Mér hlotnaðist sá heiður að miðla sögu Reykholtsbyggðar til kennara úr Breiðholtsskóla á skemmtiferð í dag. Það er gaman að sjá starfslið vinnustaðar halda tengslum jafnvel og lengi og mér sýndist þessi hópur gera. Þau hittast og fara reglulega í ferðir saman ásamt mökum sínum og nú átti hópurinn leið um Reykholt.

Þau litu við á Garðyrkjustöðinn á Espiflöt þar sem Áslaug Sveinbjarnardóttir fræddi þau um sögu stöðvarinnar og ræktun blóma þar en að því búnu tók ég við hópnum og sagði þeim stuttlega frá upphafi byggðarinnar og hvað olli því að garðyrkjan blómstraði jafn myndarlega hér og raun ber vitni. Sú saga er dálítið sérstök og ég er iðulega spurður eftir svona söguferðir hvort sagan sé ekki skráð einhvers staðar. Það er hún ekki því miður en þar til það verður gert er gaman að geta miðlað henni til áhugasamra hópa.

Ferðalangarnir enduðu svo för sína hjá heiðurshjónunum Knúti og Helenu á Friðheimum þar sem þau fengu kynningu á garðyrkjustöðinni og gafst kostur á að snæða ljúffengan mat hjá meistarakokknum Jóni K.B. Sigfússyni.

Auglýsingar