Nóbelsskáldið Orhan Pamuk skrifaði bókina Museum of Innocence sem kom út árið 2009. Þetta er heillandi ástarsaga eða kannski réttar sagt þráhyggjusaga af því þegar Kemal, ungur maður í efri millistétt í Istanbul í Tyrklandi, verður ástfanginn af ungri konu, Füsun, þrátt fyrir að vera trúlofaður annarri.
Hann stofnar til framhjáhalds og ást hans verður brátt að þráhyggju. Síðar giftist Füsun öðrum manni en það kemur ekki í veg fyrir að Kemal heimsæki hana og fjölskyldu hennar árum saman til þess að vera nálægt henni. Til að bæta gráu ofan á svart tekur hann til við að stela hlutum af heimili hennar og sem tengjast stúlkunni til að fullnægja þráhyggju sinni. Með þessu móti fullnægir hann þörf sinni fyrir nærveru við markmið þráhyggju sinnar.
Þessi söfnunarástríða Kemals er kjarni sögunnar og hann stofnar síðan safn sem inniheldur gripi Füsuns og „fær“ Pamuk til að skrifa um ástarævintýri þeirra Füsuns og uppbyggingu safnsins.

Museum of Innocence

Í þessari blaðagrein, sem Pamuk skrifar, lýsir hann áhuga sínum og hrifningu af litlum persónulegum söfnum, líkt og hann reyndar segir afskaplega vel frá í bókinni. Hann segir frá tildrögum bókarinnar sem eru raunar þannig að hann var sjálfur byrjaður að safna hlutum sem tengdust mannlífi í Istanbul á áttunda og níunda áratuginum. Eftir að hafa safnað hlutum um árabil með óljósa hugmynd um að gera úr þeim safn um leið og hann skoðaði fjölda safna út um allan heim á ferðalögum sínum kviknaði sú hugmynd hjá honum að skrifa ástarsögu um mann sem safnaði hlutum sem tengdust þráhyggju sinni um að vera nær ást sinni. Eftir því sem sagan þróaðist segist Pamuk hafa farið að safna gripum sem tengdust betur sögunni auk þess sem hann þurfti að endurskrifa söguna margoft til að koma að nýjum sýningargripum.
Þannig má segja að sagan kvikni vegna söfnunarástríðu Pamuks sjálfs og áhuga á að byggja upp lítið safns í mynd þeirra safna sem hann hreifst mest af á ferðalögum sínum. Úr verður að Pamuk festir kaup á íbúð sem verður hluti sögunnar og lætur gera íbúðina að safni – Museum of Innocence.

Sígarettustubbar

Hluti 4213 sígarettustubba sem Kemal safnaði í laumi eftir að Füsun, ástin í lífi hans, hafði reykt þá. Við stubbana eru skráðar dagsetningarnar þegar Kemal náði stubbunum og vangaveltur sögupersónunnar yfir mögulegu skaplyndi Füsuns er hún reykti viðkomandi rettu. (Xinhua/Ma Yan)

Við lestur sögunnar um Museum of Innocence þá hrífst maður af lýsingum Pamuks af lífi millistéttarinnar í Istanbul þar sem vestræn menning er að festa rætur og rekst á við íhaldssama og rótgróna tyrkneska menningu. Við kynnumst innreið tyrknesks kvikmyndiðnaðar sem um tíma er þriðji stærsti í heimi á eftir Hollywood og Indlandi. Sömuleiðis stöðugum átökum hryðjuverkamanna, yfirvalda og stjórnarbyltinga þar sem nýjar og nýjar herstjórnir taka völdin. Allt þetta virðist þó lítil áhrif hafa á auðuga millistéttina sem nýtur lífsins á meðan.

Pamuk í safninu

Höfundurinn og stofnandi safnsins, Orhan Pamuk.

Þrátt fyrir að viðfangsefni Museum of Innocence sé á mörkum ímyndunar og raunveruleika þá, en reyndar einmitt þess vegna, fékk það Evrópsku safnaverðlaunin 2014.
Í umsögn dómnefndar segir:

The Museum of Innocence can be seen simply as a historical museum of Istanbul life in the second half of 20th century. It is also, however, a museum created by writer Orhan Pamuk as an integral, object-based version of the fictional love story of his novel of the same name. The Museum of Innocence is meant as a small and personal, local and sustainable model for new museum development. The Museum of Innocence inspires and establishes innovative, new paradigms for the museum sector.

This museum fulfils to the highest degree the notion of “public quality”, from the point of view both of heritage and of the public. (http://www.europeanmuseumforum.info/component/content/article/107-european-museum-of-the-year-award-2014-.html)

Ákaflega merkilegt afrek og sjálfur segir Pamuk að hann hafi mest gaman af því hve safnið verði lifandi í augum safngestanna. Persónur bókarinnar verði nánast sem lifandi verur í augum gestanna og skil veruleika og skáldskapar hverfi og bæði renni saman í eitt.

Að lokum þá bendi ég á að fyrir þá sem einnig sammála eru hrifningu Pamuks af aðdráttarafli lítilla persónulegra safna þá má sjá hér kort yfir „lítil“ söfn í París. Vonandi nýtist það einhverjum vel í næstu Parísarferð.

Auglýsingar