á Vísindavefnum þar sem ég svaraði spurningu um þetta tímabil. Verði ykkur að góðu.

 

Hvað var Sturlungaöldin?

Vísindavefsgrein flutt yfir virðulegum
Postulum í árshittingi að Reykjavöllum 30. 4. 2016

Sturlungaöldin var í raun einungis 42-44 ára tímabil á miðri 13. öld. Hún er einn ofbeldisfyllsti tími Íslandssögunnar. Sturlungaöldin einkenndist af liðssafnaði valdamikilla höfðingja sem herjuðu hverjir á aðra með vígaferlum og gripdeildum. Sturlungaöldin dregur nafn sitt af Sturlungunum sem voru valdamesta ættin á Íslandi á þessu tímabili. Við lok Sturlungaaldarinnar komst landið undir erlend yfirráð og við það lauk þjóðveldistímanum sem hófst við landnámið.
Almennt er miðað við árið 1220 sem upphafsár Sturlungaaldarinnar því þá fer fyrst að gæta tilrauna Hákonar gamla Noregskonungs til að leggja Ísland undir norsku krúnuna. Honum tókst svo ætlunarverk sitt á árunum 1262-64 og þar með lauk sturlungaöldinni.
Um 1220 var farið að gæta töluverðrar valdasamþjöppunar og valdagrunnur helstu valdaætta landsins var orðinn nokkuð traustur. Þessar helstu valdaættir voru Haukdælir, sem voru staðsettir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Ásbirningar í Skagafirði, Vatnsfirðingar við Ísafjarðardjúp, Svínfellingar á Austurlandi og svo auðvitað Sturlungar sem eru kenndir við Sturlu Þórðarson í Hvammi í Dölum. Synir hans, Þórður, Sighvatur og Snorri, mynduðu síðan áhrifasvæði á Stað á Ölduhrygg um Snæfellsnes, Grund í Eyjafirði og Borg á Mýrum.
Aukin áhrif og ásælni konungs má rekja til þess að með falli Skúla jarls lauk innanlandsófriði í Noregi. Eftir það gat Hákon einbeitt sér að utanríkispólitík og reynt að auka áhrif sín hér á landi. Hákon valdi sér þá leið að gera íslenska höfðingja að lénsmönnum sínum. Þeir urðu þá að gera það sem hann bauð þeim en í staðinn þágu þeir af honum meðal annars gjafir, fylgdarmenn og virðingu. Því leið ekki á löngu þar til margir helstu höfðingjar Íslendinga voru orðnir handgengnir Noregskonungi.

Konungur naut þess einnig að kirkjan á Íslandi laut yfirstjórn erkibiskupsins á Niðarósi. Eitt helsta baráttumál kirkjunnar á þessum tíma var að tryggja frið og því sóttist hún eftir því að lægja ófriðarbálið hér á Íslandi. Árið 1247 urðu svo þáttaskil þegar Vilhjálmur kardínáli kom til Noregs til að vígja Hákon konung. Kardínálinn taldi mikilvægt að Ísland lyti einum manni og eftir þetta störfuðu kirkjan og norska krúnan saman að því að koma Íslandi undir Hákon. Á þessum tíma var þjóðerniskenndar ekki farið að gæta auk þess sem það þótti ekki bara eðlilegt heldur einnig sjálfsagt að vera undir stjórn konungs.

En hvað olli þessum miklu hamförum á Sturlungaöld sem lauk með því að Noregskonungi tókst að sölsa undir sig landið?

Fljótlega eftir að landnám landsins hófst komu bændur og höfðingjar sér upp valdakerfi sem fólst í persónulegu og gagnvirku sambandi bóndans annars vegar og goðans, höfðingjans, hins vegar. Landinu var skipt upp í landsfjórðunga og innan hvers fjórðungs voru síðan þrjár þingháir sem hver hafði þrjú goðorð eða goða. Að auki voru þrjú auka goðorð í Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur á landinu. Allt í allt voru þá 39 goðar starfandi.

Goðarnir vernduðu bændurna og gengu erinda þeirra á þingi ef brotið var á þeim en í staðinn hétu bændurnir goðanum liðveislu og stuðningi. Þeir studdu hann þá bæði á þingi sem þingmenn hans og utan þess ef hann þurfti þess með, til að mynda vegna herleiðangra.

Völd goðans voru hins vegar ekki varanleg. Í samfélaginu myndaðist flókið samspil virðingar, heiðurs, valda og efnahags. Goðarnir urðu stöðugt að sýna fram á hæfni sína, hugrekki og fágun. Þeir urðu sömuleiðis að halda helstu stuðningsmönnum sínum glæsilegar veislur og gefa þeim góðar gjafir til að tryggja sambandið þeirra í millum. Með því að þiggja gjöf varð þiggjandinn nefnilega skuldbundinn gefandanum og varð að koma honum til aðstoðar æskti hann þess.

Svo virðist sem goðarnir hafi sóst eftir því að búa í alfaraleið til að eiga frekar möguleika á að sýna glæsikynni sín og geta sýnt gestrisni sína. Veislur, gjafir, utanferðir (bæði til konungs og suður til Rómar), hjónabönd og frillur. Allt þjónaði þetta þeim tilgangi að auka virðingu höfðingjans og tryggja tengslin við stórbændur og aðra höfðingja. Stæði goðinn sig hins vegar ekki átti hann það á hættu að þingmenn hans yfirgæfu hann og sneru sér til annars öflugri goða eða jafnvel stórbónda sem ásældist pólitísk áhrif og var oft auðugri en goðinn ólánsami. Til dæmis virðist Hvamm-Sturla, ættfaðir Sturlunga, upphaflega hafa verið bóndi sem reis til vegs og virðingar og varð að lokum einn áhrifamesti goði síns tíma.

Auðsöfnun var áberandi á meðal helstu höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Lengi vel töldu fræðimenn að þessi auðsöfnun hefði verið undirrót þeirra ragnaraka sem skóku samfélagið á Sturlungaöld. Nú hallast menn þó flestir að því að um flókna samfélagslega þróun hafi verið að ræða sem finna má samsvörun í öðrum samfélögum erlendis sem skorti miðstýrt vald eins og íslenska þjóðveldið. Hafa menn borið goðana saman við höfðingja sem kallaðir hafa verðið stórmenni (big-men) og stórgoðana sem síðar komu fram á sjónarsviðið við foringja (chiefs). Helsti munur á eðli þessara höfðingjatigna var sá að stórmenni byggðu völd sín á persónulegu gagnkvæmu sambandi við fylgismenn sína sem fengu auð hans jafnan til baka í formi gjafa. Foringjar réðu hins vegar yfir landfræðilega afmörkuðu landsvæði, voru töluvert auðugri og gátu lagt á tolla og skatta. Þeir höfðu oft á að skipa einkaher og völd foringjans voru alla jafna arfgeng.

Valdasamþjöppun er talin hefjast hér á 11. öld þegar goðaættir Haukdæla ogOddaverja sjá sér leik á borði og byrja að sölsa undir sig önnur goðorð innan sömu þingháar. Þessar ættir og aðrar í kjölfar þeirra mynduðu nú smáríki eða héraðsríki sem höfðu afmörkuð landamæri og urðu allir bændur innan þeirra að lúta vilja stórgoðans. Við þetta hefst umbreyting á hlutverki goðans yfir ístórgoða.

Þessi valdasamþjöppun virðist hafa byrjað á Suðurlandi en endað á Vestfjörðum. Stóru höfðingjaættirnar, sem höfðu þá þegar myndað sér héraðsríki, bitust harkalega um völdin á svæðunum þar sem valdasamþjöppunin gerðist síðast. Átök og hernaðarbandalög milli ættanna samfara aukinni stigmögnun fylgdu því óhjákvæmilega í kjölfarið.

Lítum að lokum sem snöggvast yfir atburðarás Sturlungaaldarinnar:

Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Snorri Sturluson gerðist lénsmaður Noregskonungs. Konungur fór þess á leit við Snorra að hann kæmi Íslandi undir norsku krúnuna. Snorri gerði hins vegar lítið til þess þótt hann yrði skjótt einn valdamesti höfðingi landsins.

Árið 1235 gerðist einnig Sturla Sighvatsson, bróðursonur Snorra, lénsmaður Hákonar gamla Noregskonungs. Sturla var mun harðskeyttari en Snorri og rak hann fljótlega út til Noregs til fundar við konung og hóf síðan hernað á hendur öðrum höfðingjum til að brjóta landið undir sig og konung. Sturla og Sighvatur faðir hans biðu hins vegar frægan ósigur fyrir Gissuri Þorvaldssyni, höfðingja Haukdæla, og Kolbeini unga, höfðingja Ásbirninga, við Örlygsstaði í Skagafirði 1238. Þeir Gissur og Kolbeinn ungi urðu í kjölfarið valdamestu höfðingjar landsins.

Snorri sneri skjótt heim til Íslands í óþökk konungs enda varð hann uppvís að því að hafa stutt Skúla jarl gegn Hákoni gamla í misheppnaðri uppreisnartilraun hans í Noregi. Gissur Þorvaldsson var lénsmaður konungs, eins og svo margir íslenskir höfðingjar. Hákon konungur krafðist þess að Snorri yrði drepinn og fór Gissur þá að kröfu hans og drap Snorra árið 1241.

