Datt í hug að setja hér tímaritsgrein sem ég fékk birta í Glímunni fyrir nokkrum árum.

Þetta er smá skoðun sem ég vann á þjóðsögu sem hefur fylgt okkur uppsveitungum í árhundruð og greinir frá því þegar kaldrifjuð biskupsfrú og miskunnarlaus þjónn hennar brjóta niður brú frá náttúrunnar hendi yfir Brúará. Einungis til að losna við að sjá fátæklinga menga útsýni sitt og sníkja úr matarbúrum í Skálholti.

Það merkilega var að þó nokkur sannleikskorn leynast í þjóðsögunni og skemmtilegt var að sjá hvernig raunverulegar persónur afbökuðust í meðförum sagnageymdarinnar. Ég skemmti mér í það minnsta vel við rannsóknina og skrifin. Ég biðst forláts á útliti textans en ég afritaði hann úr pdf-skjali og tilvísunarmerki og annað álíka er á sérkennilegum stöðum á vefsíðunni.

Reiðmaður á brúnni yfir gjánni í Brúará. Mynd DMR-158835 tekin af Daniel Bruun.

Reiðmaður á brúnni yfir gjánni í Brúará. Mynd á danska Þjóðminjasafninu, DMR-158835 tekin af Daniel Bruun.

Steinboginn og hústrú Helga

Staðlausir stafir eða ótrúverðugar staðreyndir?

Vel flest þekkjum við frásögnina um steinbogann sem átti að hafa verið yfir Brúará í ⁠uppsveitum Árnessýslu og Helga Jónsdóttir biskupsfrú lét brjóta niður í upphafi 17. aldar til að varna aðsókn þurfalinga að Skálholti. Þessi frásögn hefur birst víða og oft gagnrýnilaust en nú síðustu árin hafa menn gjarnan bætt við orðunum „Sagt var að …“ og þannig forðast taka afstöðu til þess hvað kunni að liggja að baki frásögninni.

Á uppvaxtarárum mínum í Laugarási við hlið Skálholts trúði ég því fastlega að steinboginn hefði verið til og að illgjarna nornin hún Helga biskupsfrú hefði látið brjóta hann niður. Síðar varð ég meðvitaður um að steinbogar áttu það til að falla af eigin rammleik. Gleggsta dæmið um slíkt er sennilega steinboginn sem lá yfir Ófærufoss í Nyrðri-Ófæru í Eldgjá sem hrundi 1993. Um leið og ég áttaði mig á þessu afskrifaði ég afgang sögunnar um Helgu og steinbogann yfir Brúará sem skáldskap. Allt saman álíka ótrúverðugt.

Í dag er ég ekki lengur jafn viss í minni sök og þó ég hafi svo sannarlega ekki fengið hugljómun á borð við „Evreku“ Arkimedesar þá kom ýmislegt forvitnilegt í ljós þegar ég fór að skoða frásögnina um niðurbrot steinbogans.

Frásögn Jóns Halldórssonar

Elsta skrásetta frásögnin af broti steinbogans er frásögn Jóns prófasts Halldórssonar (1665–1736) í Hítardal sem hann skrifaði í Biskupasögur sínar:

Á þeim stóru harðindaárum til lands og sjávar hér um Anno 1602, var af fátæku umferðar og uppflosnuðu fólki úr öllum áttum mikil aðsókn að Skálholtsstað. En bryti staðarins meinti henni mundi réna, ef sú sjálfgerða brú eður steinbogi á Brúará, (hvar af hún hafði að nafn), væri afbrotinn; fór því til og braut hana með mannafla með vitund ef ei með ráði biskupshústrúr, Helgu Jónsdóttur, en án vitundar herra Odds, því það tiltæki féll honum stórilla, þá hann fékk það að vita, ávítandi brytann mjög, og kvað hvorki sér né honum nokkurt happ þar af standa mundi. Skömmu síðar drukknaði þessi bryti í Brúará; bending þótti og nokkur á hinum yngri börnunum biskups Eiríkur hafði mikinn vitsmunabrest; Margrét var kvenna fríðust á andlitið öðrum megin, önnur kinn hennar fagurrjóð og blómleg, en hin önnur hvít og visin.1

Þetta er grunngerð sögunnar um steinbogann. Ofangreind atriði eru velþekkt úr þjóðsögum. Fyrst er tiltekin vandamál eða ógn, síðan ill lausn vandans og að lokum fá aðilar verknaðarins makleg málagjöld. Aukaþema sögunnar er forspá helgs manns, í þessu tilfelli Odds Einarssonar biskups, þegar hann fréttir af verknaðinum. Það er sömuleiðis vel þekkt þema.

Það sem Jón prófastur bætir við og gefur sögunni um steinbogann þetta aukabragð sem gerir hana svo mikið bragðbetri en aðrar þjóðsögur er að

Laungu síðar hér um Anno 1680 tóku sig saman bændur í Biskupstungum: Jón Jónsson smiður í Miklaholti og aðrir fyrirmenn sveitarinnar, veltu stórum björgum ofan í árþreingslin til að koma upp aptur brúnni á ána og hlaða hana upp; en þá vatnavextir verða miklir á vetrum brjóta þau opt af þetta forverk og þarf aptur við umbótar hvað eptir annað.2

Ljóst er af þessum orðum Jóns að staðurinn þar sem steinboginn er talinn hafa staðið er vel brúanlegur og bændurnir í nágrenni hans virðast sækja í að brúa ána sem réttnefnd er Brúará.

