Marilyn Hernandez bloggaði nýlega um sögulegar kvikmyndir og velti þeirri spurningu upp hvort þær hjálpuðu eða stæðu í vegi fyrir skynjun okkar um fortíðina. Hér er stóra spurningin sú hvort réttlætanlegt sé að birta skerta eða brenglaða mynd af fortíðinni, jafnvel áróður, eða hvort hafa skuli það sem sannara reynist.

Ég verð að viðurkenna að ég hef velt þessu oft fyrir mér en frá öðru sjónarhorni. Í menningarlegri ferðaþjónustu tíðkast notkun tákna og einkenna sem öðlast hafa hefð – eða „af því bara“ vegna skorts á annarri skýringu á því sem ferðamönnunum er boðið að skoða. Sannfræðilegt gildi sumra þessara staða og hluta frá fortíðinni eru oft umdeilanlegt en í mismiklum mæli þó. Sem dæmi má nefna hina víðfrægu víkingahjálma með nautshornunum, klæðnað Leifs Eiríkssonar á styttunni fyrir framan Hallgrímskirkju, Herjólfsbæ í Vestmannaeyjum, Þorláksbúð í Skálholti, Eiríksstaði í Haukadal og marga fleiri. Á meðal þeirra sem hafa bloggað og gagnrýnt svona framkvæmdir eru Svanur Gísli Þorkelsson  og Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Eitt af því sem vert er að athuga í svona umræðu er að sannleikurinn er afstæður og hann breytist stöðugt eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram – eða túlkun eldri gagna breytist.

Er þá rétt að taka aldrei afstöðu heldur slá alla þá fræðilegu varnagla sem til eru áður en maður opnar munninn til þess að verða ekki hafður (árum seinna) fyrir rangri sök?

Eða er í lagi að setja fram og tilgátur sem kosta margar milljónir, verður ekki hent svo léttilega fyrir róða og getur meira að segja fest sig í sessi sem „sannleikur“ í augum stórs hluta þjóðarinnar?

Sjálfur tel ég að það sé í lagi að setja fram tilgátur, varpa fram táknmyndum og veita fleirum innsýn í fortíðarpælingar. Það sem ég þoli hins vegar ekki eru fullyrðingar tilgátuaðila um að mynd þeirra af fortíðinni sé sú sannasta þegar oft er einungis um hreina lýgi og áróður að ræða.

Auglýsingar