Ári síðar kemur til landsins Þórður kakali Sighvatsson. Hann átti harma að hefna eftir að bræður hans og faðir voru vegnir við Örlygsstaði og sýndi skjótt að hann var mikilhæfur herforingi og leiðtogi. Fjórum árum síðar var veldi Ásbirninga hrunið eftir stöðugar skærur við Þórð. Má hér nefna Flóabardagaárið 1244, einu sjóorrustu Íslandssögunnar, og mannskæðasta bardagann,Haugsnesbardaga árið 1246, þar sem nær hundrað manns féllu.

Þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson lögðu þó ekki í hernað hvorir gegn öðrum heldur skutu máli sínu til konungs þar sem báðir voru þeir lénsmenn hans. Að ráði Vilhjálms kardínála úrskurðaði Hákon Þórði í vil og árin 1247-50 var Þórður nær einráður hérlendis. Konungur kallaði hann þá á sinn fund og setti Þórður menn sér handgengna yfir veldi sitt áður en hann fór utan. Þórði kakala auðnaðist aldrei að koma aftur til ríkis síns því hann lést í Noregi sex árum síðar eftir að hafa loks fengið brottfararleyfi frá Hákoni.

Árið 1252 sendi konungur Gissur til landsins í stað Þórðar. Menn Þórðar voru ekki sáttir og fóru að honum við Flugumýri í Skagafirði og reyndu að brenna hann inni. Þrátt fyrir að vera valdamesti höfðingi landsins reyndist Gissuri ekki unnt að ná foringjum brennumannanna og árið 1254 var honum stefnt til Noregs því konungi þótti hann ekki standa sig í því að koma landinu undir norsku krúnuna.

Vígaferlin héldu áfram og brátt var Gissur sæmdur nafnbótinni jarl og sendur aftur til landsins. Konungi tókst hins vegar ekki að fá landsmenn til að játast sér fyrr en hann hafði sent hingað Hallvarð gullskó sérlegan fulltrúa sinn til að ganga erinda sinna.

Datt í hug að setja hér tímaritsgrein sem ég fékk birta í Glímunni fyrir nokkrum árum.

Þetta er smá skoðun sem ég vann á þjóðsögu sem hefur fylgt okkur uppsveitungum í árhundruð og greinir frá því þegar kaldrifjuð biskupsfrú og miskunnarlaus þjónn hennar brjóta niður brú frá náttúrunnar hendi yfir Brúará. Einungis til að losna við að sjá fátæklinga menga útsýni sitt og sníkja úr matarbúrum í Skálholti.

Það merkilega var að þó nokkur sannleikskorn leynast í þjóðsögunni og skemmtilegt var að sjá hvernig raunverulegar persónur afbökuðust í meðförum sagnageymdarinnar. Ég skemmti mér í það minnsta vel við rannsóknina og skrifin. Ég biðst forláts á útliti textans en ég afritaði hann úr pdf-skjali og tilvísunarmerki og annað álíka er á sérkennilegum stöðum á vefsíðunni.

Reiðmaður á brúnni yfir gjánni í Brúará. Mynd DMR-158835 tekin af Daniel Bruun.

Reiðmaður á brúnni yfir gjánni í Brúará. Mynd á danska Þjóðminjasafninu, DMR-158835 tekin af Daniel Bruun.

Steinboginn og hústrú Helga

Staðlausir stafir eða ótrúverðugar staðreyndir?

Vel flest þekkjum við frásögnina um steinbogann sem átti að hafa verið yfir Brúará í ⁠uppsveitum Árnessýslu og Helga Jónsdóttir biskupsfrú lét brjóta niður í upphafi 17. aldar til að varna aðsókn þurfalinga að Skálholti. Þessi frásögn hefur birst víða og oft gagnrýnilaust en nú síðustu árin hafa menn gjarnan bætt við orðunum „Sagt var að …“ og þannig forðast taka afstöðu til þess hvað kunni að liggja að baki frásögninni.

Á uppvaxtarárum mínum í Laugarási við hlið Skálholts trúði ég því fastlega að steinboginn hefði verið til og að illgjarna nornin hún Helga biskupsfrú hefði látið brjóta hann niður. Síðar varð ég meðvitaður um að steinbogar áttu það til að falla af eigin rammleik. Gleggsta dæmið um slíkt er sennilega steinboginn sem lá yfir Ófærufoss í Nyrðri-Ófæru í Eldgjá sem hrundi 1993. Um leið og ég áttaði mig á þessu afskrifaði ég afgang sögunnar um Helgu og steinbogann yfir Brúará sem skáldskap. Allt saman álíka ótrúverðugt.

Í dag er ég ekki lengur jafn viss í minni sök og þó ég hafi svo sannarlega ekki fengið hugljómun á borð við „Evreku“ Arkimedesar þá kom ýmislegt forvitnilegt í ljós þegar ég fór að skoða frásögnina um niðurbrot steinbogans.

Frásögn Jóns Halldórssonar

Elsta skrásetta frásögnin af broti steinbogans er frásögn Jóns prófasts Halldórssonar (1665–1736) í Hítardal sem hann skrifaði í Biskupasögur sínar:

Á þeim stóru harðindaárum til lands og sjávar hér um Anno 1602, var af fátæku umferðar og uppflosnuðu fólki úr öllum áttum mikil aðsókn að Skálholtsstað. En bryti staðarins meinti henni mundi réna, ef sú sjálfgerða brú eður steinbogi á Brúará, (hvar af hún hafði að nafn), væri afbrotinn; fór því til og braut hana með mannafla með vitund ef ei með ráði biskupshústrúr, Helgu Jónsdóttur, en án vitundar herra Odds, því það tiltæki féll honum stórilla, þá hann fékk það að vita, ávítandi brytann mjög, og kvað hvorki sér né honum nokkurt happ þar af standa mundi. Skömmu síðar drukknaði þessi bryti í Brúará; bending þótti og nokkur á hinum yngri börnunum biskups Eiríkur hafði mikinn vitsmunabrest; Margrét var kvenna fríðust á andlitið öðrum megin, önnur kinn hennar fagurrjóð og blómleg, en hin önnur hvít og visin.1

Þetta er grunngerð sögunnar um steinbogann. Ofangreind atriði eru velþekkt úr þjóðsögum. Fyrst er tiltekin vandamál eða ógn, síðan ill lausn vandans og að lokum fá aðilar verknaðarins makleg málagjöld. Aukaþema sögunnar er forspá helgs manns, í þessu tilfelli Odds Einarssonar biskups, þegar hann fréttir af verknaðinum. Það er sömuleiðis vel þekkt þema.

Það sem Jón prófastur bætir við og gefur sögunni um steinbogann þetta aukabragð sem gerir hana svo mikið bragðbetri en aðrar þjóðsögur er að

Laungu síðar hér um Anno 1680 tóku sig saman bændur í Biskupstungum: Jón Jónsson smiður í Miklaholti og aðrir fyrirmenn sveitarinnar, veltu stórum björgum ofan í árþreingslin til að koma upp aptur brúnni á ána og hlaða hana upp; en þá vatnavextir verða miklir á vetrum brjóta þau opt af þetta forverk og þarf aptur við umbótar hvað eptir annað.2

Ljóst er af þessum orðum Jóns að staðurinn þar sem steinboginn er talinn hafa staðið er vel brúanlegur og bændurnir í nágrenni hans virðast sækja í að brúa ána sem réttnefnd er Brúará.

Til að geta tekist á við spurninguna hvort eitthvað sé að marka söguna um brot steinbogans þurfum við að sigta hismið frá kjarnanum og átta okkur á því hvaða hlutar frásagnarinnar kunni að vera réttir.

Fyrst af öllu þurfum við að komast að raun um hvort yfirleitt hafi verið til eitthvað sem var steinbogi eða brú yfir Brúará.

Rétt er líka að athuga hvernig er sagan um steinbogann yfir Brúará sé tilkomin. Getur verið að hér sé um ævaforna sögn um steinboga sem er löngu horfinn?

Sagan átelur gerendur ódæðisins og segir að þeim hafi verið refsað – Hvernig var illkvendinu refsað? Helga hústrú biskups sem samþykkti ef ekki fyrirskipaði ódæðið. Hvað varð um hana? Helgu Jónsdóttur biskupsfrú var refsað með „bendingum“ á yngri börnum sínum en brytinn drukknaði. Að hvaða leiti fær það staðist? Þetta eru þjóðsagnakenndar lýsingar en við búum svo vel að hafa nokkuð góðar upplýsingar um þá sem bjuggu í Skálholti og ekki síst um biskupshjónin. Hvað fær staðist um refsingar sögunnar? Drukknaði brytinn í kjölfar illverkisins? Þjóðsögur kalla á refsingu fyrir illdæði og Brúará tók mörg líf á þessum árum. Tók þjóðsagan kannski brytann og drekkti honum sögunnar vegna.

Síðast en ekki síst. Hvað segir sagan okkur um tengsl Skálhyltinga og alþýðunnar? Þetta eru mikil harðinda og hörmungarár. Er sagan uppspuni magnvana og örvæntingarfullrar þjóðar gagnvart hinum ríku eða lýsir hún kannski með raunsönnum hætti framkomu yfirstéttarinnar gagnvart almúganum? Má greina mismunandi sjónarhorn þessara hópa á þennan atburð?