Til að geta tekist á við spurninguna hvort eitthvað sé að marka söguna um brot steinbogans þurfum við að sigta hismið frá kjarnanum og átta okkur á því hvaða hlutar frásagnarinnar kunni að vera réttir.

Fyrst af öllu þurfum við að komast að raun um hvort yfirleitt hafi verið til eitthvað sem var steinbogi eða brú yfir Brúará.

Rétt er líka að athuga hvernig er sagan um steinbogann yfir Brúará sé tilkomin. Getur verið að hér sé um ævaforna sögn um steinboga sem er löngu horfinn?

Sagan átelur gerendur ódæðisins og segir að þeim hafi verið refsað – Hvernig var illkvendinu refsað? Helga hústrú biskups sem samþykkti ef ekki fyrirskipaði ódæðið. Hvað varð um hana? Helgu Jónsdóttur biskupsfrú var refsað með „bendingum“ á yngri börnum sínum en brytinn drukknaði. Að hvaða leiti fær það staðist? Þetta eru þjóðsagnakenndar lýsingar en við búum svo vel að hafa nokkuð góðar upplýsingar um þá sem bjuggu í Skálholti og ekki síst um biskupshjónin. Hvað fær staðist um refsingar sögunnar? Drukknaði brytinn í kjölfar illverkisins? Þjóðsögur kalla á refsingu fyrir illdæði og Brúará tók mörg líf á þessum árum. Tók þjóðsagan kannski brytann og drekkti honum sögunnar vegna.

Síðast en ekki síst. Hvað segir sagan okkur um tengsl Skálhyltinga og alþýðunnar? Þetta eru mikil harðinda og hörmungarár. Er sagan uppspuni magnvana og örvæntingarfullrar þjóðar gagnvart hinum ríku eða lýsir hún kannski með raunsönnum hætti framkomu yfirstéttarinnar gagnvart almúganum? Má greina mismunandi sjónarhorn þessara hópa á þennan atburð?

Samantekið eru helstu rannsóknarspurningar þessar:

  1. Var til steinbogi yfir Brúará?
  2. Er hugsanlega eldra minni um steinboga að blandast saman við síðari frásagnir?
  3. Hlaut Helga biskupsfrú makleg málagjöld?
  4. Var yngri börnum hennar refsað fyrir ódæðið?
  5. Drekkti þjóðsagan brytanum?
  6. Hvað segir frásögn Jóns af broti steinbogans okkur um samskipti yfirstéttarinnar við almúgann?

Steinbogar – raunverulegir og ímyndaðir

Við skulum byrja á því að líta á náttúrufyrirbrigðið steinboga. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur fjallaði ítarlega um steinboga hérlendis í grein sem hann reit í Náttúrufræðingnum 1970. Skilgreiningin sem hann vandist við að nota var að steinbogi væri: „sjálfgerð brú eða spöng úr hörðu bergi yfir á eða læk“ en getur þess að fyrrum hafi merkingin verið víðtækari.3

Guðmundur vildi flokka steinbogana eftir því hvernig þeir mynduðust og í grein sinni leitaðist hann við að greina frá öllum steinbogum sem hann þekkti til á Íslandi og þeir voru allir á sunnanverðu landinu frá Skeiðarársandi til Borgarfjarðar. Hann tók þó fram að þar sem hann ól manninn á Suðurlandi þá gæti verið að fleiri bogar væru annarsstaðar á landinu.4

Steinbogar úr hrauni og þar sem vatnsföllin fundu sér farveg með því að ryðja veikari jarðlagi á brott eru í upptalningu Guðmundar: Steinbogarnir við Gerðisfoss í Galtalæk, á Grindakvísl (Tungná), Syðri-Ófæru á Skaftártunguafrétti og Nyrðri-Ófæru í Eldgjá. Steinboginn í Öðulbrúará myndaðist þegar Öðulbrúará rann í gegnum helluhraunshelli. Steinbogarnir við Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði, Núpsárfoss, Gluggafoss, Þverá í Gnúpverjahreppi og Stekkjartúnslæk í Hrunamannahreppi eru hins vegar dæmi um steinboga sem myndast hafa fyrir tilstilli skessukatla.5

Guðmundur kallar fyrri gerð steinboganna „veiluboga“, það er að segja þá sem eru staðsettir í Galtalæk, Grindakvísl, Syðri- og Nyðri-Ófæru og Öðulsbrúará. Steinbogarnir við Barnafoss, Brúarfoss, Núpsárfoss, Gluggafoss, Þverá og Stekkjartúnslæk myndast fyrst og fremst fyrir tilverknað vatnsfallsins sjálfs og þá „aðeins í beljandi straumi og verða langstærstir undir fossum.“6 Þar sem steinboginn við Brúará er markmið þessarar athuganar er ómaksins vert að skoða hvernig þessi náttúrufyrirbrigði myndast:

[Á]in grefur krappa hylji, svonefnda skessukatla, í botnklöppina. Katlarnir dýpka og víkka smám saman við það, að hringiður þyrla sandi og möl um botn þeirra og veggi og fægja klöppina. Þetta gerist nær eingöngu í vatnavöxtum; þess á milli safnast bergmylsnan fyrir á botninum og liggur þar kyrr. Ef svo ber undir, geta skessukatlar víkkað meira við botn en barm, þannig að haftið milli tveggja nálægra katla slitnar sundur neðanjarðar. Þá styttir vatnið sér leið um gatið og víkkar það, unz öll áin fer þar í gegn og er þar með komin undir steinboga. Raunar þarf ekki til nema einn skessuketil, ef hann er á fossbrún, þá getur hann víkkað að neðanverðu fram í fossstálið … .7

Steinboginn í Brúarfossi í Brúará er umlukinn dulúð því bæði er vísað til steinboga sem ekki sjást nein ummerki um lengur og frásögn Jóns Halldórssonar hefur umlukið bogann dramatískum blæ sem seint verður frá honum tekinn.

