Söfn


Mannréttindabaráttumaðurinn og lögfræðingurinn Munir Said Thalib var myrtur með eitri um borð í flugvél á leið til Amsterdam frá Indónesíu 7. september 2004. Talið er að leyniþjónustan í Indónesíu beri ábyrgð á dauða hans en tilraunir til að draga morðingja hans til ábyrgðar í gegnum dómskerfið hafa ekki borið árangur.

Munir í safni helgað minningu hans Omah Munir. Mynd af HWO.

Mynd af Munir í safni helgað minningu hans, Omah Munir. Mynd af HWO.

Nú hefur Suciwati, ekkju Munirs, og nánum vinum hans tekist að byggja upp og opna safn, Omah Munir, í minningu hans. Því miður er heimasíða safnsins ekki enn komin með enska útgáfu en það er í bígerð. Omah Munir þýðir bókstaflega „heimili Munirs“ og er líkt og nafnið gefur til kynna heimilið þar sem hann bjó áður með fjölskyldu sinni. Í safninu gefur að líta persónulega muni Munirs og síðustu stundir lífs hans en líka lýsingu á mannréttindabaráttu hans og stöðu mannréttindamála í Indónesíu.

Markmið aðstandenda safnsins er að fræða unga kynslóð Indónesíubúa um mannréttindabrot hersins og fyrri stjórnvalda og halda áfram baráttunni fyrir að sannleikurinn fyrir fjöldamorðum og glæpum fyrri tíma verði gerður opinber og ættingjar þeirra sem urðu fyrir barðinu á mannréttindabrotum stjórnvalda verði beðnir afsökunar og fái einhverjar sárabætur. Ætlunin er að starfa með skólum í nágrenninu auk þess sem öflugt vinafélag sjálfboðaliða beitir sér fyrir fræðslu og fjárstuðningi en safninu hefur líka borist mikill stuðningur úr ýmsum áttum í samfélaginu.

Nýleg heimildamynd um fjöldamorðin á vinstri mönnum, The Act of Killing, hefur vakið mikla athygli á Vesturlöndum. Hún lýsir morðunum frá sjónarhorni morðingjanna og með þátttöku þeirra. Þeir eru stoltir af verknaði sínum og þess fullvissir um að verða aldrei dregnir til ábyrgðar enda njóta þeir verndar háttsettra aðila. Myndin er áhrifamikil og margverðlaunuð og ég mæli með því að horft sé á hana. Ekki síst til að sjá hvernig leikstjórinn JJoshua Oppenheimer nálgast þetta viðkvæma umfjöllunarefni.

Þrátt fyrir að myndin hafi beint sjónum margra að gömlum syndum Indónesískra stjórnvalda þá virðist hún ekki hafa orðið til mikilla opinberra viðbragða í átt til friðþægingar við aðstandendur fórnarlambanna. Opnun Omah Munir hefur vakið nokkra athygli í fjölmiðlum og ágætis umfjöllun um sögu mannréttindabrota í Indónesíu og safnið sjálft má sjá í Jakarta Post og Inside Indonesia. Mannréttindamál og uppgjör við fortíðina hefur einnig haft nokkur áhrif á komandi kosningar í Indónesíu líkt og sjá má á umfjöllun dr. Vannessu Hearman, kennara í Indónesíufræðum við Háskólann í Sidney, á History Workshop Online og í Inside Indonesia.

Í dag muna fáir af yngri Indónesunum eftir harðstjórn Suhartos og margir sjá efnahagslegan stöðugleika þess tíma í glæstu ljósi – ekki ósvipað því sem margir rússar líta aftur til Stalínstímans. Starf safnsins er því mikilvægt og góð ábending um að hægt er að vinna jákvætt úr erfiðum málum sem snúa að gjörðum og þöggun stjórnvalda.

Auglýsingar

Nákvæm vistun og skráning skjala er hverju samfélagi nauðsynleg. Bæði til að tryggja framgang verkefna og sögulegt samhengi en einnig til að geta varast að mistök endurtaki sig og að hægt sé að hylma yfir  vafasöm ef ekki beinlínis glæpsamleg athæfi.

Í þessari frétt The Times of India, Britain burnt ’embarrassing’ documents of colonial crimes, og frétt blaðamannsins Cahal Milmos hjá The Independent, Revealed: How British Empire’s dirty secrets went up in smoke in the colonies, má sjá umfjallanir um hvernig starfsmenn Breska heimsveldisins unnu skipulega að því að hreinsa skjalasöfn sín af ummerkjum um mismunun kynþátta, glæpi og skammarlega hegðun samkvæmt skipunum og leiðbeiningum frá Bretlandi. Skjalahreinsunin, eða eigum við að segja sögufölsunin því að með því að eyða skjölum er verið að reyna að breyta sögu heimsveldisins, fékk aðgerðarheitið Aðgerð Arfleifð (e. Operation Legacy), í samræmi við tilgang sinn.

Starfsmennirnir gættu sín þó ekki á því að það er hægt að rekja alla pappírsslóð og á endanum neyddist ríkisstjórnin til að aflétta leynd af hálfrar aldar gömlum skjölum frá því á sjötta áratug síðustu aldar sem komu upp um tilraunina til sögufölsunar eftir málsóknir fórnarlamba frá fyrrum nýlendum Breta. Afleiðingin varð sú að breska ríkisstjórnin varð að greiða 20 milljónir punda í skaðabætur og utanríkisráðherrann William Hague neyddist til að biðjast opinberlega afsökunar á ódæðum Breta.