Samantekið eru helstu rannsóknarspurningar þessar:

  1. Var til steinbogi yfir Brúará?
  2. Er hugsanlega eldra minni um steinboga að blandast saman við síðari frásagnir?
  3. Hlaut Helga biskupsfrú makleg málagjöld?
  4. Var yngri börnum hennar refsað fyrir ódæðið?
  5. Drekkti þjóðsagan brytanum?
  6. Hvað segir frásögn Jóns af broti steinbogans okkur um samskipti yfirstéttarinnar við almúgann?

Steinbogar – raunverulegir og ímyndaðir

Við skulum byrja á því að líta á náttúrufyrirbrigðið steinboga. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur fjallaði ítarlega um steinboga hérlendis í grein sem hann reit í Náttúrufræðingnum 1970. Skilgreiningin sem hann vandist við að nota var að steinbogi væri: „sjálfgerð brú eða spöng úr hörðu bergi yfir á eða læk“ en getur þess að fyrrum hafi merkingin verið víðtækari.3

Guðmundur vildi flokka steinbogana eftir því hvernig þeir mynduðust og í grein sinni leitaðist hann við að greina frá öllum steinbogum sem hann þekkti til á Íslandi og þeir voru allir á sunnanverðu landinu frá Skeiðarársandi til Borgarfjarðar. Hann tók þó fram að þar sem hann ól manninn á Suðurlandi þá gæti verið að fleiri bogar væru annarsstaðar á landinu.4

Steinbogar úr hrauni og þar sem vatnsföllin fundu sér farveg með því að ryðja veikari jarðlagi á brott eru í upptalningu Guðmundar: Steinbogarnir við Gerðisfoss í Galtalæk, á Grindakvísl (Tungná), Syðri-Ófæru á Skaftártunguafrétti og Nyrðri-Ófæru í Eldgjá. Steinboginn í Öðulbrúará myndaðist þegar Öðulbrúará rann í gegnum helluhraunshelli. Steinbogarnir við Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði, Núpsárfoss, Gluggafoss, Þverá í Gnúpverjahreppi og Stekkjartúnslæk í Hrunamannahreppi eru hins vegar dæmi um steinboga sem myndast hafa fyrir tilstilli skessukatla.5

Guðmundur kallar fyrri gerð steinboganna „veiluboga“, það er að segja þá sem eru staðsettir í Galtalæk, Grindakvísl, Syðri- og Nyðri-Ófæru og Öðulsbrúará. Steinbogarnir við Barnafoss, Brúarfoss, Núpsárfoss, Gluggafoss, Þverá og Stekkjartúnslæk myndast fyrst og fremst fyrir tilverknað vatnsfallsins sjálfs og þá „aðeins í beljandi straumi og verða langstærstir undir fossum.“6 Þar sem steinboginn við Brúará er markmið þessarar athuganar er ómaksins vert að skoða hvernig þessi náttúrufyrirbrigði myndast:

[Á]in grefur krappa hylji, svonefnda skessukatla, í botnklöppina. Katlarnir dýpka og víkka smám saman við það, að hringiður þyrla sandi og möl um botn þeirra og veggi og fægja klöppina. Þetta gerist nær eingöngu í vatnavöxtum; þess á milli safnast bergmylsnan fyrir á botninum og liggur þar kyrr. Ef svo ber undir, geta skessukatlar víkkað meira við botn en barm, þannig að haftið milli tveggja nálægra katla slitnar sundur neðanjarðar. Þá styttir vatnið sér leið um gatið og víkkar það, unz öll áin fer þar í gegn og er þar með komin undir steinboga. Raunar þarf ekki til nema einn skessuketil, ef hann er á fossbrún, þá getur hann víkkað að neðanverðu fram í fossstálið … .7

Steinboginn í Brúarfossi í Brúará er umlukinn dulúð því bæði er vísað til steinboga sem ekki sjást nein ummerki um lengur og frásögn Jóns Halldórssonar hefur umlukið bogann dramatískum blæ sem seint verður frá honum tekinn.

Fossinum er ágætlega lýst af Guðmundi:

Brúarfoss er mjög einkennilegur. hann myndast af fremur lágum stalli þvert yfir árfarveginn. En þó fellur aðeins lítið brot af árvatninu fram af stallinum. Það bert til, að gjá ein djúp og þröng liggur eftir miðjum árfarveginum og niður í hana fossar vatnið frá báðum hliðum fyrir ofan stallbrúnina, svo að lítið er efftir til að falla fram af brúninni. neðan við stallinn rúmast allt árvatnið í gjánni. Bergið í árborninum (stalliinum og gjárveggjunum) er grágrýtishraun, sem hlýtur að vísu að hafa fyllzt af jökulruðningi á íslöld. En er jökullin leysti og Brúará varð til, hefur hún hitt á þessa veilu í berginu, þvegið burt lausa rúðninginn, máð hin fornu og hörðu brotsár sprungunnar víkkað hana og aflagað nokkuð.

  1. Guðmundur Kj, “Steinboginn á Brúará,” Náttúrufræðingurinn. Alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði 18, no. 1 (1948): 43-44.

Guðmundur kannaði hann sérstaklega og auðsætt er að hann átti í miklum erfiðleikum með að taka afstöðu til þess hvort þarna hefði verið steinbogi og þá ekki síður hvort brytinn og biskupsfrúin hefðu eitthvað átt við hann. Í rannsókn sinni sem hann reit um 1948 varð niðurstaða hans sú að

Guðmundi fannst sennilegt að Brúarfoss hefði myndast við það áin hefði hitt á veilu í hrauninu og víkkað hana til.

komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði líklega aldrei verið steinbogi og voru rök hans helst þau að:

„Hinar þröngu hylskorur bæði í Brúarfossi og Barnafossi eru til orðnar úr röð skessukatla, sem hafa vaxið saman. Leifar af berghöftunum, sem áður skildu þá, skaga enn fram í skorurnar frá báðum hliðum og standast víða á.“8

Til eru mýmörg dæmi um steinboga sem brotnir voru niður í þjóðsögum. Steinbogi var yfir Hvítá við Brúarhlöð en var brotinn niður vegna ágangs í harðindaári:

Sagt frá Brúarhlöðum sem eru klettar í Hvítá. Talið er að þar hafi brú verið í fornöld og notuðu Tungnamenn hana er þeir námu land í efri hluta Hrunamannahrepps. Haukur bjó í Haukadal en hafði sel í Haukholtum. Gýgur bjó að Gýgjarhóli. Hann lét brjóta brúna af vegna átroðnings. Þegar Haukur kom næst að og sá að brúin var farin reiddist hann og stökk yfir en bilaðist við það og dó. Leiði hans er hjá Haukholtum9

10

Sú saga er með meiri ævintýrablæ en sú af steinboganum í Brúará enda á hún að hafa gerst löngu fyrr.

Önnur saga sem gerist nær okkur í tíma er af steinboga yfir Hvítá í Borgarfirði. Drukknuðu tveir piltar af nærliggjandi bæ og lét móðir þeirra þá höggva bogann af ánni með þeim ummælum að þar skyldi engi framar lífs yfir komast.

Þá er líka getið eyðileggingar steinboga af völdum tröllkvenna líkt þegar tröllið Kleppa braut steinbogann á Farmannsdalsá.

Heimildirnar – Sannleikurinn???

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá Hruna í Hrunamannahreppi skrifar í Náttúrufræðinginn árið 1948 fróðlega grein um steinbogann.

Guðmundur fann annan steinboga í ánni sem er á kafi í vatni. Þessi bogi hafi heldur ekki verið skemmdur af mönnum hennar. Aðstaðan þarna sé of hættuleg og ekki mögulegt að brjóta ofan af boganum með þeirra tíma tækni.

Guðmundur telur tilveru þessa steinboga styrkja söguna um eldri bogann sem hafi sennilega verið þarna skammt frá rétt fyrir ofan fossinn. Þar sé gjáin ekki nema röskur metri á breidd og um mannhæðar djúp niður að vatni þar sem hún er einungis um 30 sm að breidd þar sem hún er sem mjóst. Báðum megin gjárinnar eru fremur flatar klappir, sem vatn rennur yfir. Þetta vatn verður að vaða, svo að ekki hefur hið uppflosnaða fók, sem hrelldi biskupsfrúna í Skálholti, gengið þurrum fótum yfir Brúará. En vaðallinn er grunnur og stöðugur því vatnsmagn Brúarár er með fádæmum jafnt og stöðugt hverju sem viðrar því hún er lindará.

Guðmundur telur sig líka hafa séð verksummerki brúargerðar eftir Jón Jónsson smið í Miklaholti og Tungnabændur. Þar sem áin er þrengst liggur allt að 200 kg steinn skorðaður milli veggjanna niðri í gjánni. Stundum er hann allur ofan yfirborðs en stundum beljar yfir steininn.Hann er úr sams konar grágrýti og gjárbarmarnir og nokkuð vatnsnúinn.