Fossinum er ágætlega lýst af Guðmundi:

Brúarfoss er mjög einkennilegur. hann myndast af fremur lágum stalli þvert yfir árfarveginn. En þó fellur aðeins lítið brot af árvatninu fram af stallinum. Það bert til, að gjá ein djúp og þröng liggur eftir miðjum árfarveginum og niður í hana fossar vatnið frá báðum hliðum fyrir ofan stallbrúnina, svo að lítið er efftir til að falla fram af brúninni. neðan við stallinn rúmast allt árvatnið í gjánni. Bergið í árborninum (stalliinum og gjárveggjunum) er grágrýtishraun, sem hlýtur að vísu að hafa fyllzt af jökulruðningi á íslöld. En er jökullin leysti og Brúará varð til, hefur hún hitt á þessa veilu í berginu, þvegið burt lausa rúðninginn, máð hin fornu og hörðu brotsár sprungunnar víkkað hana og aflagað nokkuð.

  1. Guðmundur Kj, “Steinboginn á Brúará,” Náttúrufræðingurinn. Alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði 18, no. 1 (1948): 43-44.

Guðmundur kannaði hann sérstaklega og auðsætt er að hann átti í miklum erfiðleikum með að taka afstöðu til þess hvort þarna hefði verið steinbogi og þá ekki síður hvort brytinn og biskupsfrúin hefðu eitthvað átt við hann. Í rannsókn sinni sem hann reit um 1948 varð niðurstaða hans sú að

Guðmundi fannst sennilegt að Brúarfoss hefði myndast við það áin hefði hitt á veilu í hrauninu og víkkað hana til.

komst að þeirri niðurstöðu að þar hefði líklega aldrei verið steinbogi og voru rök hans helst þau að:

„Hinar þröngu hylskorur bæði í Brúarfossi og Barnafossi eru til orðnar úr röð skessukatla, sem hafa vaxið saman. Leifar af berghöftunum, sem áður skildu þá, skaga enn fram í skorurnar frá báðum hliðum og standast víða á.“8

Til eru mýmörg dæmi um steinboga sem brotnir voru niður í þjóðsögum. Steinbogi var yfir Hvítá við Brúarhlöð en var brotinn niður vegna ágangs í harðindaári:

Sagt frá Brúarhlöðum sem eru klettar í Hvítá. Talið er að þar hafi brú verið í fornöld og notuðu Tungnamenn hana er þeir námu land í efri hluta Hrunamannahrepps. Haukur bjó í Haukadal en hafði sel í Haukholtum. Gýgur bjó að Gýgjarhóli. Hann lét brjóta brúna af vegna átroðnings. Þegar Haukur kom næst að og sá að brúin var farin reiddist hann og stökk yfir en bilaðist við það og dó. Leiði hans er hjá Haukholtum9

10

Sú saga er með meiri ævintýrablæ en sú af steinboganum í Brúará enda á hún að hafa gerst löngu fyrr.

Önnur saga sem gerist nær okkur í tíma er af steinboga yfir Hvítá í Borgarfirði. Drukknuðu tveir piltar af nærliggjandi bæ og lét móðir þeirra þá höggva bogann af ánni með þeim ummælum að þar skyldi engi framar lífs yfir komast.

Þá er líka getið eyðileggingar steinboga af völdum tröllkvenna líkt þegar tröllið Kleppa braut steinbogann á Farmannsdalsá.

Heimildirnar – Sannleikurinn???

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá Hruna í Hrunamannahreppi skrifar í Náttúrufræðinginn árið 1948 fróðlega grein um steinbogann.

Guðmundur fann annan steinboga í ánni sem er á kafi í vatni. Þessi bogi hafi heldur ekki verið skemmdur af mönnum hennar. Aðstaðan þarna sé of hættuleg og ekki mögulegt að brjóta ofan af boganum með þeirra tíma tækni.

Guðmundur telur tilveru þessa steinboga styrkja söguna um eldri bogann sem hafi sennilega verið þarna skammt frá rétt fyrir ofan fossinn. Þar sé gjáin ekki nema röskur metri á breidd og um mannhæðar djúp niður að vatni þar sem hún er einungis um 30 sm að breidd þar sem hún er sem mjóst. Báðum megin gjárinnar eru fremur flatar klappir, sem vatn rennur yfir. Þetta vatn verður að vaða, svo að ekki hefur hið uppflosnaða fók, sem hrelldi biskupsfrúna í Skálholti, gengið þurrum fótum yfir Brúará. En vaðallinn er grunnur og stöðugur því vatnsmagn Brúarár er með fádæmum jafnt og stöðugt hverju sem viðrar því hún er lindará.

Guðmundur telur sig líka hafa séð verksummerki brúargerðar eftir Jón Jónsson smið í Miklaholti og Tungnabændur. Þar sem áin er þrengst liggur allt að 200 kg steinn skorðaður milli veggjanna niðri í gjánni. Stundum er hann allur ofan yfirborðs en stundum beljar yfir steininn.Hann er úr sams konar grágrýti og gjárbarmarnir og nokkuð vatnsnúinn.

