Útsaumur Agnesar Richters á jakka þeim er hún íklæddist á geðsjúkarhúsi undir lok 19. aldar er með þekktari verkum listaverka sem flokka má meðal náttúrutalenta eða ólærðra listamanna.

Á meðan hún dvaldi á Heidelberg geðsjúkrahúsinu þá miðlaði hún hugsunum sínum með útsaum á jakkann og textinn gefur magnaða innsýn í hugskot sjúkrar manneskju. Þessi aðferð hennar við textaskrif virðist tilkomin vegna hæfileika hennar sem saumakona.

Sálfræðingurinn Hans Prinzhorn sem einnig var listasagnfræðingur safnaði saman verkum geðsjúkra í byrjun 20. aldar og varð söfnun hans að merkilegu safni sem ber nafn hans að háskólanum í Heidelberg. Hann gaf út bókina, Bildnerei der Geisteskranken (Artistry of the Mentally Ill), árið 1922 þar sem hann fjallaði um list geðsjúkra. Hún vakti lítinn áhuga sálfræðinga en því meiri hjá listamönnum.

Það sem mér finnst sérlega athyglisvert í þessu samhengi er af hverju jakki Richters er skilgreindur sem list. Hún miðlar lífssögu sinni á jakkann fyrir sig sjálfa af innri þörf og íklæðist þannig veruleika sínum. Hún virðist ekki hafa gert þetta í þeim tilgangi að miðla tjáningu sinni til annarra heldur einungis fyrir sig. Því má segja að skilgreining á list sé háð skilgreiningu samtímans á því hvað er list en það er reyndar ákaflega fljótandi fyrirbæri.

Tengt þessu er áhugavert að skoða upp deilurnar sem risu upp um staðsetningu Prinzhorn safnsins undir lok síðustu aldar. Safnið sem hefur vakið mikla athygli og viðurkenningar er staðsett við háskólann í Heidelberg en upp risu hugmyndir um uppbyggingu safns í Berlín sem fjallaði um þjóðernishreinsun nasista þar sem „óæskilegum“ áhrifum frá aðilum á borð við gyðinga og geðsjúka var eytt. Prinzhorn safnið var þannig flokkað sem listgripir sem nasistar hefðu bæði reynt að stela og auðkenna sem óæskileg einkenni. Aðalkostunaraðilinn gerði kröfu um að Prinzhorn safnið yrði meginstoð þessa nýja safns og undirbúningur byggingar og kynningar hófst án þess að rætt væri við eigendur og umsjónarmenn Prinzhorns safnsins. Að mér vitanlega virðist Heidelberg mönnum hafa komið í veg fyrir þennan flutning en áherslurnar á safnkostinn sýna mismunandi sjónarhorn á gripi safnsins, annars vegar tjáningarform geðsjúkra í formi gripa sem flokka má sem list og hins vegar listgripi sem nasistar flokkuðu sem óæskilega og stálu frá ósjálfbjarga sálum.

Heimildir:

Agnes Richter’s embroidered straightjacket„, The Museum of Ridiculously Interesting Things, sótt 24. 3. 2013.

Mynd af jakkanum á vefsíðunni This is Not Modern Art, sótt 24. 3. 2013.

Mynd af erminni á vefsíðunni The LuluBird.blogspot.com, sótt 24.3. 2013.

The Prinzhorn Collection„, Helen Mccarthy: A Face made for Radio, sótt 24.3. 2013.

Fréttatilkynning 11.4. 2000, University of Heidelberg, http://www.uni-heidelberg.de/press/news/press90e.html, sótt 24.3. 2013.

Auglýsingar