Guðmundur velti því fyrir sér hvernig steinninn hefði getað borist í gjánna og kemst að þeirri niðurstöðu að hann sé kominn af mannavöldum. Frásögn Jóns styður það enn frekar. Fyrst hefur sennilega verið hlaðið torfi og grjóti yfir steininn en það hefur reynst ótraust líkt og Jón nefnir. Löngu síðar komi til brýrnar þar sem bitar eru lagðir yfir gjána.

Guðmundur vann síðan ítarlega rannsókn á steinbogum hér á Íslandi og birti niðurstöður sínar í Náttúrufræðingnum árið 1970. Þá hefur læðst á honum sá grunur að um mismunandi orðnotkun á orðinu steinbogi geti verið að ræða. Í fornritum og samkvæmt orðabók Fritzners er orðið steinbogi notað um manngerðan hlut. Bæði brýr á vötnum og hvelfingar yfir dyrum á steinhúsum. Orðið nær hins vegar ekki yfir sjálfgerða brú. Guðmundur bendir síðan á örnefni sem tengjast að því er virðist frekar manngerðum steinbogum yfir læki. Því taldi Guðmundur nú, líklegar að steinboginn sem Jón Halldórsson nefnir í Biskupasögum sínum hefði verið manngerður frekar en sjálfgerður.

Ef við höllumst að skýringu Guðmundar Kjartanssonar þá er líklegra en ekki að Helga og brytinn hafi látið brjóta brúna yfir Brúará. Við megum ekki gleyma því að nær allar jarðir í Biskupstungum eru í eigu biskupsstólsins og ábúendur þeirra eru leiguliðar. Þegar ógn steðjaði að matarbúri Skálholtsstaðar er eðlilegra að ímynda sér að Helga og brytinn brjóti niður brúarsmíð skrattans leiguliðanna sem þeir eru hvort eð er alltaf að endurbyggja. Orðið steinbogi festist hins vegar í síðari tíma túlkun orðsins sem sjálfgerður steinbogi en ekki manngerður ef marka má orð Guðmundar. Meira að segja Jón Halldórsson virðist hafa misskilið orð heimamanna þegar hann ritar að steinboginn hafi verið sjálfgerður.

Árferðið

Söguna um brot steinbogans þurfum við að skoða í samhengi við atburði þessara ára. Sérstaklega árferðið sem var mjög slæmt. Veturnir sem kenndir voru við Lurk og Píning drápu fólk unnvörpum og hrakti eftirlifendur á vergang.

Þessi gríðarlega óáran setur sem von er allt samfélagið úr skorðum og umkomulausir og uppflosnaðir streyma til Skálholts. Hvernig brugðust biskupshjónin Oddur Einarsson og Helga Jónsdóttir við aðsókninni? Til marks um hvernig þau kunna að hafa tekið á málum bendi ég á hvernig sonur þeirra Gísli Oddsson höndlar „ómaga og gagnslaust fólk“ eins hann kallar það. Samkvæmt dómsbréfi sem gert var á þriggjahreppaþingi í Laxárholti 12. maí 1631 segist Gísli

ekki vita neina lagaskyldu til þess að sér eða sínum sambornum systkinum eður móður sinni bæri þetta fólk að annast og sér virtist ekki forsvaranlegt að halda slíkar persónur eða so margar á staðarins kosti ellegar að líða að þeir sitji so greinarlaust á staðnum eða búunum ef hann skyldi officialis heita, og hann þóttist hvorki mega flytja þetta þrotbjarga fólk uppá aðra menn né heldur vísa þeim á vergang dómlaust.

Gísli fór fram á að alls yrðu 16 manns reknir burt af staðnum. Þar af voru 4 sem höfðu verið dæmdir í umsjón Odds biskups föður hans. Svo fór að dómurinn féllst á rök Gísla og lét reka allt þetta gagnslausa fólk frá staðnum. Börn jafnt sem gamalmenni.

Nú ber að athuga að Gísli er tekinn við Skálholti. Þetta er fyrsta vorið hans sem Officialis eftir andlát föður síns og hann er giftur svo það er væntanlega komin ný húsmóðir á staðinn. Sjaldan fellur þó eplið langt frá eikinni og ég tel að áhrifa frá móðurinni og uppeldinu hljóti að gæta. Rek ég það meðal annars til þess að síðar þetta sama ár er Gísli kjörinn biskup á alþingi 29. júní. Hann siglir þá samstundis til Danmerkur til að taka við embætti en er undir eftirliti Ketils Jörundssonar heyrara í Skálholti eftir því sem Jón Halldórsson í Hítardal segir okkur. Mun ástæðan hafa verið sú að Helga móðir hans treysti Katli best til að hafa eftirlit með drykkju sonarins. Hún virðist samkvæmt þessu haft nokkur áhrif á staðnum enda bjó hún þar enn.11

Jón Halldórsson í Hítardal

Lítum nú nánar á heimildamann okkar Jón Halldórsson. Hann fæddist 6. nóvember 1665 og dó 27. október 1736. Hann var tekinn í Skálholtsskóla 1679, stúdent fjórum árum síðar árið 1683. Var næstu 3 ár hjá Skálholtsskólameistara og föðurbróður sínum Ólafi Jónssyni sem bjó á Miðfelli í Hrunamannahreppi. Hann er talinn hafa byrjað afritun annála undir handleiðslu hans á þessum árum. Var heyrari í Skálholti 1688-92. Fluttist síðan í Hítardal 1692. Var þó fenginn til að gegna rektorsstörfum við Skálholtsskóla 1708-1710. Hann var kosinn til biskups árið 1720 við jarðarför Jóns Vídalíns og ári síðar við prestastefnu en konungur valdi Jón Árnason til biskups þrátt fyrir að Fuhrmann amtmaður hefði sent stiftamtmanni meðmælabréf með Jóni Halldórssyni. Hann er af mörgum talinn einn merkasti fræðimaður þessarar aldar.12

Í þessari upptalningu hafið þið væntanlega áttað ykkur á hve mikil tengsl Jón á við Skálholtsstað og nágrenni hans. Ekki bara það. Hann er staddur í Skálholti árið 1680 þegar Jón í Miklaholti og önnur fyrirmenni í Tungunum eru að basla við að brúa Brúará. Hann kann því að hafa verið viðstaddur og séð aðfarirnar. Yfirgnæfandi líkur eru líka á að hann hafi heyrt söguna um ódæði Helgu biskupsfrúar og brytans illa um það leiti. Sagan er þá líka einungis 78 ára gömul.

A. Að Skálholti

Við skulum nú beina sjónum okkar að leið beiningamannanna. Þessi leið sem fólkið fór er athyglisverð og þarfnast frekar útskýringar við.

Kort og ferðalýsingar frá því fyrir 1600 eru af skornum skammti og gefa takmarkaðar lýsingar.

Sagan um Helgu og brytann er eina sagan sem ég fann sem gat þess að fólk ferðaðist yfir Brúará með þessum hætti og á þessum stað. Það er að segja. Frásögnin um brot steinbogans er til í nokkrum mismundandi útgáfum en aðrar frásagnir geta ekki ferða þarna um steinbogann. Það er ekki fyrr en í síðari tíma ferðalýsingum þegar frásagnir og sérstaklega myndir erlendra ferðamanna taka að birtast að við sjáum myndir frá Brúarfossi. Þær eru nokkrar afskaplega skemmtilegar en þessi er sennilega raunsönnust og þekktust.

Það er þessi sérstaða steinbogans og svæðisins sem gerir ferð yfir Brúará svo merka. Ferðalöngum finnst þessi staður merkur og myndrænn. Það er því sérkennilegt þegar við sjáum Steinbogans ekki getið eða ferðar ofan til yfir Brúará. Það getur hafa annað hvort stafað af því að ferðalangarnir hafi komið að vestan og stoppað fyrst við í Skálholti, haldið þaðan upp Tungurnar til Geysis og áfram austur til Heklu. Hins vegar kann líka vel að vera að það hafi ekki þótt viðeigandi að teyma erlendan ferðalang yfir sleipan og óvissan stíg steinbogans heldur þótt betra að taka þá yfir vöð og ferjustæði. Ef það er skýringin þá hefur steinboginn verið harðla ómerkilegur. Lítið klettabrot sem hefur kannski legið milli klettaveggja árinnar. Smátt og ómerkilegt sem ekki hefur getað borið hesta heldur einungis örvæntingarfullt beiningafólk.

Kannski er það svo, en við getum í það minnsta slegið því föstu að steinboginn var til í einhverri mynd um aldamótin 1600. Vitnisburður Jóns Halldórssonar er of sterkur til að við dirfumst að véfengja hann.

B. Brytinn

Við skulum líta betur á þátttakendur sögunnar okkar og byrja á brytanum. Annálar greina frá mörgum mannsköðum í bæði Brúará og Hvítá. Ég fann hins vegar ekki frásagnir í annálunum um að bryti Skálholtsstaðar hefði drukknað þar. Flestir þegja þeir yfir ódæði Helgu og brytans.