Guðmundur velti því fyrir sér hvernig steinninn hefði getað borist í gjánna og kemst að þeirri niðurstöðu að hann sé kominn af mannavöldum. Frásögn Jóns styður það enn frekar. Fyrst hefur sennilega verið hlaðið torfi og grjóti yfir steininn en það hefur reynst ótraust líkt og Jón nefnir. Löngu síðar komi til brýrnar þar sem bitar eru lagðir yfir gjána.

Guðmundur vann síðan ítarlega rannsókn á steinbogum hér á Íslandi og birti niðurstöður sínar í Náttúrufræðingnum árið 1970. Þá hefur læðst á honum sá grunur að um mismunandi orðnotkun á orðinu steinbogi geti verið að ræða. Í fornritum og samkvæmt orðabók Fritzners er orðið steinbogi notað um manngerðan hlut. Bæði brýr á vötnum og hvelfingar yfir dyrum á steinhúsum. Orðið nær hins vegar ekki yfir sjálfgerða brú. Guðmundur bendir síðan á örnefni sem tengjast að því er virðist frekar manngerðum steinbogum yfir læki. Því taldi Guðmundur nú, líklegar að steinboginn sem Jón Halldórsson nefnir í Biskupasögum sínum hefði verið manngerður frekar en sjálfgerður.

Ef við höllumst að skýringu Guðmundar Kjartanssonar þá er líklegra en ekki að Helga og brytinn hafi látið brjóta brúna yfir Brúará. Við megum ekki gleyma því að nær allar jarðir í Biskupstungum eru í eigu biskupsstólsins og ábúendur þeirra eru leiguliðar. Þegar ógn steðjaði að matarbúri Skálholtsstaðar er eðlilegra að ímynda sér að Helga og brytinn brjóti niður brúarsmíð skrattans leiguliðanna sem þeir eru hvort eð er alltaf að endurbyggja. Orðið steinbogi festist hins vegar í síðari tíma túlkun orðsins sem sjálfgerður steinbogi en ekki manngerður ef marka má orð Guðmundar. Meira að segja Jón Halldórsson virðist hafa misskilið orð heimamanna þegar hann ritar að steinboginn hafi verið sjálfgerður.

Árferðið

Söguna um brot steinbogans þurfum við að skoða í samhengi við atburði þessara ára. Sérstaklega árferðið sem var mjög slæmt. Veturnir sem kenndir voru við Lurk og Píning drápu fólk unnvörpum og hrakti eftirlifendur á vergang.

Þessi gríðarlega óáran setur sem von er allt samfélagið úr skorðum og umkomulausir og uppflosnaðir streyma til Skálholts. Hvernig brugðust biskupshjónin Oddur Einarsson og Helga Jónsdóttir við aðsókninni? Til marks um hvernig þau kunna að hafa tekið á málum bendi ég á hvernig sonur þeirra Gísli Oddsson höndlar „ómaga og gagnslaust fólk“ eins hann kallar það. Samkvæmt dómsbréfi sem gert var á þriggjahreppaþingi í Laxárholti 12. maí 1631 segist Gísli

ekki vita neina lagaskyldu til þess að sér eða sínum sambornum systkinum eður móður sinni bæri þetta fólk að annast og sér virtist ekki forsvaranlegt að halda slíkar persónur eða so margar á staðarins kosti ellegar að líða að þeir sitji so greinarlaust á staðnum eða búunum ef hann skyldi officialis heita, og hann þóttist hvorki mega flytja þetta þrotbjarga fólk uppá aðra menn né heldur vísa þeim á vergang dómlaust.

Gísli fór fram á að alls yrðu 16 manns reknir burt af staðnum. Þar af voru 4 sem höfðu verið dæmdir í umsjón Odds biskups föður hans. Svo fór að dómurinn féllst á rök Gísla og lét reka allt þetta gagnslausa fólk frá staðnum. Börn jafnt sem gamalmenni.

Nú ber að athuga að Gísli er tekinn við Skálholti. Þetta er fyrsta vorið hans sem Officialis eftir andlát föður síns og hann er giftur svo það er væntanlega komin ný húsmóðir á staðinn. Sjaldan fellur þó eplið langt frá eikinni og ég tel að áhrifa frá móðurinni og uppeldinu hljóti að gæta. Rek ég það meðal annars til þess að síðar þetta sama ár er Gísli kjörinn biskup á alþingi 29. júní. Hann siglir þá samstundis til Danmerkur til að taka við embætti en er undir eftirliti Ketils Jörundssonar heyrara í Skálholti eftir því sem Jón Halldórsson í Hítardal segir okkur. Mun ástæðan hafa verið sú að Helga móðir hans treysti Katli best til að hafa eftirlit með drykkju sonarins. Hún virðist samkvæmt þessu haft nokkur áhrif á staðnum enda bjó hún þar enn.11

Jón Halldórsson í Hítardal

Lítum nú nánar á heimildamann okkar Jón Halldórsson. Hann fæddist 6. nóvember 1665 og dó 27. október 1736. Hann var tekinn í Skálholtsskóla 1679, stúdent fjórum árum síðar árið 1683. Var næstu 3 ár hjá Skálholtsskólameistara og föðurbróður sínum Ólafi Jónssyni sem bjó á Miðfelli í Hrunamannahreppi. Hann er talinn hafa byrjað afritun annála undir handleiðslu hans á þessum árum. Var heyrari í Skálholti 1688-92. Fluttist síðan í Hítardal 1692. Var þó fenginn til að gegna rektorsstörfum við Skálholtsskóla 1708-1710. Hann var kosinn til biskups árið 1720 við jarðarför Jóns Vídalíns og ári síðar við prestastefnu en konungur valdi Jón Árnason til biskups þrátt fyrir að Fuhrmann amtmaður hefði sent stiftamtmanni meðmælabréf með Jóni Halldórssyni. Hann er af mörgum talinn einn merkasti fræðimaður þessarar aldar.12

