Á föstudaginn kemur munu ég og Þóra Björk Ólafsdóttir, safna- og viðskiptafræðingur, kynna MA-ritgerðir okkar í málstofu sem verður í Listasafni Íslands, líkt og sést á fréttatilkynningu Listasafnsins sem sést hér að neðan. Nú er að krossleggja putta í von um góða aðsókn og ekki síður um skemmtilegar umræður að lokinni kynningu.

MÁLSTOFA – SÖFN OG SAMFÉLAG
Föstudaginn 19. apríl kl. 15.00 – 17.00 verður haldin málstofa um söfn og samfélag í Listasafni Íslands við Tjörnina í samstarfi við Félag íslenskra safnafræðinga, Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands og Listasafn Íslands. Rætt verður um hlutverk safna í samtímanum, rekstargrundvöll og samfélagslega ábyrgð. Tvær nýjar rannsóknir á sviði safnafræði verða kynntar. Skúli Sæland mun kynna niðurstöður rannsóknar sinnar, Vinna fúslega gefin. Skoðun á eðli og hlutverki sjálfboðavinnu við menningarstofnanir og Þóra Björk Ólafsdóttir mun kynna rannsókn sína Talnasafn. Greining á rekstrarumhverfi safna í eigu annarra en ríkisins. Málstofan er öllum opin og ókeypis aðgangur.

Nánari upplýsingar veita Rakel Pétursdóttir og Sigurjón Baldur Hafsteinsson

Dagskrá

15.00 – 15.20
Vinna fúslega gefin. Skoðun á eðli og hlutverki sjálfboðavinnu við menningarstofnanir.
Skúli Sæland, safnafræðingur og sagnfræðingur.

Umræður

15.45 – 16.05
Tölum safnað: Rekstrarumhverfi safna á Íslandi – staða safna út frá gögnum safnasjóðs. Mörg söfn á Íslandi hafa lítið rekstrarfé á milli handanna og fáa starfsmenn. Í erindinu verður reynt að varpa ljósi á rekstur 52 safna á Íslandi árið 2010 sem eru ekki í eigu ríkisins og skoðað hvort einhver ákveðin tegund safna sker sig úr hvað varðar rekstrarumhverfi. Önnur ár verða einnig skoðuð til samanburðar ásamt framlögum til ríkissafna á sama tíma.

Þóra Björk Ólafsdóttir, safnafræðingur og viðskiptafræðingur.

Umræður

16.30 – 16.45
Kynning á Félagi íslenskra safnafræðinga.
Rakel Pétursdóttir, formaður

Fundarstjóri
Rakel Pétursdóttir

Auglýsingar