Ég tókst ekki að nafngreina brytaskrattann en ég vil draga athygli ykkar að þjóðsögu um bryta sem drukknaði í Hvítá. Sú saga segir frá Dagrúnu Jónsdóttur frá Sandlæk í Gnúpverjahreppi. Hún giftist Páli Þórðarsyni bryta í Skálholti sem drukknaði í Hvítá. Sonur þeirra var Gísli, er hins vegar sagður fæddur 1746. Hann hóf á unga aldri nám í Skálholtsskóla en drukknar í Brúará. Þrettán árum síðar drukknar Dagrún í Hvítá haustið 1779“13

Þrátt fyrir nafngreint fólk og nákvæm ártöl getum við ekki vísað því frá okkur að hér sé flökkusögn á ferð. Saga sem fylgt hefur Skálholtsbrytum enda drukknanir tíðar á þessum slóðum eins og fyrr er frá greint.

C. Illkvendið

Hústrú Helga Jónsdóttir er hið illa kvendi þjóðsögunnar. Valdakonan sem veit af fyrirhuguðu broti steinbogans og veitir í það minnsta þegjandi samþykki sitt eða í versta falli fyrirskipar ódæðið. Hvað segja samtímaheimildir um hana?

Helga var mjög vel ættuð. Þau Oddur Einarsson biskup voru gefin saman árið 1591. Þau eignuðust 5 börn. … Þegar Oddur lést 1631 dvaldi hún hún um tíma í Hraungerði eða þar til hún tók við búsforræði Gísla biskups sonar síns í Skálholti tveim árum síðar við andlát tengdadóttur sinnar og var þar þar til Gísli féll frá 1638.

Því er skemmst frá að segja að samtímaheimildir bera Helgu afskaplega vel söguna. Jón Halldórsson sagði hana hafa verið „nafnfræg höfðíngskvinna að röksemd, örlæti, góðgerðum, samt öðrum kvendygðum, svo margra máltæki var á þeim tímum um þau höfðingshjón, að koma mundi í Skálholt eptir þau“ jafnoki Odds biskups, en aldrei jafnoki Helgu.14

Hvernig gat þessi guðhrædda og dyggðuga kona eiginlega gerst sek um slíkt ódæði? Helga lifir löngu og góðu lífi og deyr ekki fyrr en 23. október 1662. á 95. aldursári eftir langa legu. Hins vegar hljótum við að velta því fyrir okkur hvort húsfreyjan hafi ekki haldið vel utan um rekstur staðarins. Heimildirnar um hana benda til þess að hún hafi verið mikill dugnaðarforkur, hún sendir barnapíu með syni sínum til biskupsvígslu og hún tók að sér mörg ættmenni eiginmanns síns.

Var Helga kannski ráðrík nánös sem alþýðan naut þess að bölva sín á milli? Er þetta skoðun fátæklinganna á henni? Tilvitnunin sem ég rakti hér á undan um brottrekstur Gísla sonar hennar á auðnuleysingjum frá Skálholti 1631 gæti verið dæmi um það að Oddur biskup hafi verið linur gagnvart smælingjum en alls ekki frú Helga.

Við megum nefnilega ekki gleyma því þegar ritaðar heimildir á borð við kveðskap Einars Sigurðssonar í Eydölum og annálaskrif Odds Eiríkssonar eru skoðuð að þetta eru náin skyldmenni og að margir aðrir eiga mikið undir ætt þeirra Helgu Jónsdóttur og Odds Einarssonar biskups. Þetta er þó ekki ástæða til að rýra allar lofræðurnar sem um Helgu voru ritaðar.

Refsingin

Snúum okkur þá að refsingunni sem bitnaði á börnum biskupshjónanna. Jón Halldórsson tilgreinir sérstaklega að Eiríkur hafi þótt heimskur og Margrét hafi verið afmynduð í andliti. Til eru margar sögur um fávitaskap Eiríks og er þá iðulega nefnt að það hafi stafað af ódæði móðurinnar. Hann treysti þó á föður sinn og fékk prestsembætti og konu allt fyrir tilstuðlan pabba síns. Margrét var hins vegar alla tíð einhleyp.

Samskipti fátæklinga og auðugra

Það sem Jón Halldórsson nefnir hins vegar ekki í frásögn sinni er að Sigurður sonur þeirra hjóna drukknaði skömmu eftir brot bogans. Hann bjó þá í Hróarsholti og drukknaði í Ölfusá árið 1917. Þetta ýtir undir þá kenningu að um síðari tíma þjóðsagnaflutning sé um að ræða. Sagnamenn vísa til sjáanlegs vitnisburðar um ódæði Helgu biskupsfrúr, þe. fávitaskaps Eiríks og afmyndunar Margrétar, til sannindamerkis um ódæði Helgu.

Er sagan af steinboganum þjóðsaga? Ef svo er hvað segir hún okkur um þennan tíma? Við vitum að mikil harðindi og mannfellir var á þessum árum. Fræðimenn á borð við Guðbrand Vigfússon, Ólaf Davíðsson, Jónas frá Hrafnagili og Einar Ólaf Sveinsson töldu að sögurnar endurspegluðu þjóðarsálinu. Hvernig henni leið og með því að lesa þjóðsögurnar gæti maður þreifað á lífæð þjóðarinnar.

Þjóðsögurnar gáfu mönnum útrás fyrir bældar hvatir og ímyndunarafl, skáldskapargáfu sem annars hefði legið innibyrgð. Sagnamenn ferðuðust á milli bæja og sögðu sögur eða héldu kvöldvökunni gangandi á sínum heimabæ. Hannes Hannesson, sem kallaður var roðauga (f. um 1815) gat sagt þrjár sögur á kvöldi alla vetrarvertíðina, frá 2. febrúar til 12. maí, og var þó ekki þurrausinn.

„Það er einmitt einkenni þjóðsagna að þær eru álitnar sannar á meðan þær ganga í munnmælum.“15

Dómur sögunnar

Hver verður dómur sögunnar líkt og einn ágætur stjórnmálamaður komst að orði nýlega. Við skulum reifa málsatvik örlítið nánar.

Það var sennilegast steinbogi yfir Brúará.

Það er ljóst að Skálhyltingar voru lítt hrifnir af ágangi örvæntingarfulls almúgans.

Hvort hann var manngerður eða sjálfgerður er umdeilanlegt. Hins vegar er ljóst að boginn féll – annað hvort sjálfur eða með smá hjálp.

Stærð glæpsins – hafi glæpur verið framinn – fer eftir því hvort boginn var manngerður eður ei. Hafi boginn verið náttúrusmíð verður að túlka glæpinn sem hræðilegann líkt og síðari tíma túlkanir hafa hallast að.

En hver verður dómur sögunnar?

Ég taldi áður en ég lagðist í þessa rannsókn að gróusögur almennings hefðu gert úlfalda úr mýflugu og dæmt saklausa biskupsfrúna. Nú er ég ekki lengur svo viss.

Viðauki A: Þekktir steinbogar

Í Öðulbrúará sem á upptök sín norðan í fjallinu Kaldbak austarlega á heiðunum upp af Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu eru þrír steinbogar sem eru flatar spangir úr helluhrauni eftir Skaftáreldahraun. Hraunið rann 1783 og áin hefur ekki grafið sér leið undir það heldur telur Guðmundur að áin hafi runnið undir fullgerða spöngina sem hefur myndast líkt og margir frægustu hraunhellarnir hérlendis. Þetta er þó eina dæmið sem honum er kunnugt um þar sem heil á rennur undir slíkar spangir.16

Steinboginn við Gerðisfoss í Galtalæk hefur hins vegar mótast á allt annan máta. Þar hefur Galtalækur sorfið sig niður í Þjórsárhraunið og undir undirlag þess og það fallið niður yfir lækinn að hluta. Þegar Guðmundur rita grein sína er um 20 metra breiður bogi yfir lækinn þar sem hægt er að ganga þurrum fótum yfir. Fáir nota steinbogann til yfirferðar um 1970 en ummerki eru um að hann hafi verið töluvert nýttur hér áður fyrr því grjóti hefur verið hlaðið í stórar skorur, væntanlega til að auðvelda heybandslestum yfirferð. Einnig er hálfhruninn grjótgarður á boganum sem líklega hefur verið til að varna fé yfirferðar. Guðmundur segir bæði mannvirkin fornleg án þess að hætta sér í að tímasetja aldur þeirra.17

Steinbogi á Grindakvísl (Tungná) myndaðist við það að efsta upptakakvísl Tungnár svarf sig niður í helluhraunsjaðar. Nú hefur áin aftur á móti breytt um farveg, rennur að miklu leyti framhjá steinboganum og rennsli hennar í Tungnárjökli hefur minnkað svo að farvegur hennar er oft þurr.18

Syðri-Ófæra á Skaftártunguafrétti skartar steinboga sem myndast hefur líkt og boginn í Galtalæk. Lítill foss hefur holað niður hraunið og laust jarðlag þar undir. Brotið sér síðan leið undir 42 metra breiða spöng (árið 1914) þaðan sem hann rennur áfram niður hraunið.19

Nyrðri-Ófæra í Eldgjá er frægasti og glæsilegasti steinboginn hérlendis og var enn uppistandandi er Guðmundur reit grein sína. Talið er að hann hafi myndast við að hraun hafi runnið í Eldgjá yfir lausara undirlag s.s. vikur eða skriðu. Áin hafi síðar hreinsað það jarðlag á brott.20

Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði á um margt sammerkt með Brúarfossi í Brúará. Núverandi árfarvegur er jafngamall Hallmundarhrauni sem ýtti ánni til hliðar og jarðsögulega er farvegurinn ungur – einungis 20 alda gamall – en samt grefur áin sig hratt niður og steinbogar myndast og eyðast við Barnafoss. Frásögn er í Heiðarvígasögu um brú sem lá yfir ána við Bjarnafoss og er þar líklega átt við Barnafoss. Þorvaldur Thoroddsen getur ekki steinboga við Barnafoss í Ferðabók sinni sem gefin var út 1914 en Guðmundur gagnrýnir athuganir hans á ánni og telur vel geta verið að honum hafi sést yfir slík ummerki. Guðmundur nefnir hins vegar til tvo steinboga sem myndast við hafi við Barnafoss á tuttugustu öld. Örla tók á þeim fyrri um 1920, áin gróf sig stöðugt undir hann og braut svo niður á árunum 1958–1960. Sá síðari var orðinn sýnilegur rétt fyrir 1930 og þegar Guðmundur skrifar grein sína þá er steinboginn oftast hátt upp úr vatni. Báðir þessir steinbogar mynduðust í skoru sem minnir nokkuð á gjána í Brúará en er krókóttari og ekkert vatn fossar niður af börmum skorunnar niður í gjána líkt og í Brúarfossi.21

Núpsárfoss er í samnefndri á sem er önnur mesta upptakakvísl Núpsvatna á Skeiðarársandi. Fossinn fellur úr allmiklum en nafnlausum dal milli Eystra-Fjalls og Bjarnarins og niður á Skeiðarársand. Þar undir hefur myndast dæmigerður skessuketill og í framhaldi af honum mjór steinbogi. Leifar af fleiri steinbogum eru í framhaldi af honum.22

Gluggafoss í smáá er nefnist Merkjá og fellur ofan Fljótshlíðina í mörkum á milli Hlíðarendakots og Múlakots. Fossinn er vel sýnilegur úr alfaraleið og er tvískiptur. Hann dregur nafn sitt af því að efri fossinn rennur að hluta til á bak við bergþil sem er um 15 til 20 metra hátt og flæðir vatnið út um þrjá til fjóra „glugga“ sem er hver uppi yfir öðrum. Þessi rennslisleið sem fossinn hafði brotið sig í gegnum virðist hafa verið þröng og hafa átt til að hafa hálfstíflast svo að vatn flóði stundum meir út um efri gluggana. Neðri rennslisleið fossins stíflaðist þó að mestu við vikurgosið í Heklu 1947 vegna þess að vikurinn svarf botn árinnar og bar mikið stórgrýti sem festist í mjórri rennunni. Árfarvegurinn fellur nú að mestu út um efsta gluggann en þó má greina seitl út um neðri gluggana.23

Steinboginn í Þverá sem rennur í Stóru-Laxá í Gnúpverjahreppi er mjög smár. Raunar er Þverá bara lækur og því jafngott að stökkva yfir hana eins og að ganga yfir steinbogann. Hann hefur myndast við skessuketil undir fossi líkt og margir steinbogar hér að framan.24

Steinboginn í Stekkjartúnslæk sem rennur í Hvítá er staðsettur þétt við sjálfa Hvítá. Áður fyrr rann Stekkjartúnslækur annarsstaðar í Hvítá en gróf sig með aðstoð árinnar í gegnum blágrýtisbrotaberg og rennur nú óhindrað þar.25

1Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal, Sögurit (Reykjavík: Sögufélag, 1903), 190.⁠

2Ibid.⁠

3Guðmundur Kjartansson, “Steinbogar,” Náttúrufræðingurinn. Alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði 40, no. 4, Tímarit hins íslenska náttúrufræðifélags (March 1971): 209.⁠

4Ibid., 109.⁠

5Ibid., 209-217, 221-231.⁠ Sjá: Viðauki A: Þekktir steinbogar

6Ibid., 225-226.⁠

7Ibid., 226.

8Ibid.⁠

9Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir: „Skrá yfir þjóðsögur og sagnir í Árnessýslu: skrásettar/ útgefnar 1890-1960.“ BA–ritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði nr. 2040 við Háskóla Íslands 2003, leiðbeinandi Stefanía Júlíusdóttir, Héraðsskjalasafn Árnesinga, 254: „Brúarhlöð“, s. 109.

10 Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir: „Skrá yfir þjóðsögur og sagnir í Árnessýslu: skrásettar/ útgefnar 1890-1960.“ BA–ritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði nr. 2040 við Háskóla Íslands 2003, leiðbeinandi Stefanía Júlíusdóttir, Héraðsskjalasafn Árnesinga, 255: „Brúarhlöð“, s. 109.

11 inngangur að „Annalium in Islandia farrago eða Íslenzk annálabrot 1106-1636.“ eftir Gísla Oddsson biskup í Skálholti. Annálar 1400-1800. Annales Islandici. Posteriorum Sæculorum. V“ Útg. Hið íslenzka bókmentafélag. (Rvk, 1955-88), s. 462-63.

12Jón Helgason. Jón Halldórsson.27-29. PEÓ. Íslenskar æviskrár.

13 Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir: „Skrá yfir þjóðsögur og sagnir í Árnessýslu: skrásettar/ útgefnar 1890-1960.“ BA–ritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði nr. 2040 við Háskóla Íslands 2003, leiðbeinandi Stefanía Júlíusdóttir, Héraðsskjalasafn Árnesinga, 309: „Dagrún í Skálholti“, s. 109.

14 Jón Halldórsson: Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal. I. b. 3. h., Sögurit II, útg. Sögufélagið, (Rvík 1906), s. 203.

15Sverrir Jakobsson. „Yfirlit um sögu þjóðsagnasöfnunar“. Íslenskt þjóðsagnasafn V. 54-55.

16Ibid., 210-211.⁠

17Ibid., 211-213.⁠

18Ibid., 213-215.⁠

19Ibid., 215.⁠

20Ibid., 215-216.⁠

21Ibid., 221-225.⁠

22Ibid., 226.⁠

23Ibid., 228-230.⁠

24Ibid., 230.⁠

25Ibid., 230-231.⁠

Mannréttindabaráttumaðurinn og lögfræðingurinn Munir Said Thalib var myrtur með eitri um borð í flugvél á leið til Amsterdam frá Indónesíu 7. september 2004. Talið er að leyniþjónustan í Indónesíu beri ábyrgð á dauða hans en tilraunir til að draga morðingja hans til ábyrgðar í gegnum dómskerfið hafa ekki borið árangur.

Munir í safni helgað minningu hans Omah Munir. Mynd af HWO.

Mynd af Munir í safni helgað minningu hans, Omah Munir. Mynd af HWO.

Nú hefur Suciwati, ekkju Munirs, og nánum vinum hans tekist að byggja upp og opna safn, Omah Munir, í minningu hans. Því miður er heimasíða safnsins ekki enn komin með enska útgáfu en það er í bígerð. Omah Munir þýðir bókstaflega „heimili Munirs“ og er líkt og nafnið gefur til kynna heimilið þar sem hann bjó áður með fjölskyldu sinni. Í safninu gefur að líta persónulega muni Munirs og síðustu stundir lífs hans en líka lýsingu á mannréttindabaráttu hans og stöðu mannréttindamála í Indónesíu.

Markmið aðstandenda safnsins er að fræða unga kynslóð Indónesíubúa um mannréttindabrot hersins og fyrri stjórnvalda og halda áfram baráttunni fyrir að sannleikurinn fyrir fjöldamorðum og glæpum fyrri tíma verði gerður opinber og ættingjar þeirra sem urðu fyrir barðinu á mannréttindabrotum stjórnvalda verði beðnir afsökunar og fái einhverjar sárabætur. Ætlunin er að starfa með skólum í nágrenninu auk þess sem öflugt vinafélag sjálfboðaliða beitir sér fyrir fræðslu og fjárstuðningi en safninu hefur líka borist mikill stuðningur úr ýmsum áttum í samfélaginu.

Nýleg heimildamynd um fjöldamorðin á vinstri mönnum, The Act of Killing, hefur vakið mikla athygli á Vesturlöndum. Hún lýsir morðunum frá sjónarhorni morðingjanna og með þátttöku þeirra. Þeir eru stoltir af verknaði sínum og þess fullvissir um að verða aldrei dregnir til ábyrgðar enda njóta þeir verndar háttsettra aðila. Myndin er áhrifamikil og margverðlaunuð og ég mæli með því að horft sé á hana. Ekki síst til að sjá hvernig leikstjórinn JJoshua Oppenheimer nálgast þetta viðkvæma umfjöllunarefni.

Þrátt fyrir að myndin hafi beint sjónum margra að gömlum syndum Indónesískra stjórnvalda þá virðist hún ekki hafa orðið til mikilla opinberra viðbragða í átt til friðþægingar við aðstandendur fórnarlambanna. Opnun Omah Munir hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum og ágætis umfjöllun um sögu mannréttindabrota í Indónesíu og safnið sjálft má sjá í Jakarta Post og Inside Indonesia. Mannréttindamál og uppgjör við fortíðina hefur einnig haft nokkur áhrif á komandi kosningar í Indónesíu líkt og sjá má á umfjöllun dr. Vannessu Hearman, kennara í Indónesíufræðum við Háskólann í Sidney, á History Workshop Online og í Inside Indonesia.