Í þessari upptalningu hafið þið væntanlega áttað ykkur á hve mikil tengsl Jón á við Skálholtsstað og nágrenni hans. Ekki bara það. Hann er staddur í Skálholti árið 1680 þegar Jón í Miklaholti og önnur fyrirmenni í Tungunum eru að basla við að brúa Brúará. Hann kann því að hafa verið viðstaddur og séð aðfarirnar. Yfirgnæfandi líkur eru líka á að hann hafi heyrt söguna um ódæði Helgu biskupsfrúar og brytans illa um það leiti. Sagan er þá líka einungis 78 ára gömul.

A. Að Skálholti

Við skulum nú beina sjónum okkar að leið beiningamannanna. Þessi leið sem fólkið fór er athyglisverð og þarfnast frekar útskýringar við.

Kort og ferðalýsingar frá því fyrir 1600 eru af skornum skammti og gefa takmarkaðar lýsingar.

Sagan um Helgu og brytann er eina sagan sem ég fann sem gat þess að fólk ferðaðist yfir Brúará með þessum hætti og á þessum stað. Það er að segja. Frásögnin um brot steinbogans er til í nokkrum mismundandi útgáfum en aðrar frásagnir geta ekki ferða þarna um steinbogann. Það er ekki fyrr en í síðari tíma ferðalýsingum þegar frásagnir og sérstaklega myndir erlendra ferðamanna taka að birtast að við sjáum myndir frá Brúarfossi. Þær eru nokkrar afskaplega skemmtilegar en þessi er sennilega raunsönnust og þekktust.

Það er þessi sérstaða steinbogans og svæðisins sem gerir ferð yfir Brúará svo merka. Ferðalöngum finnst þessi staður merkur og myndrænn. Það er því sérkennilegt þegar við sjáum Steinbogans ekki getið eða ferðar ofan til yfir Brúará. Það getur hafa annað hvort stafað af því að ferðalangarnir hafi komið að vestan og stoppað fyrst við í Skálholti, haldið þaðan upp Tungurnar til Geysis og áfram austur til Heklu. Hins vegar kann líka vel að vera að það hafi ekki þótt viðeigandi að teyma erlendan ferðalang yfir sleipan og óvissan stíg steinbogans heldur þótt betra að taka þá yfir vöð og ferjustæði. Ef það er skýringin þá hefur steinboginn verið harðla ómerkilegur. Lítið klettabrot sem hefur kannski legið milli klettaveggja árinnar. Smátt og ómerkilegt sem ekki hefur getað borið hesta heldur einungis örvæntingarfullt beiningafólk.

Kannski er það svo, en við getum í það minnsta slegið því föstu að steinboginn var til í einhverri mynd um aldamótin 1600. Vitnisburður Jóns Halldórssonar er of sterkur til að við dirfumst að véfengja hann.

B. Brytinn

Við skulum líta betur á þátttakendur sögunnar okkar og byrja á brytanum. Annálar greina frá mörgum mannsköðum í bæði Brúará og Hvítá. Ég fann hins vegar ekki frásagnir í annálunum um að bryti Skálholtsstaðar hefði drukknað þar. Flestir þegja þeir yfir ódæði Helgu og brytans.

Ég tókst ekki að nafngreina brytaskrattann en ég vil draga athygli ykkar að þjóðsögu um bryta sem drukknaði í Hvítá. Sú saga segir frá Dagrúnu Jónsdóttur frá Sandlæk í Gnúpverjahreppi. Hún giftist Páli Þórðarsyni bryta í Skálholti sem drukknaði í Hvítá. Sonur þeirra var Gísli, er hins vegar sagður fæddur 1746. Hann hóf á unga aldri nám í Skálholtsskóla en drukknar í Brúará. Þrettán árum síðar drukknar Dagrún í Hvítá haustið 1779“13

Þrátt fyrir nafngreint fólk og nákvæm ártöl getum við ekki vísað því frá okkur að hér sé flökkusögn á ferð. Saga sem fylgt hefur Skálholtsbrytum enda drukknanir tíðar á þessum slóðum eins og fyrr er frá greint.

C. Illkvendið

Hústrú Helga Jónsdóttir er hið illa kvendi þjóðsögunnar. Valdakonan sem veit af fyrirhuguðu broti steinbogans og veitir í það minnsta þegjandi samþykki sitt eða í versta falli fyrirskipar ódæðið. Hvað segja samtímaheimildir um hana?

Helga var mjög vel ættuð. Þau Oddur Einarsson biskup voru gefin saman árið 1591. Þau eignuðust 5 börn. … Þegar Oddur lést 1631 dvaldi hún hún um tíma í Hraungerði eða þar til hún tók við búsforræði Gísla biskups sonar síns í Skálholti tveim árum síðar við andlát tengdadóttur sinnar og var þar þar til Gísli féll frá 1638.

