Paul von Hindenburg

Paul von Hindenburg er á meðal þeirra sem hefur götu skírða í höfuðið á sér. Bundesarchiv, Bild 183-U0618-0500 / CC-BY-SA

Borgarminni er heillandi viðfangsefni sem snertir menningarlandslag og hvernig menning okkar birtist meðal annars í borginni. Þessi birtingarmynd getur verið í nafngiftum, arkitektúr, mannlífi og iðnaði svo eitthvað sé nefnt. Þannig getum við lesið sögu okkar og þéttbýlisins út úr „fornleifum“ borgarinnar sem þó eru kannski bara nokkurra ára gömul.

Dacosto er þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gagnafréttaflutningi með gagnvirkum máta og hefur hannað lítið en snjallt götukort af Berlín. Vefsvæði fyrirtækisins sem útleggja mætti á okkar ástkæra ylhýra sem vefsvæðið Gatnastríð sýnir skemmtilegt gagnvirkt götukort af Berlín þar sem gefin eru upp götunöfn sem tengjast hernaði. Þú getur valið að skoða götunöfn er tengjast ákveðnum tímabilum í sögu Þýskalands, ófriðum og eða að skoða götuheiti sem eru flokkuð eftir persónum, töpuðum landssvæðum, hernaðarbyggingum o.s.frv. Til viðbótar að gefa upp þessi götunöfn og merkja þau inn á Berlínarkort býður forritið líka upp á nánari upplýsingar um viðkomandi götur, s.s. póst- og húsnúmer, sögu götunnar, hvaðan heiti strætisins er runnið og sögu atburðarins/ fyrirbærisins eða einstaklingsins.

Snjöll hugmynd sem gefur áhugasömum færi á að kynnast borginni betur hvort sem það er sem ferðamaður, borgarbúi eða af fræðilegum áhuga s.s. vegna myrkvatúrisma eða sagnfræðilegum.

Auglýsingar