Í dag muna fáir af yngri Indónesunum eftir harðstjórn Suhartos og margir sjá efnahagslegan stöðugleika þess tíma í glæstu ljósi – ekki ósvipað því sem margir rússar líta aftur til Stalínstímans. Starf safnsins er því mikilvægt og góð ábending um að hægt er að vinna jákvætt úr erfiðum málum sem snúa að gjörðum og þöggun stjórnvalda.

Paul von Hindenburg

Paul von Hindenburg er á meðal þeirra sem hefur götu skírða í höfuðið á sér. Bundesarchiv, Bild 183-U0618-0500 / CC-BY-SA

Borgarminni er heillandi viðfangsefni sem snertir menningarlandslag og hvernig menning okkar birtist meðal annars í borginni. Þessi birtingarmynd getur verið í nafngiftum, arkitektúr, mannlífi og iðnaði svo eitthvað sé nefnt. Þannig getum við lesið sögu okkar og þéttbýlisins út úr „fornleifum“ borgarinnar sem þó eru kannski bara nokkurra ára gömul.

Dacosto er þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnafréttaflutningi með gagnvirkum máta og hefur hannað lítið en snjallt götukort af Berlín. Vefsvæði fyrirtækisins sem útleggja mætti á okkar ástkæra ylhýra sem vefsvæðið Gatnastríð sýnir skemmtilegt gagnvirkt götukort af Berlín þar sem gefin eru upp götunöfn sem tengjast hernaði. Þú getur valið að skoða götunöfn er tengjast ákveðnum tímabilum í sögu Þýskalands, ófriðum og eða að skoða götuheiti sem eru flokkuð eftir persónum, töpuðum landssvæðum, hernaðarbyggingum o.s.frv. Til viðbótar að gefa upp þessi götunöfn og merkja þau inn á Berlínarkort býður forritið líka upp á nánari upplýsingar um viðkomandi götur, s.s. póst- og húsnúmer, sögu götunnar, hvaðan heiti strætisins er runnið og sögu atburðarins/ fyrirbærisins eða einstaklingsins.

Snjöll hugmynd sem gefur áhugasömum færi á að kynnast borginni betur hvort sem það er sem ferðamaður, borgarbúi eða af fræðilegum áhuga s.s. vegna myrkvatúrisma eða sagnfræðilegum.

Undanfarið hefur verið töluverð umræða um byggingu miðaldakirkju í Skálholti. Tilgangurinn er víst aðallega til að laða að ferðamenn og sýna glæstan menningar-, kirkju- og byggingarf okkar Íslendinga. Unnin hefur verið vönduð skýrsla um þessa framkvæmd á vegum VSÓ. Skýrsluna – Miðaldadómkirkja í Skálholti. Stórvirki í íslenskri menningarsögu endurreist. Greinargerð október 2011 – er að finna á vefsvæði Þjóðkirkjunnar.

Fyrirhuguð miðaldakirkja í Skálholti. Nýlegar hugmyndir gera þó ráð fyrir staðsetningu annarsstaðar á Skálholtsjörðinni. Mynd VSÓ.

Í Hugrás, vefriti hugvísindasviðs Háskóla Íslands, má sjá áhugaverða gagnrýni á fyrirætlanir um tilgátubygginguna sem mögulega rís í Skálholti í greininni Miðaldakirkja í Skálholti?. Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ, bendir þar á verulega vankanta í fræðilegum ályktunum um stærð og útlit kirkjunnar. Stærð miðaldakirkjunnar í Skálholti byggir mikið á ályktunum um stærð Péturskirkju á Hólum (1395–1624). Bendir Gunnar meðal annars á að færð hafi verið trúverðug rök fyrir því að stærð Hólakirkju hafi verið stórlega ofmetin og að lengdin hafi t.d. ekki verið 50 m heldur 38 m.

Þessi gagnrýni Gunnars og fleiri um útlit og stærð tilgátubyggingar í Skálholti ber að skoða vel og ætti að varast að eyða milljónum í byggingu tilgátuhúsa sem verulegur vafi leikur á að standist staðreyndir.

Mynd af vefsíðu Ferðaþjónustunnar Úthlíð sem sýnir gönguleiðir á svæðinu.

Ég vann skemmtilegt verkefni fyrir tæpum þremur árum síðan þegar ég leiddi gönguhóp um Úthlíðarhraun ásamt systkinunum Hjördísi og Ólafi Björnsbörnum. Við gengum upp á Kolgrímshól sem er hæsti hóllinn í hrauninu og var markmiðið að finna kolagrafir sem þar áttu að vera og í kjölfarið hélt ég stutt erindi í Réttinni í Úthlíð þar sem ég sagði stuttlega frá kolagerð áður fyrr og hverjar gætu verið mögulegar skýringar örnefnis Kolgrímshóls.

Fræðslugangan var farin í samstarfi við Upplit – menningarklasa uppsveita Árnessýslu og var skipulögð með Ferðaþjónustunni í Úthlíð sem þau Dísa og Ólafur reka.

Ég gróf aðeins í innviðum tölvu minnar nýlega og sótti verkefnið til að fínpússa það því mér datt í hug að deila því hér með ykkur. Vonandi njótið þið þess. Myndir frá viðburðinum má sjá hér á vefsíðu Upplits.

Kolgrímur kolagerðarmaður

Formáli

Í Úthlíðarhrauni má finna marga fallega staði og sérkennileg örnefni sem sum hver búa yfir skemmtilegum sögum sem útskýra nánar tilurð heitisins en í öðrum tilfellum höfum við einungis örnefnið eitt og sér og því getur verið erfitt að átta sig á orsökum nafngiftarinnar.

Markmið þessa viðburðar í dag er að reyna að komast að orsökum örnefnisins Kolgrímshóll. Í örnefnaskrám er Kolgrímshól lýst þannig að hann sé „stærsti og fegursti hóllinn í hrauninu, skógi vaxinn að vestan að brún“ og að hann sé úr grágrýti og því hljóti hann að hafa staðið upp úr hrauninu þegar það rann. Um ástæður örnefnisins segir hins vegar einungis að „[n]afnið bendir til, að þar hafi áður verið gert til kola, enda má víða sjá móta fyrir gömlum kolagryfjum.“

Þetta getur verið erfið leit og háð óvissu og tilgátum en ég ætla að reyna að kynna fyrir ykkur bakgrunnsupplýsingar sem vísa okkur veginn að mögulegri skýringu á örnefninu Kolgrímshóll.

Kolagrafirnar við Kolgrímshól

Þegar gengið er við Kolgrímshól má finna fjölda gamalla kolagrafa við syðri enda Kolgrímshóls. Þessar kolagrafir eru margar illsýnilegar enda er svæðið vel gróið birkikjarri. Þessi ummerki benda til þess að töluvert hafi verið um vinnslu kola áður fyrr en þrátt fyrir trén sem eru uppi við hólinn er ekki mikið um birki á svæðinu. Vel þekktar eru þó frásagnir og ummerki um að landið hafi verið skógi vaxið við landnám. Slæmt árferði, ágangur búfjár og ekki síst kolavinnsla forfeðra okkar eru taldar helstu ástæður þess hve lítið er af skógi um allt Ísland.

Afhverju var kolavinnslan svo umfangsmikil?

Nútíma Íslendingurinn á erfitt með að átta sig á því hvernig kolavinnsla gat verið jafn eyðandi og umfangsmikil og heimildir greina frá. Við skulum því skoða aðeins mikilvægi hennar í búskap forfeðra okkar.

Kolagerð var landbúnaði mikilvæg iðngrein því að kol voru nauðsynleg við járngerð og smíði allra verkfæra úr málmi. Einkum þurfti þeirra við til dengja ljái við viðarkolaeld. Birkiviður var yfirleitt notaður til að búa til viðarkolin.

Hvernig voru kol gerð úr viði?

Viðarkol voru gerð þannig að viðurinn var kurlaður í smátt, kurlið látið í gryfjur, síðan kveikt í því og grafirnar byrgðar með torfi til þess að ekki logaði upp úr. Gryfjurnar hafa oftast verið þar sem skógurinn var höggvinn. Þær hafa verið misdjúpar og ákvæði voru í lagabálkum um að hylja ætti grafirnar eftir notkun til þess að sauðfé færi ekki í þær. Um kolagerð er líka oft getið í fornsögum, og oft er kveðið á um réttindi til kolviðarhöggs og kolagerðar í máldögum og jarðakaupabréfum frá miðöldum. Örnefni er líka víða að finna um land þar sem nú eru litlar eða engjar menjar um kolskóg.

Kolagröfin sjálf var tæplega tveir til þrír og hálfur metrar að þvermáli og rúmlega metri á dýpt. Kurlinu var raðað í hana, og voru stærstu stykkin sett neðst. Kúfur var hafður á gröfinni sem var um það bil metri á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mold mokað yfir gryfjuna svo að hvergi kæmist loft að. Kolagröfin var opnað eftir þrjá eða fjóra daga og kolin tekin upp. Kolagerðarmenn gátu vænst þess að fá að jafnaði fjórar til fimm tunnur kola úr slíkri gröf.