Því er skemmst frá að segja að samtímaheimildir bera Helgu afskaplega vel söguna. Jón Halldórsson sagði hana hafa verið „nafnfræg höfðíngskvinna að röksemd, örlæti, góðgerðum, samt öðrum kvendygðum, svo margra máltæki var á þeim tímum um þau höfðingshjón, að koma mundi í Skálholt eptir þau“ jafnoki Odds biskups, en aldrei jafnoki Helgu.14

Hvernig gat þessi guðhrædda og dyggðuga kona eiginlega gerst sek um slíkt ódæði? Helga lifir löngu og góðu lífi og deyr ekki fyrr en 23. október 1662. á 95. aldursári eftir langa legu. Hins vegar hljótum við að velta því fyrir okkur hvort húsfreyjan hafi ekki haldið vel utan um rekstur staðarins. Heimildirnar um hana benda til þess að hún hafi verið mikill dugnaðarforkur, hún sendir barnapíu með syni sínum til biskupsvígslu og hún tók að sér mörg ættmenni eiginmanns síns.

Var Helga kannski ráðrík nánös sem alþýðan naut þess að bölva sín á milli? Er þetta skoðun fátæklinganna á henni? Tilvitnunin sem ég rakti hér á undan um brottrekstur Gísla sonar hennar á auðnuleysingjum frá Skálholti 1631 gæti verið dæmi um það að Oddur biskup hafi verið linur gagnvart smælingjum en alls ekki frú Helga.

Við megum nefnilega ekki gleyma því þegar ritaðar heimildir á borð við kveðskap Einars Sigurðssonar í Eydölum og annálaskrif Odds Eiríkssonar eru skoðuð að þetta eru náin skyldmenni og að margir aðrir eiga mikið undir ætt þeirra Helgu Jónsdóttur og Odds Einarssonar biskups. Þetta er þó ekki ástæða til að rýra allar lofræðurnar sem um Helgu voru ritaðar.

Refsingin

Snúum okkur þá að refsingunni sem bitnaði á börnum biskupshjónanna. Jón Halldórsson tilgreinir sérstaklega að Eiríkur hafi þótt heimskur og Margrét hafi verið afmynduð í andliti. Til eru margar sögur um fávitaskap Eiríks og er þá iðulega nefnt að það hafi stafað af ódæði móðurinnar. Hann treysti þó á föður sinn og fékk prestsembætti og konu allt fyrir tilstuðlan pabba síns. Margrét var hins vegar alla tíð einhleyp.

Samskipti fátæklinga og auðugra

Það sem Jón Halldórsson nefnir hins vegar ekki í frásögn sinni er að Sigurður sonur þeirra hjóna drukknaði skömmu eftir brot bogans. Hann bjó þá í Hróarsholti og drukknaði í Ölfusá árið 1917. Þetta ýtir undir þá kenningu að um síðari tíma þjóðsagnaflutning sé um að ræða. Sagnamenn vísa til sjáanlegs vitnisburðar um ódæði Helgu biskupsfrúr, þe. fávitaskaps Eiríks og afmyndunar Margrétar, til sannindamerkis um ódæði Helgu.

Er sagan af steinboganum þjóðsaga? Ef svo er hvað segir hún okkur um þennan tíma? Við vitum að mikil harðindi og mannfellir var á þessum árum. Fræðimenn á borð við Guðbrand Vigfússon, Ólaf Davíðsson, Jónas frá Hrafnagili og Einar Ólaf Sveinsson töldu að sögurnar endurspegluðu þjóðarsálinu. Hvernig henni leið og með því að lesa þjóðsögurnar gæti maður þreifað á lífæð þjóðarinnar.

Þjóðsögurnar gáfu mönnum útrás fyrir bældar hvatir og ímyndunarafl, skáldskapargáfu sem annars hefði legið innibyrgð. Sagnamenn ferðuðust á milli bæja og sögðu sögur eða héldu kvöldvökunni gangandi á sínum heimabæ. Hannes Hannesson, sem kallaður var roðauga (f. um 1815) gat sagt þrjár sögur á kvöldi alla vetrarvertíðina, frá 2. febrúar til 12. maí, og var þó ekki þurrausinn.

„Það er einmitt einkenni þjóðsagna að þær eru álitnar sannar á meðan þær ganga í munnmælum.“15

Dómur sögunnar

Hver verður dómur sögunnar líkt og einn ágætur stjórnmálamaður komst að orði nýlega. Við skulum reifa málsatvik örlítið nánar.

Það var sennilegast steinbogi yfir Brúará.

Það er ljóst að Skálhyltingar voru lítt hrifnir af ágangi örvæntingarfulls almúgans.

Hvort hann var manngerður eða sjálfgerður er umdeilanlegt. Hins vegar er ljóst að boginn féll – annað hvort sjálfur eða með smá hjálp.

Stærð glæpsins – hafi glæpur verið framinn – fer eftir því hvort boginn var manngerður eður ei. Hafi boginn verið náttúrusmíð verður að túlka glæpinn sem hræðilegann líkt og síðari tíma túlkanir hafa hallast að.

En hver verður dómur sögunnar?

Ég taldi áður en ég lagðist í þessa rannsókn að gróusögur almennings hefðu gert úlfalda úr mýflugu og dæmt saklausa biskupsfrúna. Nú er ég ekki lengur svo viss.