Nýleg rannsókn á menningarminjasöfnum í Danmörku sýna margt aðfinnsluvert. Markmið í varðveislu vantar víða, safnageymslur ótækar, lítill hluti safngripa skráður og þeir liggja víða undir skemmdum.

Fugtigt. Øhavsmuseets magasin i Faaborg er så utæt, at det ikke er muligt at kontrollere fugtigheden. Overalt i Danmark er der problemer med opbevaringen af kulturarven. - Foto: Øhavsmuseet

Geymsla Øhavssafnsins í Faaborg. Þar er geymslan svo óþétt að safnstjórnendur geta ekki stjórnað rakastigi sem hefur slæm áhrif á varðveislu safngripanna. Mynd Øhavssafnsins úr frétt Politiken.

Það eru þó ekki söfnin ein sem fá gagnrýni heldur er yfirstjórn menningarmála gagnrýnd líka að sögn blaðamanna Politiken en grein þeirra má lesa hér.

Hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?

Þriðja og síðasta umræðudagskrá í tengslum við sýninguna AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA fer fram nk. sunnudag, 13. júní kl. 15 í Listasafni Árnesinga.

Að þessu sinni er spurt  hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?  Inngangserindi flytur Skúli Sæland fyrir hönd Upplits – menningarklasa Uppsveita Árnessýslu. Hann mun skoða og skilgreina nærsamfélagið, tengsl þess við hið stærra samfélag og hvernig safnið getur virkað sem gátt milli nær- og fjærsamfélagsins.  Inngangserindi flytja einnig sýningarstjórarnir Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir. Þau munu gera grein fyrir núverandi sýningu og fjalla um hlutverk sýningarstjóra og miðlunarþátt safnsins. Ingirafn er starfandi myndlistamaður, Ólöf Gerður er mannfræðingur og forstöðumaður Rannsóknar-þjónustu Listaháskóla Íslands og Skúli Sæland er sagnfræðingur og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun og safnafræði.

Núverandi sýning AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA er sýning 15 samtímalistamanna sem allir takast á við samtímaviðfangsefni og varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar.

Listamennirnir nálgast viðfangsefnið á margslungna vegu og verkin fjalla í senn um miðlun þekkingar og aðgengi að henni, aðferðafræði myndlistarmannsins við þekkingarsköpun sem og eðli og mismunandi tegundir þekkingar í samfélaginu. Sýningin vekur einnig upp spurningar um skilin milli persónulegrar þekkingar og sameiginlegrar þekkingar, vald og ábyrgð þeirra sem búa yfir þekkingu, sem og fagurfræði þekkingar.

Sýningin mun standa til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18.  Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar: http://www.listasafnarnesinga.is/list/

Menntun og vöktun með því sem er að gerast í menningarmálum í samfélaginu er mér umhugað og því er gaman að fjalla örlítið um námið mitt í Háskóla Íslands þessa stundina.

Er núna nýkominn úr tíma hjá bandarískum prófessor, Steven C. Dubin, í námskeiðinu Dusting off/Dusting up: Museums in a Global Perspective. Námskeiðið fjallar um hvernig söfn endurspegla breytingar í menningu, pólitík og samfélagi og hve víðtæk málefni og mismunandi þrýstihópar hafa áhrif á söfnin. Fjallað er sérstaklega um söfn í Bandaríkjunum og Suður-Afríku í þessum tilgangi. Námskeiðið er kennt sem hraðnámskeið sem felur í sér stífa kennslu um þrjár helgar í janúar en síðan skilum við ritgerð í mars.

Dubin kennir á gamaldags klassískan máta, þ.e.a.s. hann heldur fyrirlestur, en við getum spurt hann mikið út úr og þá fer hann á flug við nánari útskýringar og raun mikið ýtarlegri en spyrjandinn hefði búist við. Hann er mjög líflegur, gjörþekkir efnið og gætir þess vel að útskýra aðstæður, málefni og hópa sem tengjast hverju umfjöllunarefni. Þetta þýðir að hann hefur útskýrt samfélag og tíðaranda á viðkomandi stöðum mjög ítarlega fyrir okkur og sem heillar mig algerlega upp úr skónum.

Til þessa höfum við farið yfir, svo eitthvað sé nefnt, tilraunir Mattel inc. til að búa til glanssýningu í virtu safni um Barbie dúkkurnar en voru gripnir með allt niðrum sig 1994, heiftarlegar deilur um hvernig sýna bæri Haarlem árið 1969, kynna sögu Íra í New York 1996, hvernig rétt væri kynna sprengjuflugvélina Enola Gay, sem varpaði kjarnorkusprengjunni á Hiroshima, árið 1995 og veiðar á Búskmönnum í S-Afríku og hvernig þeir voru hafðir til sýnis og hvernig sýning um þá vakti loks athygli á bágri stöðu þeirra.

Dubin er nú á leið af landi brott en eftir er rannsóknin hjá mér sem verður um áhrif Hólmsteins-Laxness deilunnar á handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar sem lenti í átakasvæðinu.