Rusl – minnismerki – safn?

Eftir að Sean Penn gerði kvikmyndina Into the Wild árið 2007 um líf og andlát flakkarans Chris McCandless hefur strætó 142 orðið að áfangastað mikils fjölda „pílagríma“. Líkt og kom fyrir McCandless sjálfan þá festast sumir í óbyggðunum og björgunarsveitir þurfa að leggja mikið á sig við að bjarga ósjálfbjarga ferðamönnunum. Nú þegar hefur ein stúlka drukknað í svona ferð.

Chris McCandless

 

Sjálfsmynd Chris McCandless við rútu 142. Síðasti dvalarstaður hans og þar sem hann dó úr hungri.

Líf og hugsjónir Chris McCandless hafa heillað vesturlandabúa því hann gaf aleigu sína til góðgerðarmála og hélt á vit „frelsis“ með því að flakka um heiminn. Það er ekki síður áhugavert að fylgjast með áhuganum sem skilgreina má sem myrkvaferðamennsku en það er ferðalög og ferðaþjónusta er miðast við staði sem þekktir eru fyrir hörmungar. Ferðalangarnir eru þá iðulega að upplifa staðinn þar sem þekktur er fyrir t.d. náttúruhamfarir, slys, voveiflega atburði o.s.frv. Þessu má líkja við áhuga fólks á fréttum af slysförum, afbrotum, morðum o.þ.h. Helstu hvatir að ferðalögum til myrkvaáfangastaða eru forvitni, fortíðarþrá, menntun, reynsla, arfleifð, skyldmenni og vinir. Fjölmiðlar eru einnig stór hvati því þeir geta ýtt ferðamanninum af stað og dregið hann að ákveðnum áfangastöðum.

Auglýsingar