Viðauki A: Þekktir steinbogar

Í Öðulbrúará sem á upptök sín norðan í fjallinu Kaldbak austarlega á heiðunum upp af Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu eru þrír steinbogar sem eru flatar spangir úr helluhrauni eftir Skaftáreldahraun. Hraunið rann 1783 og áin hefur ekki grafið sér leið undir það heldur telur Guðmundur að áin hafi runnið undir fullgerða spöngina sem hefur myndast líkt og margir frægustu hraunhellarnir hérlendis. Þetta er þó eina dæmið sem honum er kunnugt um þar sem heil á rennur undir slíkar spangir.16

Steinboginn við Gerðisfoss í Galtalæk hefur hins vegar mótast á allt annan máta. Þar hefur Galtalækur sorfið sig niður í Þjórsárhraunið og undir undirlag þess og það fallið niður yfir lækinn að hluta. Þegar Guðmundur rita grein sína er um 20 metra breiður bogi yfir lækinn þar sem hægt er að ganga þurrum fótum yfir. Fáir nota steinbogann til yfirferðar um 1970 en ummerki eru um að hann hafi verið töluvert nýttur hér áður fyrr því grjóti hefur verið hlaðið í stórar skorur, væntanlega til að auðvelda heybandslestum yfirferð. Einnig er hálfhruninn grjótgarður á boganum sem líklega hefur verið til að varna fé yfirferðar. Guðmundur segir bæði mannvirkin fornleg án þess að hætta sér í að tímasetja aldur þeirra.17

Steinbogi á Grindakvísl (Tungná) myndaðist við það að efsta upptakakvísl Tungnár svarf sig niður í helluhraunsjaðar. Nú hefur áin aftur á móti breytt um farveg, rennur að miklu leyti framhjá steinboganum og rennsli hennar í Tungnárjökli hefur minnkað svo að farvegur hennar er oft þurr.18

Syðri-Ófæra á Skaftártunguafrétti skartar steinboga sem myndast hefur líkt og boginn í Galtalæk. Lítill foss hefur holað niður hraunið og laust jarðlag þar undir. Brotið sér síðan leið undir 42 metra breiða spöng (árið 1914) þaðan sem hann rennur áfram niður hraunið.19

Nyrðri-Ófæra í Eldgjá er frægasti og glæsilegasti steinboginn hérlendis og var enn uppistandandi er Guðmundur reit grein sína. Talið er að hann hafi myndast við að hraun hafi runnið í Eldgjá yfir lausara undirlag s.s. vikur eða skriðu. Áin hafi síðar hreinsað það jarðlag á brott.20

Barnafoss í Hvítá í Borgarfirði á um margt sammerkt með Brúarfossi í Brúará. Núverandi árfarvegur er jafngamall Hallmundarhrauni sem ýtti ánni til hliðar og jarðsögulega er farvegurinn ungur – einungis 20 alda gamall – en samt grefur áin sig hratt niður og steinbogar myndast og eyðast við Barnafoss. Frásögn er í Heiðarvígasögu um brú sem lá yfir ána við Bjarnafoss og er þar líklega átt við Barnafoss. Þorvaldur Thoroddsen getur ekki steinboga við Barnafoss í Ferðabók sinni sem gefin var út 1914 en Guðmundur gagnrýnir athuganir hans á ánni og telur vel geta verið að honum hafi sést yfir slík ummerki. Guðmundur nefnir hins vegar til tvo steinboga sem myndast við hafi við Barnafoss á tuttugustu öld. Örla tók á þeim fyrri um 1920, áin gróf sig stöðugt undir hann og braut svo niður á árunum 1958–1960. Sá síðari var orðinn sýnilegur rétt fyrir 1930 og þegar Guðmundur skrifar grein sína þá er steinboginn oftast hátt upp úr vatni. Báðir þessir steinbogar mynduðust í skoru sem minnir nokkuð á gjána í Brúará en er krókóttari og ekkert vatn fossar niður af börmum skorunnar niður í gjána líkt og í Brúarfossi.21

Núpsárfoss er í samnefndri á sem er önnur mesta upptakakvísl Núpsvatna á Skeiðarársandi. Fossinn fellur úr allmiklum en nafnlausum dal milli Eystra-Fjalls og Bjarnarins og niður á Skeiðarársand. Þar undir hefur myndast dæmigerður skessuketill og í framhaldi af honum mjór steinbogi. Leifar af fleiri steinbogum eru í framhaldi af honum.22

Gluggafoss í smáá er nefnist Merkjá og fellur ofan Fljótshlíðina í mörkum á milli Hlíðarendakots og Múlakots. Fossinn er vel sýnilegur úr alfaraleið og er tvískiptur. Hann dregur nafn sitt af því að efri fossinn rennur að hluta til á bak við bergþil sem er um 15 til 20 metra hátt og flæðir vatnið út um þrjá til fjóra „glugga“ sem er hver uppi yfir öðrum. Þessi rennslisleið sem fossinn hafði brotið sig í gegnum virðist hafa verið þröng og hafa átt til að hafa hálfstíflast svo að vatn flóði stundum meir út um efri gluggana. Neðri rennslisleið fossins stíflaðist þó að mestu við vikurgosið í Heklu 1947 vegna þess að vikurinn svarf botn árinnar og bar mikið stórgrýti sem festist í mjórri rennunni. Árfarvegurinn fellur nú að mestu út um efsta gluggann en þó má greina seitl út um neðri gluggana.23

Steinboginn í Þverá sem rennur í Stóru-Laxá í Gnúpverjahreppi er mjög smár. Raunar er Þverá bara lækur og því jafngott að stökkva yfir hana eins og að ganga yfir steinbogann. Hann hefur myndast við skessuketil undir fossi líkt og margir steinbogar hér að framan.24

Steinboginn í Stekkjartúnslæk sem rennur í Hvítá er staðsettur þétt við sjálfa Hvítá. Áður fyrr rann Stekkjartúnslækur annarsstaðar í Hvítá en gróf sig með aðstoð árinnar í gegnum blágrýtisbrotaberg og rennur nú óhindrað þar.25

1Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal, Sögurit (Reykjavík: Sögufélag, 1903), 190.⁠

2Ibid.⁠

3Guðmundur Kjartansson, “Steinbogar,” Náttúrufræðingurinn. Alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði 40, no. 4, Tímarit hins íslenska náttúrufræðifélags (March 1971): 209.⁠

4Ibid., 109.⁠

5Ibid., 209-217, 221-231.⁠ Sjá: Viðauki A: Þekktir steinbogar

6Ibid., 225-226.⁠

7Ibid., 226.