Kolavinnsla í uppsveitum Árnessýslu

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar sést að skógar eru nytjaðir á nokkrum jörðum, einkanlega til eldiviðar, kolagerðar og beitar, en allstaðar virðist hann þá vera á undanhaldi. Á Felli er skógur bjarglegur til kolagerðar, en hefur eyðst fyrir aðsókn annarra. Á Vatnsleysu nýttist hann til eldingar og beitar. Í Haukadal er hann mikið eyddur, en var mikill áður fyrr, einkum hafði hann látið ásjá eftir Heklugosið 1693. Getið er um skóg í Helludal. Í Neðradal er hann til gagns en hafði verið mikill. Í Austurhlíð hafði verið mikill skógur, en eyddist mikið í Heklugosi 1693 en er byrjaður að hjarna við eftir það. Svipað var komið fyrir skógi í Úthlíð. Þar og í Haukadal var stundað skógarhögg fyrir Skálholtsstað. Á Miðhúsum og Brekku höfðu verið skógar, en voru þá mjög eyddir. Á Efri-Reykjum var skógur nærri gjöreyddur. Eitthvert rifhrís var í Miklholti. Sagt er, að kirkjan í Bræðratungu hafi átt skógarpart undir Bláfelli og Torfastaðakirkja í Sandvatnshlíð, en þeir skógar eru sagðir gjöreyddir og komnir undir sand þegar Jarðabókin var skráð.

Þegar nítjánda öldin var nærri hálfnuð voru sáralitlar skógarleifar eftir í Haukadalssókn samkvæmt sóknarlýsingum og enn minni í Fellsfjalli. Út með Hlíðum voru þá skógar, hvorki stórir eða víðlendir og í afturför.

Þorvaldur Thoroddsen segir í Lýsingu Íslands 1881 að skóglendi í Biskupstungum sé víðáttumesti skógur á Íslandi enda samfelldur utan úr Laugardal og austur að Austurhlíð, en heldur væri hann lágvaxinn. Á Suðurlandi taldi hann skóga liggja hæst í Úthlíðarhrauni, þar sem þeir náðu að 1200 fetum og í Haukadal 1000 fetum yfir sjó. Skógur í Úthlíðarhrauni náði þá inn að Högnhöfða.

Í lýsingu landamerkja milli Torfastaða og Reykjavalla frá 1. október 1885 er sagt frá ítaki um hrísrif Reykjavalla á tíu hesta í Hrísholti í landi Torfastaða og að þar sé hríslaust.

Víða sér nú í minjar gamalla kolagrafa, meðal annars á Framafréttinum í allt að fimmhundruð metra hæð yfir sjó, þar sem verið hefur örblásið land síðustu áratugi.

Biskupsstóllinn í Skálholti átti nær alla bæi í Biskupstungum á sínum tíma og var Úthlíð þeirra á meðal. Nýtti biskupsstóllinn kolavinnsluna ótæpilega. Skálholtsstaður hafði m.a. nytjar af skógarhöggi suður og austur af Högnhöfða og upp með Brúará. Komu Skálholtsmenn á ári hverju og hjuggu stærstu og fegurstu hríslurnar. Sumar bjarkirnar voru allt að fimm metrum á hæð og voru höggnar í þverbita undir rjáfur.

Með hernáminu 1940 komu ódýr kol frá Evrópu og var þá hætt að fara í skóg. Björn Sigurðsson í Úthlíð fór það ár með föður sínum í Þjófabrún vestur af Miðfelli þá fimm ára gamall og sóttu þeir sjö hestburði af eldiviði. En fram að því voru skógarnir einnig óspart beittir, auk þess sem þeir voru notaðir til smíði gripahúsa.

Örnefni og munnmæli

Líkt og af þessari upptalningu sést þá var mikið skóglendi í uppsveitunum áður fyrr en að ágangur manna og dýra virðist hafa átt stóran þátt í að eyða skólendinu.

En hvernig tengist kolagerðin örnefninu Kolgrímshóll líkt og örnefnaskráin gefur til kynna?

Tilvísunin til þess að örnefnið hafi eitthvað með kolagerð að gera gefur okkur ekki mikið til að vinna úr og er mögulega dæmi um það þegar örnefni varðveitist en sagan sem liggur þar að baki hefur gleymst og er því ekki skráð með. Um slíkt eru fjölda mörg dæmi.

Einn fróðasti örnefnasérfræðingur landsins er Árnesingurinn, Svavar Sigmundsson, sem starfaði lengstum sem yfirmaður Örnefnastofnunar. Örnefni eru komin til vegna margra ástæðna og segir hann þau m.a. hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að marka skil á landareignum til forna. Kolgrímshóll er auðþekkjanlegt kennileiti og því gæti þetta átt við að einhverju leyti en ekki er þekkt að við hann hafi verið landamerki. Slíkt kann þó að hafa verið í fyrndinni en upplýsingar um landamerkingarnar glatast síðar en örnefnið hafa lifað. Það er rétt að benda á að erlendis er það þekkt að landamerkjavörður hafi verið hlaðnar yfir ösku. Ef vafi lék á því síðar meir hvort viðkomandi varða væri landamerkjavarða þá var hægt að grafa í hana til staðfestingar þar sem í henni mátti finna ösku. Þó það sé skemmtileg tenging við kolagrafirnar við Kolgrímshól er heldur ólíklegt að þar sé öskumerking á ferðinni.

Mörg örnefni á Íslandi vísa í hið yfirnáttúrulega, anda og þjóðtrú. Ekki síst eru mörg örnefni sem vísa til gömlu norrænu guðanna. Hins vegar hafa örnefnasérfræðingar ekki fundið neitt slíkt hérlendis sem tengist Óðni og getur það stafað af því að hann var stríðsguð á meðan nöfn Freys, Njarðar og Þórs má víða finna hér en þeir gegndu frjósemis- og verndarhlutverkum. Hins vegar getur nafnið Grímur, sem er eitt nafna Óðins, mögulega verið í samsetta heitinu Kol-Grímur og slíkt örnefni því mögulega vísað til Óðins.

Bæði Svavar Sigmundsson og sagnfræðingurinn Helgi Þorláksson telja líka að fjöldi dæma séu til þar sem landháttum er gefið nafn raunverulegra og lifandi eða látinna einstaklinga. Kolgrímur getur því hugsanlega verið maður sem fékk nafn sitt tengt umhverfinu órjúfanlegum böndum á meðan persónan sjálf er okkur horfin yfir móðuna miklu og löngu gleymd.

Litir koma einnig fram í örnefnum hérlendis og heitið kol vísar til myrkurs eða nætur og getur þannig mögulega tengst Kolgrímshóli.

Þá er ein orðmynd heitisins Gríms tengd andlitshulu eða dulargerfi, þ.e.a.s. grímu. Gríma vísa líka til þess að rofa til eða grilla í. Einnig sem óhreinindi og að óhreinkast.

Út frá orðmyndum samsetta orðsins Kolgríms getum við leyft okkur að kasta fram tilgátum á borð við að Kol-Gríms-hóll tákni í raun Svarta-Óðins-hól og hann sé tengdur Óðni og með tilkomu kristni hafi örnefnið fengið myrkan blæ. Kol-gríms-hóll getur líka vísað til svartkámugs andlits kolagerðarmanna að störfum nærri hólnum.

Niðurstöður

Nú er mál að linni og rétt að reyna að taka saman þá þræði sem ég hef reynt að leiða að hugsanlegri orsök þess að þessi stærsti og einn fegursti hóll Úthlíðarhrauns skuli bera nafnið Kolgrímshóll.

Örnefnalýsingar vísa til þess að ástæða nafnsins sé minjar um kolagerð við hólinn. Það verður að teljast sennileg skýring en þarf ekkert að vera sú rétta. Hér getur verið um að ræða einhvern aðila er bar nafnið Kolgrímur endur fyrir löngu og hefur tengst hólnum með einhverri sögn sem okkur er löngu glötuð.

Á meðan ekki liggja fyrir slíkar upplýsingar þá verðum við hins vegar að leita betur á slóðir kolaleifanna og þá virðast mér helstar skýringar vera eftirfarandi:

Nafnið Kolgrímur er tvískipt og vísar fyrri hlutinn til kolagerðarinnar eða myrkurs. Síðari hlutinn getur þá verið mannsnafnanna Grímur eða Óðinn eða jafnvel verið tilvísun guðsins Óðins. Orðið getur líka vísað til heitisins gríma úr kolum eða kolagríma en að a-ið hafi síðar fallið úr notkun með tímanum. Þannig hafi tilvísun til kolagerðarmanna sem sótugir voru í framan af stöðugri kolagerð – með kolagrímu – smám saman breyst í heitið Kolgrímur eða Kolgrímshóll.

Þar sem fornar upplýsingar um almenning eru oft fátæklegar þá er erfitt að tengja manninn Kolgrím eða Grím við Kolgrímshól en að sama skapi finnst mér heillandi að geta vísað til kolagrímu verkamannanna sem þræluðu fyrir Skálholtsbiskupana.

Þetta verður því að vera bráðabirgðarniðurstaða mín í þessari vanmáttugu rannsókn. Hún er háð tilgátum og vangaveltum en þegar heimildir eru jafn fátæklegar þá tel ég þetta veru illskástu tilgátuna að svo komnu máli.

Eftirfarandi síða »