Var að koma úr ánægjulegri skemmtiferð með afkomendum Þórarins Þorfinnsonar og Ingibjargar V. Guðmundsdóttur frá Spóastöðum. Fórum upp á Smalaskálaholt þar sem ég sagði frá örnefnum þar og nærliggjandi staða ásamt fornleifarannsóknum sem sýnt hafa fram á að hringlaga garður sem sést þar var hlaðinn á 12. öld og fornleifafræðingar eru spenntir fyrir því að rannsaka rústir innan garðsins.

Spóaafkomendur og viðhengi berjast við mýið með minni aðstoð. Ljósmyndari Ingibjörg Gísladóttir.

Auglýsingar

Á fimmtudaginn kemur, 18. september kem ég til með að leiða sögugöngu um slóðir ferjuslyss sem varð þar 1903. Gangan er hluti af menningargöngum menningarmálanefndar Bláskógabyggðar.

Árið 1903 var dragferja hér á milli klappanna við Hvítá við Iðu. Í september sama ár lést Runólfur Bjarnason ferjumaður við störf sín.

Árið 1903 var dragferja hér á milli klappanna við Hvítá við Iðu. Í september sama ár lést Runólfur Bjarnason ferjumaður hér við störf sín.


Runólfur Bjarnason ferjumaður á Iðu drukknaði 1903. Í blaðafréttum var greint frá uppgefinni föðursystur, öldruðum föður og þremur ungum börnum eftir að fyrirvinna fjölskyldunnar féll frá. Gengið verður um slysstaðinn og greint frá slysinu og merkilegum afdrifum fjölskyldunnar.


Upphaf göngunnar er kl. 18 við Iðubrú. Hún tekur allt að tveimur tímum og eru þátttakendur beðnir klæða sig eftir aðstæðum og vera vel skóaðir.

Mér hlotnaðist sá heiður að miðla sögu Reykholtsbyggðar til kennara úr Breiðholtsskóla á skemmtiferð í dag. Það er gaman að sjá starfslið vinnustaðar halda tengslum jafnvel og lengi og mér sýndist þessi hópur gera. Þau hittast og fara reglulega í ferðir saman ásamt mökum sínum og nú átti hópurinn leið um Reykholt.

Þau litu við á Garðyrkjustöðinn á Espiflöt þar sem Áslaug Sveinbjarnardóttir fræddi þau um sögu stöðvarinnar og ræktun blóma þar en að því búnu tók ég við hópnum og sagði þeim stuttlega frá upphafi byggðarinnar og hvað olli því að garðyrkjan blómstraði jafn myndarlega hér og raun ber vitni. Sú saga er dálítið sérstök og ég er iðulega spurður eftir svona söguferðir hvort sagan sé ekki skráð einhvers staðar. Það er hún ekki því miður en þar til það verður gert er gaman að geta miðlað henni til áhugasamra hópa.

Ferðalangarnir enduðu svo för sína hjá heiðurshjónunum Knúti og Helenu á Friðheimum þar sem þau fengu kynningu á garðyrkjustöðinni og gafst kostur á að snæða ljúffengan mat hjá meistarakokknum Jóni K.B. Sigfússyni.

Brúarfoss í Brúará

Brúarfoss í Brúará

Menningarhátíð og guðþjónusta verður haldin í Úthlíð 9. júlí á afmælisdegi kirkjunnar.
Framundan er samstarfsverkefni við ferðaþjónustuna í Úthlíð þar sem gengið verður að Brúarfossi í Brúará. Þetta er afskaplega fallegur foss sem býr yfir dramatískri sögu um að biskupsfrúin Helga Jónsdóttir og bryti hennar hafi látið brjóta niður steinboga sem lá yfir hann. Þetta gerðu þau til að varna fátæklingum að komast að Skálholti. Grimmileg frásögn en til þessa hafa menn ekki þorað að taka afstöðu til þess hvort um helberan uppspuna sé að ræða eða hvort slíkur steinbogi hafi í raun og veru legið yfir fossinn.
Ég lagðist smá rannsóknir og fann skemmtilega mikið sem styður þessa frásögn. Vonandi verður þetta skemmtileg ganga með góðri kvöldstund þar sem göngugestir munu taka þátt í samræðum um þessa gömlu sögu.
Eftirfarandi dagskrá er að finna á heimasíðu ferðaþjónustunnar í Úthlíð, http://www.uthlid.is:
Mæting í Réttina kl. 17.00, farið að Brúará. Kl. 20.00 hefst messa í Úthlíðarkirkju, að messu lokinni verður Skúli Sæland sagnfræðingur og menningarmiðlari með fyrirlestur um steinbogann í Brúará og veitingar í Réttinni.

Fimmtudagur 9. júlí

Mæting í Réttina kl. 17.00, sameinast í bíla og ekið sem leið liggur að Vallá og gengið þaðan að Brúará, gamla brúin skoðuð og minjar um steinbogann. Síðan er gengið til baka í bílana og þeir sem vilja ganga lengra fara eftir Kóngsveginum heim í Úthlíðarkirkju undir fararstjórn heimamanna.

Kl. 20.00 hefst messa í Úthlíðarkirkju, sr. Egill Hallgrímsson messar og Jóhann Friðgeir Valdimarsson syngur einsöng, Jón Björnsson kantor annast undirleik.
Að messu lokinni hefst samkoma í Réttinni, en þar verður í boði grænmetissúpa og fróðlegur fyrirlestur sem Skúli Sæland sagnfræðingur og menningarmiðlari mun flytja um steinbogann í Brúará.

Frekari upplýsingar má líka sjá á hópsvæðinu „Sögubrot síðustu alda“ á Facebook undir viðburðir og myndir, http://www.facebook.com/topic.php?uid=37580109882&topic=7060#/group.php?gid=37580109882
Vonast til að sjá sem flesta.
Reblog this post [with Zemanta]