8Ibid.⁠

9Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir: „Skrá yfir þjóðsögur og sagnir í Árnessýslu: skrásettar/ útgefnar 1890-1960.“ BA–ritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði nr. 2040 við Háskóla Íslands 2003, leiðbeinandi Stefanía Júlíusdóttir, Héraðsskjalasafn Árnesinga, 254: „Brúarhlöð“, s. 109.

10 Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir: „Skrá yfir þjóðsögur og sagnir í Árnessýslu: skrásettar/ útgefnar 1890-1960.“ BA–ritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði nr. 2040 við Háskóla Íslands 2003, leiðbeinandi Stefanía Júlíusdóttir, Héraðsskjalasafn Árnesinga, 255: „Brúarhlöð“, s. 109.

11 inngangur að „Annalium in Islandia farrago eða Íslenzk annálabrot 1106-1636.“ eftir Gísla Oddsson biskup í Skálholti. Annálar 1400-1800. Annales Islandici. Posteriorum Sæculorum. V“ Útg. Hið íslenzka bókmentafélag. (Rvk, 1955-88), s. 462-63.

12Jón Helgason. Jón Halldórsson.27-29. PEÓ. Íslenskar æviskrár.

13 Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir: „Skrá yfir þjóðsögur og sagnir í Árnessýslu: skrásettar/ útgefnar 1890-1960.“ BA–ritgerð í bókasafns- og upplýsingafræði nr. 2040 við Háskóla Íslands 2003, leiðbeinandi Stefanía Júlíusdóttir, Héraðsskjalasafn Árnesinga, 309: „Dagrún í Skálholti“, s. 109.

14 Jón Halldórsson: Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal. I. b. 3. h., Sögurit II, útg. Sögufélagið, (Rvík 1906), s. 203.

15Sverrir Jakobsson. „Yfirlit um sögu þjóðsagnasöfnunar“. Íslenskt þjóðsagnasafn V. 54-55.

16Ibid., 210-211.⁠

17Ibid., 211-213.⁠

18Ibid., 213-215.⁠

19Ibid., 215.⁠

20Ibid., 215-216.⁠

21Ibid., 221-225.⁠

22Ibid., 226.⁠

23Ibid., 228-230.⁠

24Ibid., 230.⁠

25Ibid., 230-231.⁠

Brúarfoss í Brúará

Brúarfoss í Brúará

Menningarhátíð og guðþjónusta verður haldin í Úthlíð 9. júlí á afmælisdegi kirkjunnar.
Framundan er samstarfsverkefni við ferðaþjónustuna í Úthlíð þar sem gengið verður að Brúarfossi í Brúará. Þetta er afskaplega fallegur foss sem býr yfir dramatískri sögu um að biskupsfrúin Helga Jónsdóttir og bryti hennar hafi látið brjóta niður steinboga sem lá yfir hann. Þetta gerðu þau til að varna fátæklingum að komast að Skálholti. Grimmileg frásögn en til þessa hafa menn ekki þorað að taka afstöðu til þess hvort um helberan uppspuna sé að ræða eða hvort slíkur steinbogi hafi í raun og veru legið yfir fossinn.
Ég lagðist smá rannsóknir og fann skemmtilega mikið sem styður þessa frásögn. Vonandi verður þetta skemmtileg ganga með góðri kvöldstund þar sem göngugestir munu taka þátt í samræðum um þessa gömlu sögu.
Eftirfarandi dagskrá er að finna á heimasíðu ferðaþjónustunnar í Úthlíð, http://www.uthlid.is:
Mæting í Réttina kl. 17.00, farið að Brúará. Kl. 20.00 hefst messa í Úthlíðarkirkju, að messu lokinni verður Skúli Sæland sagnfræðingur og menningarmiðlari með fyrirlestur um steinbogann í Brúará og veitingar í Réttinni.

Fimmtudagur 9. júlí

Mæting í Réttina kl. 17.00, sameinast í bíla og ekið sem leið liggur að Vallá og gengið þaðan að Brúará, gamla brúin skoðuð og minjar um steinbogann. Síðan er gengið til baka í bílana og þeir sem vilja ganga lengra fara eftir Kóngsveginum heim í Úthlíðarkirkju undir fararstjórn heimamanna.

Kl. 20.00 hefst messa í Úthlíðarkirkju, sr. Egill Hallgrímsson messar og Jóhann Friðgeir Valdimarsson syngur einsöng, Jón Björnsson kantor annast undirleik.
Að messu lokinni hefst samkoma í Réttinni, en þar verður í boði grænmetissúpa og fróðlegur fyrirlestur sem Skúli Sæland sagnfræðingur og menningarmiðlari mun flytja um steinbogann í Brúará.

Frekari upplýsingar má líka sjá á hópsvæðinu „Sögubrot síðustu alda“ á Facebook undir viðburðir og myndir, http://www.facebook.com/topic.php?uid=37580109882&topic=7060#/group.php?gid=37580109882
Vonast til að sjá sem flesta.
Reblog this post [with Zemanta]